Heimsmet Fjölmörg heimsmet vöktu athygli á árinu en 14 ára tvíburasystur frá Sviss höfðu mikið fyrir því að komast í heimsmetabókina.
Heimsmet Fjölmörg heimsmet vöktu athygli á árinu en 14 ára tvíburasystur frá Sviss höfðu mikið fyrir því að komast í heimsmetabókina. — Ljósmynd/YouTube/Guinness World Records
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árið var troðfullt af jákvæðum fréttum, krúttlegum dýrum og fallegum augnablikum sem hækkuðu í gleðinni hjá lesendum jafnt sem hlustendum. K100 tók saman nokkrar af eftirminnilegustu jákvæðu fréttum ársins 2024

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Árið var troðfullt af jákvæðum fréttum, krúttlegum dýrum og fallegum augnablikum sem hækkuðu í gleðinni hjá lesendum jafnt sem hlustendum. K100 tók saman nokkrar af eftirminnilegustu jákvæðu fréttum ársins 2024.

Fjórar systur – einn afmælisdagur

Hjá Lammert-fjölskyldunni í Bandaríkjunum er einn dagur ársins sérstaklega merkilegur – afmælisdagur allra fjögurra dætra fjölskyldunnar. Þrátt fyrir að þær séu fæddar með þriggja ára millibili deila þær allar sama afmælisdegi, sem þykir ótrúleg tilviljun og virðist hafa komið foreldrum stúlknanna jafn mikið á óvart og öðrum.

Ofursjaldgæfur tígrishvolpur heillaði heimsbyggðina

Í ágúst fæddist ofursjaldgæfur Súmötru-tígrishvolpur í San Diego Safari-garðinum. Þetta litla krútt hefur ekki aðeins heillað heimsbyggðina heldur einnig styrkt erfðafræðilegan fjölbreytileika tegundar sem er í bráðri útrýmingarhættu. Fæðingin var stór áfangi í alþjóðlegri náttúruvernd og sýnir hvaða árangur getur náðst með samstilltu átaki.

Dvergflóðhestur sprengdi internetið

Moo Deng, dvergflóðhestur frá Taílandi, stal athygli netverja víða um heim með krúttlegum prakkarastrikum, einstakri útgeislun, stórum augum og mjúku útliti og hefur glatt milljónir á samfélagsmiðlum.

Moo Deng hefur ekki aðeins glatt fólk heldur verið því innblástur á ýmsum ólíkum sviðum, svo sem í tónlist, þar sem hún fékk sitt eigið lag á árinu, og í förðunarheiminum, þar sem margir reyndu sitt besta til að ná fram einstaklega „glóandi húð“ flóðhestsins.

Ótrúleg eðlishvöt hunds bjargaði manni

Bear, blendingur af golden retriever og husky, fangaði athygli margra á árinu þegar hann bjargaði lífi eiganda síns, sem fékk alvarlegt hjartaáfall. Ótrúleg eðlishvöt fékk hann til að vekja eiginkonu eigandans, sem fann mann sinn liggjandi meðvitundarlausan. Ekki nóg með það heldur stökk Bear ítrekað á bringu hans og framkvæmdi nokkurs konar hnoð sem hjálpaði til við að halda hjartanu gangandi þar til hjálp barst.

Ed Sheeran kom á óvart

Hinn hugljúfi söngvari Ed Sheeran sá sér leik á borði þegar hann mætti óvænt við síki í London og spilaði lagið „Tenerife Sea“ fyrir skokkara sem átti von á öllu öðru en að fá einkatónleika. Uppátækið bræddi hjörtu netverja þegar hann deildi myndbandi af uppákomunni, sem hefur síðan glatt milljónir manna.

Unginn sem var þyngri en báðir foreldrarnir

Gríðarstór keisaramörgæsarungi, þyngri en báðir foreldrar hans samanlagt, að nafni Pesto, sló í gegn á netinu árið 2024. Myndbönd af honum á samfélagsmiðlum glöddu hjörtu víða um heim á liðnu ári. Nýjustu fréttir af Pesto eru þær að hann er nú farinn að geta synt og hefur misst nánast allan dúninn. Við getum samt staðfest að hann er enn mikið krútt.

Hvítur krókódílsungi klaktist úr eggi

Síðla sumars á síðasta ári klaktist sjaldgæfur hvítur krókódíll út í bandarískum safarígarði og fangaði athygli um víða veröld. Þessi heilbrigði ungi, sem hefur fengið nafnið Frostbite (eða kal á íslensku), er einn af aðeins 12 hvítum krókódílum sem vitað er um. Hann er afkvæmi hvítu krókódílanna Snowflake og Blizzard og var eini unginn, af átta, sem lifði af í ræktunarverkefni sem átti að stuðla að verndun tegundarinnar.

Augnablikið sem opnaði heiminn hjá litlum strák

Eins árs drengur bræddi hjörtu víða þegar hann fékk gleraugu sín í fyrsta skipti og sá heiminn skýrt. Myndbandið, sem deilt var á TikTok, sýnir ósvikna gleði hans og hafa milljónir manna horft á það. Móðir drengsins hefur síðan deilt framförum drengsins, sem kallaður er drengurinn með bláu gleraugun (#BoyWithTheBlueGlasses) á samfélagsmiðlum. Honum hefur gengið ótrúlega vel að aðlagast eftir að hann fékk gleraugun sín og hættir varla að brosa.

Fegurð íslenska refsins þótti ótrúleg

Fallegt myndband af íslenskum heimskautaref vakti mikla athygli á netinu árið 2024, en þúsundir netverja héldu að myndbandið væri gervigreindarsmíð. Ljósmyndarinn svaraði á gagnorðan hátt og deildi fleiri myndum til að sýna raunveruleikann á bak við ótrúlegar upptökurnar af þessu fallegu dýri.

Tvíburasystur slógu heimsmet þrátt fyrir heilaæxli

14 ára tvíburasystur frá Sviss heilluðu áhorfendur með ótrúlegum brelluatriðum á línuskautum og slógu tvö heimsmet í leiðinni. Þær æfðu sig í mörg ár til að ná fullkominni samhæfingu, þrátt fyrir áskoranir eins og minnisvandamál sem önnur þeirra glímir við vegna æxlis í heila sem hún greindist með þegar hún var tveggja ára. Naemi og Alena Stump tóku sig til og skautuðu á stórum U-laga rampi sem var 3,89 metrar á hæð til að slá met í flestum samstilltum brelluatriðum á línuskautum á 30 sekúndum (11), og í flestum samstilltum brelluatriðum á línuskautum á einni mínútu (21).

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir