Skriður er kominn á áform um uppsetningu kláfs á Eyrarfjalli ofan Ísafjarðar. Eyrarkláfur ehf. hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats verkefnisins og er hún aðgengileg í skipulagsgátt. Gefst áhugasömum færi á að skila inn athugasemdum fram til 4. febrúar næstkomandi.
Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu er fyrirhugað að setja upp kláf til að flytja fólk frá rótum Eyrarfjalls og upp á topp fjallsins sem gnæfir yfir Ísafjarðarkaupstað. Í öðrum áfanga er ætlunin að byggja veitingahús á Eyrarfjalli og í þeim þriðja að byggja sjálfbærar gistieiningar eða hótel á toppi fjallsins.
Reisa á um 10 metra háa byggingu sem hýsi byrjunarstöð kláfsins og ofan á Eyrarfjalli verður endastöð hans með biðsal og stjórnstöð í um 10 metra hárri og 200-300 fermetra stórri byggingu. Lengd kláfvíranna verður um 1,4 km. 45 manns eiga að komast fyrir í kláfhúsinu sem geti annað um 500 farþegum á klukkustund. Gert er ráð fyrir að um 29.000 farþegar verði fluttir með kláfnum á ári. Haft hefur verið eftir Gissuri Skarphéðinssyni forsvarsmanni verkefnisins að fyrsta áætlun geri ráð fyrir að miðaverð verði 7.500 krónur fyrir ferð upp og niður með kláfnum. Hótelið á að geta tekið á móti 60-70 gestum. Áætlaður heildarkostnaður verkefnisins er 3,5 milljarðar króna.
Hugmyndir þessar eru ekki nýjar af nálinni. Í umfjöllun á mbl.is árið 2019 kom fram að Úlfar Úlfarsson verslunareigandi á Ísafirði hefði viðrað þær árið 2006. Árið 2019 voru hugmyndir þessa efnis kynntar bæjaryfirvöldum á Ísafirði. Síðan þá hefur verið unnið að undirbúningi þess.