Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Þegar rýnt er í löndunartölur Fiskistofu sést að á síðasta ári jókst landaður botnfiskafli í mörgum höfnum á landinu, þó hvergi meira en í Hafnarfirði þar sem bættust við rúm tíu þúsund tonn og varð bærinn þriðja stærsta löndunarhöfn botnfisks á síðasta ári.
Ekki verður annað séð en að stóran hluta af þessari þróun megi rekja til áhrifa eldgosa og jarðhræringa á Reykjanesi með tilheyrandi rýmingu og lokunum í Grindavík. Þar var á síðasta ári aðeins landað rúmlega 16 þúsund tonnum sem er um það bil helmingi minna aflamagn en árið 2023, en þá var Grindavík næststærsta löndunarhöfn botnfiskafla.
Útgerðir í Grindavík hafa margar, sérstaklega Þorbjörn, landað sínum afla í Hafnarfirði en einnig hefur grindvískum afla verið landað víðar.
Mikillar aukningar í lönduðum botnfiskafla gætti einnig í Reykjavík þar sem í fyrra var landað 65.579 tonnum af botnfiski, sem er rúmlega sjö þúsund tonna aukning frá árinu á undan. Reykjavík var langstærsta löndunarhöfn botnfiskafla á síðasta ári.
Einnig varð myndarleg aukning í botnfiskafla sem landað var í Vestmannaeyjum og jókst hann um 14% milli ára, en Vestmannaeyjar voru næststærsta löndunarhöfn botnfisks á árinu. Auk þess jókst botnfiskafli sem landað var í Neskaupstað um heil 35% og 14% í Þorlákshöfn.
Fjórða stærsta löndunarhöfn botnfiskafla var á síðasta ári Sauðárkrókur með rúm 21 þúsund tonn, en á eftir fylgja Akureyri með 20,6 þúsund tonn og Rif með 20,5 þúsund tonn.
Reykjavík í sérstöðu
Á síðasta ári var landað 438 þúsund tonnum af botnfiski. Um 40% alls botnfiskafla var landað í fimm höfnum þar sem mest var landað af honum. Mestum þorski var landað í Reykjavík þar sem skip lönduðu 18.709 tonnum. Á eftir fylgir Hafnarfjörður með 14.753 tonn, en þar var aðeins landað rúmlega níu þúsund tonnum af þorski 2023. Þá var þriðja mesta þorskafla landað í Vestmannaeyjum og fjórða mesta á Rifi.
Reykjavík sker sig hins vegar sérstaklega úr í tilfelli karfa, en þar var landað 14.447 tonnum af tegundinni í fyrra og eru það tæplega 38% alls karfaafla á landinu. Sömu sögu er að segja af gulllaxi, en 64% af þeim afla var landað í Reykjavík og 44,2% af grálúðunni.
53% aflans í fimm höfnum
Afli íslenska flotans var á síðasta ári rúmlega milljón tonn en árið á undan var heildaraflinn tæplega 1,4 milljónir tonna. Munar þar aðallega um 325 þúsund tonna loðnuvertíð veturinn 2023 en ekki var veidd loðna á síðasta ári.
Mestum afla var landað í Neskaupstað og næstmestum afla í Vestmannaeyjum. Á eftir fylgir Vopnafjörður, Eskifjörður og svo Reykjavík. Athygli vekur að í þessum fimm höfnum þar sem mestum afla var landað í fyrra var samtals landað 539 þúsund tonnum, eða um 53% heildaraflans. Vert er að geta þess að uppsjávaraflinn vegur þungt í þessum samanburði og var hann í fyrra var 545 þúsund tonn, en aflanum var aðeins landað í tíu höfnum.
Vekur sérstaka athygli að Reykhólar ná á lista yfir helstu löndunarhafnir landsins, en þar er landað stórþara. Var stórþaraflinn sem þar var borinn að bryggju rúm 19 þúsund tonn.