Viðtal
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Þétting byggðar í Reykjavík hefur ekki tekist nógu vel upp á síðustu árum og áhersluna á mjög þétta og háa byggð við borgarlínustöðvar þarf sömuleiðis að endurskoða.
Þetta er mat Magnúsar Skúlasonar arkitekts sem tekur á móti blaðamanni og ljósmyndara á heimili sínu við Klapparstíg í Reykjavík.
Magnús lærði arkitektúr við Oxford School of Architecture á sjöunda áratugnum og var einn af stofnendum Torfusamtakanna sem beittu sér fyrir endurreisn Bernhöftstorfunnar. Magnús var jafnframt einn af stofnendum Íbúasamtaka Vesturbæjar árið 1977 og varð síðar fyrsti formaður Íbúasamtaka Miðborgarinnar 2008. Hann átti sæti í byggingarnefnd Reykjavíkur árin 1974 til 1988 og var formaður árin 1979 til 1982.
Ágengari en áður
Samtalið hefst á að ræða um Skuggahverfið sem blasir við út um gluggann en það er dæmi um að þétting byggðar er ekki ný af nálinni. Hins vegar hefur byggðin í Reykjavík verið þétt með ágengari og umfangsmeiri hætti á síðasta einum og hálfa áratug en áður hefur þekkst. Af því tilefni hafði Magnús samband við blaðamann og vildi leggja orð í belg. Fylgja þar með eftir samtali blaðamanns við arkitektinn Rafael Campos de Pinho í sunnudagsmogganum um síðustu helgi. Gagnrýndi Rafael, sem hefur starfað á Íslandi í um tvo áratugi, við það tilefni útfærsluna á þéttingu byggðar enda megi þétta byggð á betri hátt.
Hentar ekki aðstæðum
Hvers vegna erum við hér saman komnir, Magnús?
„Við ætluðum að tala um hæð húsa og ljósvist og hvaða áhrif hæð húsa hefur á mannlífið yfirleitt. Áhrifin af hæð húsa hafa verið vanmetin á Íslandi. Við búum hér á 64. gráðu norður og skuggarnir eru ansi langir og miklu lengri en í öðrum nágrannalöndum okkar, sem eru miklu sunnar. Danmörk er til dæmis á 55. breiddargráðu, sem munar ansi miklu. Að mínu áliti hafa kollegar mínir og stjórnmálamenn alls ekki hugað nógu mikið að hæðum húsa. Það á helst ekki að byggja hærra í íbúðahverfi en þrjár hæðir og ris eða fjórðu hæð sem er inndregin. Það er til að tryggja að mannlíf þróist milli húsa í birtu og skjóli. Dagsbirtan er enda mjög mikilvæg andlegri og líkamlegri heilsu manna. Það stefnir í heilsuspillandi byggð með þessu framferði borgarinnar.“
Þéttasta hverfið
Hversu raunhæft er að takmarka hæðir húsa við þessi mörk m.t.t. annarra markmiða eins og að hafa lifandi borg?
„Ef við tökum til dæmis Þingholtin, eitt þéttbýlasta hverfi á Íslandi, er húsahæðin þar jafnan 2-4 hæðir. Það er undantekning ef hús í hverfinu eru hærri en 3 hæðir og ris, þar fara einstaka hús upp í 5 hæðir. Þingholtin eru sjálfbært hverfi með hér um bil 50 íbúðum á hektara en þar er byggt lágt og þétt. Það er dæmi um lifandi borg. Sömuleiðis gamli Vesturbærinn.“
En nú á þétting byggðar að styðja við innleiðingu nýs samgöngukerfis. Meiri þéttleiki á að styrkja grundvöll borgarlínu en íbúar skulu jafnan vera steinsnar frá næstu stoppistöð og vagninn fara á 7-10 mínútna fresti. Er það ekki göfugt markmið?
Vissulega göfugt markmið
„Jú, vissulega. Það hljómar vel að hafa tíðar ferðir almenningsvagna. Þegar við vorum í vinstri meirihlutanum [í Reykjavík fyrir rúmum fjórum áratugum] vildum við einmitt bæta strætisvagnakerfið með aukinni tíðni. Þá ekki síst með því að bæta við biðskýlum og hafa þau upphituð þannig að fólk gæti beðið án þess að vera hrollkalt. Þetta eru göfug markmið en ef borgarlínan þýðir að við erum að eyðileggja borgina, eins og mér sýnist vera að gerast með því að byggja allt of há hús með fram væntanlegri legu hennar þannig að ljósvistin fari mikið forgörðum, verðum við að hugsa okkar gang betur.“
Þetta eru stór orð. Útskýrðu fyrir leikmönnum af hverju það er heilsuspillandi að búa í íbúðum sem sólin skín ekki inn í?
