Sverrir Tryggvason fæddist á Þórshöfn á Langanesi 25. mars 1930. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 12. desember 2024.
Foreldrar hans voru Tryggvi Sigfússon og Stefanía Kristjánsdóttir.
Sverrir átti tólf systkini en átta þeirra náðu fullorðinsaldri. Eftirlifandi eru Ólafur og Sigurlaug.
Sverrir giftist Sigríði Þorsteinsdóttur, f. 8.1. 1935, þann 25.3. 1956. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Björnsson og Ólöf Kristjánsdóttir.
Sigríður og Sverrir eignuðust þrjú börn, þau Þorstein, Sóleyju og Stefán. Þorsteinn býr í Svíþjóð og er giftur Önnu-Karin, hann á tvö börn og tvö barnabörn. Sóley er gift Jóni Kr. Ólafssyni og á hún þrjú börn. Stefán býr í Svíþjóð, sambýliskona hans er Nymp og á hann tvö börn og tvö barnabörn.
Sverrir lærði vélvirkjun og lauk meistaraprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hann starfaði lengi hjá Olíufélaginu en starfaði sem aðstoðarstöðvarstjóri Olíudreifingar í Örfirisey til starfsloka, árið 2000.
Sverrir starfaði í Kiwanisklúbbnum Eldey frá 1974 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir klúbbinn. Hann var í hússtjórn og byggingarnefnd þegar Kiwanishúsið var flutt þangað sem það stendur í dag, það átti hug hans allan.
Sverrir verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju í dag, 9. janúar 2025, klukkan 15.
Elsku pabbi minn.
Minningarnar sem ég á um þig úr æsku einkennast af væntumþykju. Þú varst alltaf til staðar fyrir mann, sama hvað bjátaði á. Alltaf tilbúinn til þess að syngja okkur í svefn, þrátt fyrir að þú hafir oft sofnað á undan okkur, enda mjög þreyttur því þú varst að vinna svo mikið á þessum tíma.
Í æsku var ég alltaf með sítt hár, en mjög hársár. Áður en þú fórst í vinnuferðirnar greiddirðu mér og settir tvær fléttur í hárið, það var svo gott að láta þig laga á mér hárið. Flétturnar voru svo yfirleitt í hárinu þangað til þú komst heim, þú varst svo mjúkhentur og varst sá eini sem máttir greiða mér. Ég á svo ótrúlega góðar og fallegar minningar um þig.
Þegar við Jón fórum að vera saman man hann fyrst eftir þér að brasa í skúrnum og gera upp gestasalernið í Fífuhvamminum, þú og Ingi bróðir þinn voruð líka að pússa parketið. Jón man eftir þér sem afskaplega elskulegum, alltaf boðnum og búnum til að aðstoða þegar þurfti. Þegar við fluttum til Vestmannaeyja var notuð hestakerra, sem þú hafðir smíðað fyrir Gyðu mágkonu þína, við flutningana. Eins þegar við keyptum okkur sófasett, þú gerðir allt til þess að koma því til Eyja okkur að kostnaðarlausu, sem endaði með því að það kom með olíuskipi til okkar.
Þegar við bjuggum í Eyjum hringdirðu í mig alla virka daga til að vita hvernig við hefðum það. Þú vildir alltaf fylgjast með þínu fólki og að okkur liði vel. Þú varst alltaf svo hlýr og alltaf hægt að leita til þín.
Við Jón minnumst þín með miklum hlýhug, þú varst hreinn og beinn í samskiptum, jafnlyndur og vinur vina þinna. Við kveðjum þig, elsku pabbi og tengdapabbi, með sorg í hjarta, en með góðar og vermandi tilfinningar. Þú varst flott fyrirmynd og gerðir allt og alla betri í kringum þig.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Gísli á Uppsölum)
Sóley Sverrisdóttir.
Elsku besti afi.
Það er með sorg í hjarta sem við kveðjum þig en jafnframt erum við glöð yfir að þú hafir loksins fengið friðinn sem þú varst búinn að bíða eftir svo lengi.
Seinustu daga höfum við verið að rifja upp minningarnar sem við eigum um þig. Þú varst með stærsta faðminn og langstærsta hjartað, alltaf hlýr og tilbúinn til þess að lána manni öxl til þess að hjúfra sig upp að.
Þú varst alltaf í góðu skapi, stutt í brosið og alltaf til í glens, jafnvel aðeins að stríða okkur, sem okkur þótti ekki leiðinlegt og stríddum þér alveg til baka, þú tókst alltaf vel í það, enda mikill húmoristi.
Þú kenndir okkur svo ótrúlega margt; saga, bora, bera á pallinn, negla nagla, flagga íslenska fánanum, og það sem þér fannst mikilvægast, brjóta hann saman á réttan hátt.
Þú settir mikinn metnað í það að líta vel út, hárið vel greitt og maður fann alltaf að þú varst búinn að spreyja á þig vellyktandi, þá varstu tilbúinn í daginn. Enda erum við öll þrjú þannig í dag líka, finnst ekki leiðinlegt að gera okkur fín og vera með vellyktandi eins og þú varst með. Þú lést ekkert stoppa þig, enda skreiðstu undir bíla sjötugur og upp á þak uppi í bústað áttræður – „aðeins að laga þakið“.
Þú kenndir okkur að það er alltaf pláss fyrir ís og rjóma, því sama hversu saddur maður var þá bráðnar það alltaf á milli. Þér þótti ekki leiðinlegt að fara með okkur í bíltúr, sem endaði yfirleitt með því að keyptur var ís.
Við eigum ótal minningar úr bústaðnum, sem var sælureiturinn ykkar ömmu, ykkur leið hvergi betur en í Birkiseli, enda fluttuð þið ykkur þangað um leið og færi gafst og komuð ekki í bæinn fyrr en þið nauðsynlega þurftuð vegna veðurs.
Það var yfirleitt hægt að finna þig úti í bílskúr eða í vinnuskúrnum uppi í bústað. Þar varstu alltaf blístrandi og raulandi og yfirleitt varð Villi Vill, Ellý Vilhjálms eða Haukur Morthens fyrir valinu, enda tengjum við systkinin þessi lög mikið við þig, og hugsum alltaf hlýtt til þín þegar við heyrum þau.
Mikið sem það er sárt að þú sért farinn í sumarlandið en við vitum að þú átt eftir að taka vel á móti ömmu þegar hennar tími kemur.
Við kveðjum þig með sorg í hjarta og minnumst þín með mikilli hlýju.
Bless elsku afi.
Þín
Sigríður Guðlaug (Sigga Lauga), Ólöf María (Óla Mæja) og Ólafur Aðalsteinn (Óli Steini).