Sigurður Albertsson var fæddur 30. nóvember 1934 í Ólafsfirði. Hann lést 21. desember 2024 á Hrafnistu í Reykjanesbæ.

Sigurður var sonur þeirra Alberts Aðalsteins Guðmundssonar, f. 27. desember 1910, d. 21. maí 1939, og Elínborgar Sigurðardóttur, f. 19. október 1913, d. 10. júlí 2008.

Sigurður var næstelstur af sex systkinum. Systkini hans eru Gunnar Albertsson, f. 28. nóvember 1933, Olga Albertsdóttir, f. 16. júní 1936, d. 10. janúar 2023, Hrönn Albertsdóttir, f. 3. október 1937, d. 2. október 2002, Alla Berta Albertsdóttir, f. 16. desember 1938, og Mikael Gestur Mikaelsson, f. 20. október 1942.

Sigurður fluttist með móður sinni til Keflavíkur á unglingsárum. Kynntist hann þar eiginkonu sinni Erlendsínu Marín Sigurjónsdóttur, f. 22. júlí 1936, d. 18. mars 2024. Þau giftust 5. október 1957. Eignuðust þau þrjú börn: a) Margrét, f. 3. maí 1957, maki hennar er Aðalsteinn Björnsson, eiga þau fjögur börn, Sigurð, Katrín Auðbjörgu, Freydísi og Birnu Marínu. b) Elínborg, f. 13. janúar 1959, maki hennar er Kristján Björgvinsson, sonur hennar er Haukur. c) Sigurður, f. 1. ágúst 1963, maki hans er Sesselja Árnadóttir, börn Sigurðar eru Sonný Norðfjörð, Adam og Logi. Langafabörn Sigurðar eru 25 talsins. Til að byrja með vann Sigurður þá vinnu sem til féll, var hann meðal annars rútubílstjóri hjá Sérleyfisbílum Keflavíkur ásamt því að hann keyrði leigubíl. Þegar Sigurður var 35 ára hóf hann störf hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli og vann hann þar alveg fram að starfslokum.

Sigurður spilaði fótbolta með Keflavík allt þar til hann varð 35 ára. Var hann meðal annars valinn í landsliðið. Þegar hann lagði takkaskóna á hilluna fór hann að spila golf og vann m.a. fjölda íslandsmeistaratitla í flokki eldri kylfinga ásamt því að leika með landsliði eldri kylfinga í fjöldamörg ár.

Hjónin voru dugleg við að ferðast og fóru þau margar golfferðir erlendis. Sigurður hafði einnig unun af því að fara að veiða. Einnig var hann virkur í starfi frímúrarastúkunnar Sindra í Reykjanesbæ.

Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 9. janúar 2025, klukkan 13.

Elskulegur tengdafaðir minn hefur nú fengið hvíldina. Hann háði langa baráttu við alzheimersjúkdóminn og dvaldi á Nesvöllum síðustu tæp fimm árin þar sem afskaplega vel var hugsað um hann. Sigga Alberts, eins og hann var alltaf kallaður, kynntist ég fyrir rúmum 20 árum þegar sonur hans dró mig í fjölskylduboð til að kynna mig fyrir fólkinu sínu. Þessi ár sem ég þekkti hann var hann litríkur og skemmtilegur karakter og sögur heyrði ég af fyrri árum, bæði úr leik og starfi. Hann átti ekki auðvelda æsku en vann hörðum höndum að því að búa sér og sínum betra líf. Hann vann ýmis störf og var síðast yfirtollvörður þegar hann fór á eftirlaun. Hann var öflugur í fótboltanum í Keflavík á sínum yngri árum og spilaði nokkra landsleiki. Þegar fótboltaferlinum lauk þegar hann var 35 ára tók golfið við af krafti og tók hann það með trompi. Vann m.a. fjölda titla á sínum ferli og hélt vel við heilsunni með því að vera nánast daglega á golfvellinum. Hans stærsta ást í lífinu var hins vegar hún Sína, sem lést níu mánuðum á undan honum. Þau áttu farsæla ævi saman, eignuðust þrjú börn, átta barnabörn og nú er listinn yfir barnabarnabörnin sífellt að lengjast. Fjölskyldan skipti hann Sigga afar miklu máli og passaði hann vel upp á að veita aðstoð þar sem hennar var þörf. Naut hann sín vel við að bjóða í mat, grilla gott kjöt og eiga gott spjall. Ég og Siggi minn vorum svo heppin að ná að fara nokkrum sinnum til Spánar í golf með Sigga og Sínu og voru það góðir tímar. Einnig eru eftirminnilegar ferðir til Manchester og London á áttræðisafmælum tengdaforeldra minna. Siggi Alberts náði því að verða níræður í nóvember en á vetrarsólstöðum var komið að leiðarlokum. Hann og Sína hafa sjálfsagt viljað halda jólin saman eins og svo marga undanfarna áratugi, en nú í draumalandinu. Á kveðjustund er mér þakklæti efst í huga. Elsku Siggi Alberts, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Sesselja Árnadóttir.

Mig langar í fáeinum orðum að minnast vinar og vinnufélaga til margra ára, Sigga Alberts.

Siggi var ekki allra og vinátta okkar varð til eftir gott rifrildi, þar sem notuð voru stór orð og mikill raddstyrkur tveggja karlakórsmanna. Ég fór í fússi í burtu. Tuttugu mínútum síðar kom hann til mín og sagði: „Komdu í kaffi.“ Þarna byrjaði okkar vinskapur sem entist allan okkar samstarfstíma.

Margt kemur upp í hugann. Siggi var hrikalegur United-unnandi, ég Púllari. Þetta var á þeim tímum þegar ekkert gekk hjá mínum mönnum og fékk ég að heyra það.

Ég gekk í gegnum erfiðleika á sínum tíma, Siggi kallaði á mig inn á varðstofu og spurði hvað væri að. „Alli minn, ef það er eitthvað sem ég get gert, láttu mig vita.“ Svona var Siggi, allavega gagnvart mér.

Ýmislegt var brallað. Eitt sinn þurfti ég að fara í Grænás, þ.e. til sýslumanns. Ég segi við Sigga: „Ég tala þá bara við sýsla um þetta,“ hann jánkar því. Þegar ég kom til baka segi ég svo allir heyri: „Hann tók vel í málið!“ „Fínt,“ sagði Siggi. Nú varð uppi fótur og fit á varðstofunni. Hvað eruð þið að bralla? var sagt. Ég upplýsti að við vildum fá lengra sumarfrí vegna þess að við reyktum ekki.

Það varð allt vitlaust hjá reykingafólkinu. Farið var niður á stöð og rokið í sýsla. Hann kannaðist ekkert við málið. Þegar ég hitti sýsla næst sagði hann: „Arilíus, þú verður að búa mig undir svona uppákomur.“

Eins og allir vita var Siggi mikill golfari. Ég var að byrja í golfi. Hann sagði: „Alli minn, það er annað höggið sem telur og þegar einni holu er lokið, þá er henni lokið.“ Þetta hef ég haft í huga síðan.

Þegar vinur minn varð sjötugur var mér boðið ásamt öðrum. Ekki man ég hvers vegna ég komst ekki, en skömmu síðar hringdi Siggi og sagðist hafa keypt mjög gott viskí, sérstaklega ætlað mér.

Kæri vinur! Margt fleira kemur upp í hugann, en við rifjum það upp þegar þar að kemur.

Það er aldrei að vita nema við tökum einn hring þá.

Takk fyrir allt Siggi minn.

Ég sendi dætrum, syni og fjölskyldum innilegustu samúðarkveðjur.

Arilíus Harðarson.