„Þetta hefur verið rannsakað fram og til baka í gegnum árin og fyrir rúmri öld gaf einn af frumkvöðlum okkar í þeim málum, Guðmundur Hannesson, út bókina Um skipulag bæja, þar sem hann skrifaði að skortur á dagsljósi og sól hefði mjög vond áhrif á mannskepnuna.
Ýtir undir brask
Stefnan ýtir líka undir væntingar og lóðabrask hjá fjármálaspekúlöntum. Við stöðvar borgarlínunnar er áformað að reisa háhýsi sem munu skyggja á byggðina sem fyrir er. Það er til dæmis komin hreyfing á alls konar lóðabrask í Kópavogi og jafnvel í Garðabæ. Það þarf að efla almenningssamgöngur en ef við ætlum að gjalda það þessu dýra verði með borgarlínu þá segi ég bara nei. Eitt dæmið er Keldnalandið en lóðasala í hverfinu á að standa straum af borgarlínu. Það verður bara til þess að lóðaverðið verður uppsprengt og íbúðir verða dýrari, sem hefur verðbólguáhrif.“
Verktakar hafa gagnrýnt í samtölum við Morgunblaðið að gert sé ráð fyrir takmörkuðum fjölda bílastæða í Keldnalandinu og að íbúar, þar með talið eldra fólk, muni þurfa að ganga í bílastæðahús til að komast í bíl. Hversu raunhæft er þetta á 64. breiddargráðu?
„Það er ekki raunhæft.“
Þannig að það er ekki raunhæft að þverskurðurinn af samfélaginu muni kjósa slíka byggð í Keldnaholti? Að meirihluti íbúanna vilji blandaða umferð en jaðarhópur nær eingöngu ferðast með strætó?
„Alls ekki. Svona viðamiklar breytingar þurfa að gerast hægt en ekki svona allt í einu. Þetta rifjar upp öfgar í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1962-1973.“
Rífa átti Grjótaþorpið
Þá átti hraðbraut að fara upp á Tollhúsið og áfram í Grjótaþorpið?
„Jú, það áttu að vera hraðbrautir út um allt. Meðal annars í gegnum Grjótaþorpið og upp eftir Grettisgötunni. Það eina sem stoppaði þá framkvæmd var Hegningarhúsið sem ekki var hægt að rífa vegna mikils varðveislugildis. Boðaðar voru stórfelldar breytingar sem þýddu mikið niðurrif húsa en við börðumst hatrammlega gegn því á sínum tíma.“
Hvar varstu þá?
„Ég er menntaður í Oxford í Englandi, en þar er mikið af gömlum húsum og þegar ég kom heim frá námi hafði ég mikinn áhuga á varðveislu húsa.“
Lítill áhugi á húsafriðun
Hvað ár komstu heim?
„Árið 1968. Þá voru flestir kollegar mínir menntaðir á Norðurlöndum eða í Þýskalandi og þeirra á meðal var lítill áhugi á húsvernd með undantekningum þó.“
Á Íslandi?
„Já.“
Þannig að þetta var tíðarandinn á sjöunda áratugnum? Áhersla á hraðbrautir sem tengdar voru við framfarir og lítil stemning fyrir því að varðveita gömul hús. Að allt skyldi snúast um að nútímavæða skipulagið m.t.t. bílsins. Hvenær byrja menn að berjast á móti þessu?
„Ég kem sem áður segir heim 1968 og þá voru komnir til sögunnar frumkvöðlar í húsvernd á Íslandi og vil ég nefna þar efstan á blaði Hörð Ágústsson. Eftir tvö ár fór ég til Noregs og starfaði þar á arkitektastofu í tvö ár. Kom svo aftur heim 1972 og þá könnuðum við Gestur Ólafsson arkitekt, sem er líka breskmenntaður frá Liverpool, landslagið hjá hinum pólitísku flokkum en þá var rætt um að rífa Torfuna við Lækjargötu og byggja háhýsi í staðinn. Við Gestur og Þorsteinn Gunnarsson arkitekt, sem var menntaður í varðveislu húsa í Danmörku, fengum Arkitektafélag Íslands til að samþykkja tillögu um að Torfan yrði friðuð. Og við Gestur fórum síðan á fund flestra stjórnmálaflokkanna og það reyndist aðeins mega finna snefil af áhuga á húsfriðun hjá Alþýðubandalaginu sem varð til þess að ég fór að styðja þann flokk.
