Breytingar Með nýjum lögum annast Sjúkratryggingar Íslands sjúklingatryggingu án tillits til þess hvar sjúklingur naut heilbrigðisþjónustu.
Breytingar Með nýjum lögum annast Sjúkratryggingar Íslands sjúklingatryggingu án tillits til þess hvar sjúklingur naut heilbrigðisþjónustu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Iðgjaldagreiðslur flestra heilbrigðisstétta munu lækka í kjölfar gildistöku nýrra laga um sjúklingatryggingu og við setningu reglugerðar um iðgjald vegna slíkrar tryggingar, sem tók gildi samhliða lögunum 1

Sviðsljós

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Iðgjaldagreiðslur flestra heilbrigðisstétta munu lækka í kjölfar gildistöku nýrra laga um sjúklingatryggingu og við setningu reglugerðar um iðgjald vegna slíkrar tryggingar, sem tók gildi samhliða lögunum 1. janúar. Í tilfellum lækna munu iðgjöld vegna tryggingarinnar þó hækka.

Þetta kemur fram í minnisblaði heilbrigðisráðherra sem fór fyrir ríkisstjórn á þriðjudag en þar er vísað til upplýsinga sem ráðuneytið hefur og styðja þá fullyrðingu.

Með nýju lögunum er fyrirkomulagi sjúklingatryggingar breytt. Samkvæmt eldri lögum önnuðust Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sjúklingatryggingu vegna rekstraraðila í eigu ríkis eða sveitarfélaga en hins vegar bar sjálfstætt starfandi rekstraraðilum í heilbrigðisþjónustu að kaupa sjúklingatryggingu hjá vátryggingafélagi á Íslandi. Í þeim tilfellum sem SÍ annaðist sjúklingatryggingu giltu stjórnsýslulög um meðferð bótamála en í tilfellum tryggingafélaganna var málsmeðferðin með ýmsum hætti.

Allir greiði nú til SÍ

Við gildistöku nýju laganna varð sú breyting á tilhögun sjúklingatryggingar að SÍ annast sjúklingatryggingu án tillits til þess hvar sjúklingur nýtur heilbrigðisþjónustu. Í minnisblaði ráðherra segir að með breytingunni sé leitast við að samræma verklag við meðferð bótamála og auka vernd sjúklinga sama hvar þeir njóta heilbrigðisþjónustu. Lögunum samkvæmt skulu sjálfstætt starfandi rekstraraðilar greiða iðgjald til SÍ en ráðherra skal setja nánari ákvæði um fjárhæð iðgjalds í reglugerð. Fjárhæðin skal taka mið af fjölda mála og áætluðum kostnaði við afgreiðslu mála og bótagreiðslu. Þá skal hún einnig miðast við áhættustuðul og umfang heilbrigðisþjónustu.

Gjaldskrá fylgir reglugerðinni þar sem löggiltum heilbrigðisstéttum er skipt upp í átta áhættuflokka sem síðan ákveða iðgjald hverrar heilbrigðisstéttar fyrir sig. Gjaldskráin er byggð á flokkunarkerfi WHO á störfum í heilbrigðisgeiranum, tjónareynslu heilbrigðisstétta, rekstrarkostnaði SÍ, hærri hámarksbótum og framkvæmd sjúklingatrygginga í Noregi. Iðgjöldin mega aðeins standa undir því sem nemur kostnaði við umsýslu verkefnisins og útgreiddum bótum.

Iðgjöld lækna hækka

Í tilfellum lækna munu greiðslur vegna tryggingarinnar hækka, einkum vegna þess að tjónaminni heilbrigðisstéttir hafa hingað til greitt undir tjón tjónameiri heilbrigðisstéttanna, sem segir í minnisblaðinu. Þar segir einnig að ráðuneytið hafi komið til móts við athugasemdir lækna í samráði og lækkað iðgjaldagreiðslur þeirra nokkuð frá því sem kynnt var í samráði auk þess að veita einnig öllum heilbrigðisstéttum afslátt af iðgjaldagreiðslum árið 2025 vegna væntinga um minni rekstrarkostnað Sjúkratrygginga Íslands fyrsta árið.

Samtök heilbrigðisfyrirtækja (SH) hafa gagnrýnt breytingarnar og gerðu það meðal annars í desember í umsögn um drög að reglugerðinni. Á vettvangi samtakanna hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir við þær kostnaðarhækkanir sem reglugerðin mun hafa í för með sér. Í umsögn sinni tóku samtökin dæmi um skurðlækni sem felldur verður undir áhættuflokk F8 samkvæmt gjaldskrá, hann hafi greitt 400-600 þúsund krónur á ári í iðgjöld til vátryggingafélags, sem þekur bæði sjúklingatryggingariðgjald og iðgjald fyrir ábyrgðatryggingu læknisins. Læknirinn muni samkvæmt gjaldskrá eftir breytingarnar greiða um 2,7 milljónir króna á þessu ári í iðgjöld vegna sjúklingatryggingar auk kostnaðar vegna kaupa á ábyrgðartryggingu. Hefur verið nefnt að kostnaðaraukningin geti numið 800-950 krónum á hvern sjúkling læknisins.

Að auki beri að tryggja starfsmenn viðkomandi, t.a.m. starfsmenn skurðstofa þar sem læknirinn annast skurðaðgerðir. Samtökin áætla að heildarkostnaðaraukning af þessum sökum muni nema á bilinu 1.500-2.000 krónum á hvern sjúkling.

Misvísandi upplýsingar

Bent er á í umsögn SH að í minnisblaði heilbrigðisráðuneytisins frá 25. mars 2024 til velferðarnefndar hafi því verið haldið fram að ekki væri búist við því að ný lög myndu hafa áhrif á kostnaðarmat einkarekinnar heilbrigðisþjónustu enda sé sú þjónusta vátryggingaskyld og iðgjaldið einungis koma í stað þeirrar vátryggingar. Ekki væri áætlað að iðgjaldið yrði hærra en kostnaður við vátryggingar. Í ljósi þess vekur sú mikla kostnaðaraukning sem boðuð er furðu samtakanna. Muni hún skapa mikið óhagræði í samanburði við það hagræði sem vátryggingafélög hafa náð í sínum rekstri.