Björn Birgir Berthelsen fæddist í Hafnarfirði 4. maí 1950. Hann dó á Landspítalanum í Fossvogi 21. desember 2024.

Björn var fjórði í röð átta systkina. Faðir hans var Sófus Berthelsen, bakari og verkamaður í Hafnarfirði, fæddur 18.10. 1914, dáinn 21.12. 2007. Móðir hans var Sesselía Vilborg Pétursdóttir, húsmóðir og verkakona í Hafnarfirði, fædd 15. október 1917, dáin 10. apríl 2011.

Systkini hans eru Elísa Vilborg Berthelsen, f. 1939, d. 2023, Pétur Ágúst Berthelsen, f. 1941, d. 1983, Jóhann Kristinn Berthelsen, f. 1943, d. 1972, Ástráður Berthelsen, f. 1953, d. 2019, Grímur Berthelsen, f. 1954, Sófus Berthelsen, f. 1954, Rannveig Berthelsen f. 1960.

Björn giftist Jónu Guðbjörgu Samsonardóttur bankastarfsmanni 8. apríl 1972, hún er dóttir Samsonar Samsonarsonar bónda, f. 29. ágúst 1917, d. 14. nóvember 1978, og Guðlaugar Helgu Guðbjörnsdóttur, húsmóður og verkakonu, f. 2. maí 1939, d. 27. maí 2018. Þau slitu samvistum 1997.

Afkomendur Björns og Jónu eru 14, þrjú börn, sjö barnabörn og fjögur barnabarnabörn.

Börn Björns og Jónu eru:

1) Helga Birna Berthelsen, f. 8. nóv. 1971, maki Vignir Arnarson, f. 4. ágúst 1971, börn þeirra eru Arna Margrét, f. 1997, sambýlismaður Haukur Einarsson, f. 1990, sonur þeirra Vignir, f. 2023, Davíð, f. 1998 og Freyr, f. 2003.

2) Ragnheiður Oddný Berthelsen, f. 14. jan. 1973, börn hennar eru Thelma Dögg Theodórsdóttir, f. 1986, maki Trausti Jón Þór Gíslason, f. 1988, synir þeirra eru Elías Þór, f. 2019 og Daði Þór, f. 2024, Bára Mjöll Ragnheiðardóttir, f. 1993, sambýlismaður Andri Már Magnússon, f. 1986, barn hennar er Dominik Örn, f. 2013, Jóna Guðbjörg Jónsdóttir, f. 2001, sambýlismaður Snorri D. Eskilsson, f. 2001 og Pétur Birgir Jónsson, f. 2002.

3) Jóhann Kristinn Berthelsen, f. 18. okt. 1980.

Björn sleit barnsskónum í Hafnarfirði. Hann fór ungur á sjó, fyrst með föður sínum á trillu en með hækkandi aldri stækkuðu bátarnir. Hann stofnaði útgerð með föður sínum og bróður, þeir gerðu út frá Snæfellsnesi. Eftir það fluttist hann ásamt fjölskyldunni á Akranes þar sem hann var togarasjómaður. 1979 fluttist þau svo vestur til Tálknafjarðar þar sem hann var á sjó, allt frá togara til trillu ásamt því að koma að margskonar vinnu tengdri sjávarútvegi. Um aldamótin bjó hann í Noregi en fluttist síðan til landsins og bjó lengst af í Reykjanesbæ þar sem hann var bílstjóri hjá Aalborg Portland. Björn lauk starfsævi sinni sem leigubílstjóri á eigin bíl. Síðustu ár hefur Björn verið mikill sjúklingur og bjó síðustu árin í Reykjavík.

Útför hans fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 9. janúar 2025, klukkan 15.

Elsku Biggi besti bróðir.

Ég sagði alltaf að upphafsstafirnir í nafninu þínu, BBB, þýddu Biggi besti bróðir.

Þú varst alveg einstakur maður sem ég leit mikið upp til og bar alltaf virðingu fyrir.

Að vera yngst af átta systkinum og þar af sex bræðrum er ekki alltaf auðvelt. Ég var prinsessan á heimilinu og fékk allt eða nánast allt. En þú settir mér mörk, hjá þér vissi ég hvað ég mætti og hvað ekki. Hjá þér lærði ég að það er ekki sjálfsagt að fá allt og hjá þér lærði ég að bera virðingu fyrir öðrum og þá sérstaklega mömmu, sem ég gat verið eigingjörn og frek við. Þú varst ákveðinn en samt svo blíður, ljúfur og skilningsríkur. Þegar ég fullorðnaðist og eitthvað kom upp á hjá mér var alltaf gott að hringja í þig, fá ráð eða bara gráta þegar mér fannst lífið svo ósanngjarnt. Þú sagðir þá við mig í lokin: „Rannveig mín, þér er ætlað að læra og þroskast af þessu,“ sem er alveg rétt.

Eitt af því sem þú gafst mér þegar ég var barn var stór dúkka sem var og er uppáhaldsdúkkan mín og ég á enn þann dag í dag og mun halda áfram að varðveita. Ég man þegar þú keyptir saumavél handa mér þegar ég var barn sem hægt var að sauma á í alvöru en mömmu fannst það einum of. Þú fórst og skilaðir henni og keyptir dúkkuvagn í staðinn sem ég var ekki síður ánægð með.

Samband okkar hefur alltaf verið gott þrátt fyrir 10 ára aldursmun á okkur.

Þú varst svo mikið á sjó og áttir heima úti á landi svo það var minna um samveru um tíma en það var alltaf yndislegt að koma til ykkar Jónu, hvort sem þið áttuð heima á Akranesi, Ólafsvík eða á Tálknafirði.

Síðan fluttir þú á höfuðborgarsvæðið og hættir á sjónum. Það líkaði mér vel, að fá besta bróður nær mér og geta átt fleiri stundir saman.

Við hjónin fluttum síðan til Spánar 2018 en við vorum dugleg að hringjast á og tæknin gerði okkur kleift að hringja í myndsímtali sem gerði fjarlægðina minni.

Allt sem þú hefur kennt mér, gert fyrir mig, gefið mér og sagt mér mun ég geyma og varðveita vel.

Minning um góðan mann mun alltaf lifa.

Ég veit að hin systkinin okkar fjögur, mágkonur, mamma og pabbi munu taka vel á móti þér á nýjum stað.

Ég elska þig og mun alltaf gera.

Þín litla systir,

Rannveig.