Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins telur að yfirlýsing Bjarna Benediktssonar um brotthvarf úr stjórnmálum hafi aukið þrýsting á Sigurð Inga Jóhannsson formann Framsóknarflokksins um að gera slíkt hið sama.
Þetta kemur fram í þætti Dagmála, sem opinn er öllum áskrifendum. Þar ræðir Lilja ásamt Óla Birni Kárasyni um pólitíska arfleifð Bjarna, afrek sem mistök, en einnig um afleiðingar brotthvarfs hans fyrir eigin flokk og aðra.
„Það sem ég heyri í okkar fólki er að það vill fara yfir stöðuna. […] Formaðurinn hefur sagst vera að fara að tala við flokksmenn um allt land og ég veit að fólk hefur áhuga á að láta miðstjórnina koma saman og jafnvel flýta flokksþingi,“ segir Lilja.
Flokksmenn ósáttir
„Ég hef verið í mjög miklu sambandi við flokksmenn og heyrt í þeim að það eru margir ekki sáttir við þetta,“ segir hún og bætir við að um leið telji menn að ekki sé eftir neinu að bíða til að byggja flokkinn upp á ný.
Ekki er hins vegar að heyra á Lilju að á henni sé neitt fararsnið úr stjórnmálum.
„Ég er þjóðholl og þykir mjög vænt um íslenskt samfélag og ég hef miklar skoðanir á því,“ segir hún og bendir á að ríkisstjórnin hafi sett Evrópumálin á dagskrá, sem veita þurfi öflugt viðnám.
„Svo já, ég hef mjög mikinn áhuga stjórnmálum áfram.“
Hún játar að það geti verið erfiðara að stýra stjórnarandstöðu utan þings, en í stjórnmálum sé ekkert ómögulegt.
Niðurstöðu beðið
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru háværar raddir innan Framsóknarflokks um að formaðurinn þurfi að axla ábyrgð á kosningaósigri flokksins. Hann fór úr 13 þingmönnum í fimm og ráðherrarnir féllu allir af þingi nema Sigurður Ingi.
Hermt er að Sigurður Ingi vilji bíða þess að endanleg niðurstaða kosninganna liggi fyrir. Vafi er sagður leika á nokkrum atkvæðum í Suðvesturkjördæmi, svo sáralítið þurfi að breytast til að Willum Þór Þórsson komi inn sem uppbótarmaður í stað Sigurðar Inga. Endanleg niðurstaða ræðst ekki fyrr en kjörbréfanefnd þingsins lýkur störfum eftir að þing er kallað saman.