HM 2025
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Teitur Örn Einarsson, örvhenta skyttan hjá Íslendingaliði Gummersbach í Þýskalandi, er á leið á sitt fjórða stórmót með íslenska landsliðinu í handknattleik síðar í mánuðinum. Fram undan er HM 2025 í Króatíu, Danmörku og Noregi þar sem Ísland spilar í G-riðli í Zagreb í Króatíu.
„Það er alltaf gott að koma hérna í íslenska gallann, vakna í skítakulda og drífa sig á æfingu. Þetta er alltaf geggjað finnst mér.
Það er mikið stolt sem fylgir því að vera í landsliðinu og gasalega gaman að vera með þessum hópi sem er með alla þessa hæfileika. Ég er spenntur og klár í verkefnið,“ sagði Teitur Örn í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu íslenska liðsins í Víkinni á þriðjudag.
Íslenski hópurinn er kominn til Svíþjóðar þar sem liðið mætir heimamönnum í vináttulandsleik í Kristianstad klukkan 18 í kvöld. Liðin mætast svo í öðrum vináttulandsleik í Malmö á laugardag. Fyrsti leikur á HM er svo 16. janúar gegn Hafsteini Óla Berg Ramos Rocha og félögum frá Grænhöfðaeyjum.
Skilur eftir sig stórt skarð
Íslenska liðið er afskaplega vel mannað þegar kemur að örvhentum skyttum þar sem Teitur hefur þurft að berjast um sæti við Ómar Inga Magnússon, Viggó Kristjánsson og Kristján Örn Kristjánsson undanfarin ár.
Fjarvera Ómars Inga vegna meiðsla þýðir að Teitur Örn fær ásamt Viggó stórt tækifæri til þess að láta ljós sitt skína.
„Það segir sig sjálft að Ómar er einn besti leikmaður liðsins og skilur eftir sig stórt skarð í hópnum. Ég kem inn fyrir Ómar en er allt öðruvísi leikmaður en hann. Ég kem inn og verð að spila á mínum styrkleikum,“ sagði hann.
Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson sagði í samtali við Morgunblaðið á dögunum að íslenska liðið þyrfti að laga spilamennsku sína að fjarveru Ómars Inga.
„Í sjálfu sér breytist spilið okkar sem liðs ekkert. Það mun líta öðruvísi út þegar ég er inni á vellinum samanborið við Ómar, við erum alveg sitt hvor leikmaðurinn. Við þurfum bara að finna taktinn sem lið og ég verð að koma inn með allt sem ég er góður í,“ útskýrði Teitur Örn.
Lenti í leiðinlegum meiðslum
Selfyssingurinn glímdi sjálfur við meiðsli á hægri fæti frá september til nóvember og gat á þeim tíma ekkert spilað fyrir Gummersbach. Kvaðst hann nú vera við hestaheilsu.
„Núna er heilsan mjög góð. Ég lenti í leiðinlegum meiðslum um miðjan vetur og var í burtu í tvo mánuði en ég er núna búinn að ná öllum desember og er í toppformi. Líkaminn er bara góður,“ sagði Teitur Örn, sem er 26 ára gamall.
Hjá Gummersbach er landsliðsmaðurinn Elliði Snær Viðarsson liðsfélagi hans auk þess sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar liðið. Teitur Örn gekk til liðs við félagið frá Flensburg síðastliðið sumar og er hæstánægður á nýjum stað.
„Það fer mjög vel um mig. Þetta er æðislegur staður og náttúrlega snilldarlið með mörgum ungum, góðum og skemmtilegum leikmönnum. Svo erum við með Gauja og hann er alveg frábær þjálfari. Mér líður mjög vel þarna og það er gott að spila undir hans stjórn.“
Eins langt og við getum
Ísland hafnaði í tíunda sæti á EM 2024 fyrir tæpu ári. Spurður hverjar væntingar íslensku leikmannanna væru fyrir heimsmeistaramótið í ár sagði hann:
„Við erum allir keppnismenn og spilum allir á hæsta stigi þannig að það er ekkert annað í boði en að stefna sem hæst. Við þekkjum ekki neitt annað. Síðan þarf maður líka að taka þetta í skrefum.
Það fyrsta sem við horfum á er að fara upp taplausir úr riðlinum, það er aðalatriðið núna. En það er klárlega enginn efi hjá neinum um að við ætlum að fara eins langt og við mögulega getum.
Við erum með gæðin í það. Við þurfum bara að hitta á það. Undirbúningurinn þarf að vera í lagi til þess.“
Teitur Örn bætti því við að undirbúningurinn hefði gengið vel til þessa.
„Já, mjög vel. Æfingarnar hafa verið flottar og stemningin í hópnum er góð. Mér líst bara vel á þetta,“ sagði Selfyssingurinn kröftugi að lokum í samtali við Morgunblaðið.