Ný kuðungategund uppgötvaðist nýlega í hafinu við Ísland. Fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar að slíkt sé fátítt og í þessu tilviki sé um að ræða afrakstur mikillar vinnu.
Kuðungurinn er um 3 cm á hæð og tilheyrir ættkvíslinni Buccinum eins og beitukóngur. Hefur þessi kuðungategund verið nefnd eftir Jónbirni Pálssyni, fyrrverandi starfsmanni Hafrannsóknastofnunar, og heitir Buccinum palssoni Fraussen, Delongueville & Scaillet, 2024. Tegundin hefur enn ekki fengið íslenskt nafn.
Fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar að samvinna Jónbjörns og belgísku dýrafræðinganna Christiane Delongueville og Rolands Scaillets hafi leitt til þess að þessi kuðungategund fannst. Jónbjörn hóf á síðasta áratug að safna lindýrum í árlegum leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar og var það upphafið að samstarfi Belganna við stofnunina. Segir stofnunin að þessi söfnun hafi opnað leið til að skrá lindýr sem fást sem meðafli við fiskirannsóknir Hafrannsóknastofnunar og þar með var hafin rannsókn á útbreiðslu lindýra umhverfis Ísland.
Hafrannsóknastofnun segir að ekki sé algengt að nýjar tegundir finnist yfirhöfuð og sömuleiðis séu ekki miklar líkur á að fá tegund nefnda eftir sér.
Eftir Jónbjörn liggur fjöldi greina um líffræði hafsins og er hann annar höfunda bókarinnar Íslenskir fiskar.