Baksvið
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Þeir sem telja sig hafa hagsmuna að gæta gagnvart kröfum ríkisins í þjóðlendur á svæði 12 hafa frest til að bregðast við skriflega fyrir 31. janúar næstkomandi. Yfirleitt er talað um eyjar og sker varðandi svæði 12 í umfjöllun um málið en Morgunblaðið fjallaði til að mynda nokkuð um það þegar kröfur ríkisins voru kynntar í febrúar í fyrra.
Krafan er sett fram af fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins. Gagnrýndu þá margir framgöngu ríkisins í málinu, til að mynda hér í Morgunblaðinu, og töldu ríkið ganga mjög langt. Sögðu margir að kalla mætti þetta ýtrustu kröfur en ekki er þar með sagt að þær muni allar ná fram að ganga, þar sem óbyggðanefnd er úrskurðaraðili í málum þar sem tekist er á um eignaréttinn.
Fresturinn var framlengdur
Kröfugerð ríkisins í þjóðlendumálum er ekki ný og er með kröfunum á svæði 12 verið að framfylgja sautjánda og síðasta skrefinu í lögum frá 1998. Tilgangur laganna er að eyða óvissu um eignarréttindi lands, en þjóðlendulögin fela í sér að land sé í eigu ríkisins ef aðrir geta ekki sannað eignarrétt.
Þeir sem telja sig eiga eignarétt í eyjum og skerjum hafa því út mánuðinn til að senda óbyggðanefndinni rökstuðning en fresturinn var framlengdur. Áður stóð til að skila þyrfti 13. janúar.
„Eftir að gagnaöflun lýkur og framkomin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar úrskurðar óbyggðanefnd um kröfur málsaðila. Ef svæði sem ríkið hefur gert þjóðlendukröfur til reynast samkvæmt rannsókn óbyggðanefndar vera eignarlönd er kröfum ríkisins þar hafnað. Svæði sem reynast utan eignarlanda eru hins vegar úrskurðuð þjóðlendur. Ef óbein eignarréttindi reynast til staðar innan þjóðlendna er jafnframt úrskurðað um þau,“ segir á vef nefndarinnar, en hún heyrir undir forsætisráðuneytið.
Afsal frá Hannesi Hafstein
Blaðinu var bent á athyglisvert mál sem á eftir að skera úr um, en ríkið gerði kröfu í eyjuna Bjarnarey á Héraðsflóa og landeigendur á bænum Fagradal gera einnig kröfu í eyjuna.
Þeir hafa litið svo á um langa hríð að þeir séu eigendur Bjarnareyjar en til er afsal frá árinu 1913 sem er undirritað af ekki ófrægari manni en Hannesi Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands. Eignarhaldið var þá keypt af íslenska ríkinu og gekk í erfðir eftir það.
Á dómþingi Héraðsdóms Austurlands árið 2005 féll einnig eignadómur og telja eigendurnir sig því vera með sterkt mál í höndunum. Hér er ekki lagt mat á hvort ríkið geri sér væntingar um að óbyggðanefnd úrskurði ríkinu í hag varðandi Bjarnarey en ríkið heldur sig í það minnsta við kröfuna eftir að kröfurnar voru endurskoðaðar. Ríkið var reyndar ekki beinn aðili að málinu árið 2005 en lögmönnum ríkisins er væntanlega kunnugt um niðurstöðuna. Auk þess liggja ítarlegri gögn ekki fyrir fyrr en á síðari stigum.
Sterk staða
„Bjarnarey var lengi eign Hofskirkju og var seld á grundvelli laga um sölu kirkjujarða til ábúenda í Fagradal,“ segir Jón Jónsson lögmaður, sem fer með málið fyrir hönd eigenda Fagradals.
Grunnhugsunin varðandi þjóðlendumál mun vera að land hafi ekki verið numið í öndverðu. Rökin fyrir eignarhaldinu geti því skort. Í Landnámu eru fáar eyjar nefndar.
„Skráningin varðandi Bjarnarey skilaði sér ekki í þinglýsingarbækur og þess vegna var farið í eignadóm árið 2005 til að fá eignarhaldið staðfest. Ég tel að það sé sterk staða að vera með afsal frá Hannesi Hafstein, sem hlýtur að fela í sér einhvers konar viðurkenningu ríkisins á því að þetta hafi verið raunveruleg eign. Auk þess hefur fengist staðfesting á því með dómi,“ segir Jón.