Albert Þorsteinsson fæddist í Hafnarfirði 8. ágúst 1928. Hann lést á Hrafnistu 28. desember 2024.

Foreldrar hans voru Þorsteinn Arndal og Sigríður Albertsdóttir.

Albert ólst upp á Vesturbraut í Hafnarfirði og tók gagnfræðapróf áður en hann fór í Iðnskóla Hafnarfjarðar þar sem hann nam prentiðn. Hann starfaði frá 1946-1997 í Prentsmiðju Hafnarfjarðar. Hann kvæntist Brynhildi Kristinsdóttur og eignuðust þau tvær dætur, Sigríði og Hildi Guðlaugu.

Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 9. janúar 2025, klukkan 11.

Albert Þorsteinsson sem lést 96 ára gamall var fremur sérstakur maður. Þegar hann hóf sambúð með Brynhildi Kristinsdóttur fylgdi tengdamóðir hans með í sambúðina og aldrei féll styggðaryrði frá honum til Ráðhildar, ekki einu sinni þegar hann var skammaður fyrir að kíkja í kæliskápinn á milli matmálstíma. Þegar dóttir hans Hildur tók að fjölga mannkyninu opnaði hann heimili sitt fyrir hennar litlu fjölskyldu og festi plötu með nöfnum þriggja kynslóða á hús þeirra hjónanna.

Hann var stoltur af húsinu á Svöluhrauni í Hafnarfirði og sinnti viðhaldi þess af miklu kappi. Gaman þótti honum að ræða byggingu þess á sprungnu hrauninu, sitjandi úti á verönd með guðaveigar í glasi og andandi að sér grilllyktinni á sumarkvöldi.

Honum líkaði vel lítill fordrykkur á laugardagskvöldi en var mjög hófsamur á vín, og sannkallaður nautnamaður á mat, enda slógu þær Ráðhildur, Brynhildur og Hildur upp veislu í hvert sinn sem sest var til borðs. Hélt Hildur þeirri venju áfram eftir að móðir hennar og amma voru fallnar frá, eða þar til Albert flutti á Hrafnistu fyrir rúmu ári.

Albert missti móður sína ungur að aldri og ólst upp hjá fósturömmu sinni í vesturbæ Hafnarfjarðar. Hann var seigur við að hirða kolamola sem hrundu af bílpöllum á holóttum götunum og hjálpaði þannig snemma við að draga björg í bú. Sem unglingur upplifði hann hersetu Breta í Firðinum sem hafði mikil áhrif á hann og leiddi til kaupa á forláta mótorhjóli sem veitti honum mikla ánægju.

Hann langaði að læra rafvirkjun en erfitt var að komast á samning og fór hann því í prentnám þegar fjölskylduaðstæður kröfðust annarrar fyrirvinnu í stríðslok. Á þeim tíma féll hann fyrir briddsinu sem hann síðan sinnti af miklum áhuga, sem innleiðing nýrra sagna í standardkerfinu ber gott vitni um.

Hann varð fljótt einn af burðarstólpum Prentsmiðju Hafnarfjarðar og þekktur fyrir vandað handverk. Unnsteinn heitinn Stefánsson hafði einu sinni á orði að engum treysti hann eins vel til verka og Alberti tengdaföður mínum.

Ég og mín fjölskylda eigum þeim hjónum Alberti og Brynhildi mikið að þakka og vona ég að hann fái svo góð spil þarna fyrir handan að reyna megi við alslemmu.

Olgeir
Sigmarsson.