Síðan hóf ég samstarf við Sigurð Harðarson arkitekt og þá hófum við, auk þessara frumkvöðla, að vinna enn frekar að húsafriðun. Við sáum að það átti að rífa fjölda húsa út af þessu skipulagi. Bíllinn átti sem sagt að ráða og fara alls staðar í gegn og rífa átti hús og tré upp með rótum. Þá gerðist ég meðal annars einn af stofnendum Íbúasamtaka Vesturbæjar til að berjast gegn slíku niðurrifi. Svo varð ég formaður byggingarnefndar í þessum vinstri meirihluta í Reykjavík og það verður til þess að öll þau ár sem ég sit á þeim stóli var aðeins eitt hús rifið í Reykjavík. Þá var ég með nýja reglugerð í höndunum sem sagði að það þyrfti leyfi til að rífa hús.“
Samræmist ekki vinstristefnu
Þú rifjar upp fyrri ofuráherslu á bílaumferð þegar við ræðum um ofuráherslu á þéttingu byggðar og borgarlínu. Tvo póla í mismunandi tíðaranda. Nú komst R-listinn til valda árið 1994 með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í broddi fylkingar og síðan hafa vinstrimenn stýrt borginni lengstum. Tímabilið sem er tengt við þéttingu byggðar má því að stærstum hluta tengja við valdatíð vinstrimanna en ekki hægrimanna. Hvernig fellur það að stefnu vinstrimanna að reyna að fá sem mest fyrir lóðir með því að hafa sem flestar íbúðir á þéttingarreitum? Stuðla að íbúðamarkaði sem er leiddur af auðmönnum?
„Ég sé ekki að það falli að stefnu vinstrimanna að stunda það sem ég kalla lóðabrask, þ.e.a.s. að selja lóðir fyrir eins hátt verð og mögulegt er. Það er ekkert eðlilegt að sveitarfélag skuli afla sinna tekna með lóðabraski. Síðan ganga lóðirnar kaupum og sölum og með því eykst krafan um að auka nýtinguna. En samhliða óhóflegum hæðum húsa virðist byggingarlist þeirra heldur ekki vekja sérstaka aðdáun. Hitt ber að taka fram að tekist hefur vel upp með að varðveita heildarmynd Laugavegarins með varðveislu húsa við götuna.“
Þarf að vera jafnvægi
Hvað með það sjónarmið að lóðir séu almenningsgæði og að almenningur eigi því að fá sem hæst verð fyrir þær?
„Það er vandasamt að fylgja slíku markaðssjónarmiði. Því ef menn fá lóðirnar of ódýrar og geta síðan fengið meira fyrir þær með endursölu er það heldur ekki gott. Það þarf að vera eitthvert jafnvægi. Fjárfestar ættu ekki að fá að keppast um að hækka lóðaverðið enda leggst það allt á íbúðaverðið og hinn almenna borgara.“
Þannig að þetta er í raun ekki vinstristefna heldur hafa vinstrimenn tekið upp hægri stefnu og síðan tengt hana við markmið um borgarlínu og skyld félagsleg markmið og aðgerðir í loftslagsmálum?
„Já, ef það á að byggja upp borgarlínu á þennan hátt með því að braska með lóðir með fram henni og byggja nógu margar íbúðir með tilheyrandi eyðileggingu á borgarlandinu vegna hæðar húsa, skorts á byggingarlist og skerðingar á góðri ljósvist er það að vissu leyti ómanneskjuleg öfugþróun sem hækkar íbúðaverð sem kemur svo af stað verðbólgu á landsvísu.
Með hækkuðu íbúðaverði hefur ungu og efnaminna fólki reynst enn erfiðara að eignast íbúð svo ekki sé minnst á leigumarkaðinn sem er aðallega rekinn af fasteignafélögum þar sem leiga er oft úr hófi. Sveitarfélagið hefur brugðist þessu fólki að mestu. Óhagnaðardrifin félög eins og Bjarg hafa að vísu komið til sögunnar en hafa lítil áhrif þegar til heildarinnar er litið,“ segir Magnús Skúlason sem kallar eftir endurskoðun á skipulagsstefnu Reykjavíkur.