Skálar Allar tegundir skála, nammiskálar, skrautskálar, prjónaskálar o.s.frv.
Skálar Allar tegundir skála, nammiskálar, skrautskálar, prjónaskálar o.s.frv.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Halldórsson er fæddur 9. janúar 1945 á Sjúkrahúsinu á Ísafirði. Hann bjó með foreldrum sínum á Bæjum á Snæfjallaströnd til tveggja ára aldurs. Flutti þá fjölskyldan í Gunnarsholt á Rangárvöllum og var þar þegar Hekla gaus árið 1947

Einar Halldórsson er fæddur 9. janúar 1945 á Sjúkrahúsinu á Ísafirði. Hann bjó með foreldrum sínum á Bæjum á Snæfjallaströnd til tveggja ára aldurs. Flutti þá fjölskyldan í Gunnarsholt á Rangárvöllum og var þar þegar Hekla gaus árið 1947. Þá tók fjölskyldan sig upp og flutti austur á Eiða þar sem faðir hans varð smíðakennari við Alþýðuskólann.

Eftir gagnfræðapróf frá Alþýðuskólanum fór Einar að vinna við smíðar hjá Brúnás á Egilsstöðum. Hann kláraði svo Iðnskólann í Reykjavík, lauk sveinsprófi í húsgagnasmíði og fékk meistarabréf 2. ágúst 1971.

„Áfram hélt smíðin, ég hitti hana Gerði mína og við fórum að baksa. Fljótlega fengum við lóð á Egilsstöðum, Árskóga 15. Þar böksuðum við við að koma húsi á lóðina og fyrir jólin 1969 fluttum við í húsið óklárað með tvö börn, eins og títt var á þessum árum, eitt herbergi, baðherbergi, eldavél og vaskur. Meira þuftum við ekki til að byrja með.“

Vorið 1974 söðlaði Einar um, hætti smíðinni sem aðalstarfi og fór að vinna í fluggeiranum á Egilsstaðaflugvelli, hjá Flugfélagi Íslands, síðar Icelandair. „Þetta átti að vera sumarstarf sem varð að tæpum 40 árum.

Skemmtilegast og mest krefjandi var Kárahnjúkaverkefnið. Algengar voru 6-8 flugferðir á dag innanlands og millilandaflug í hverri viku, aðallega til Póllands. Þær ferðir voru á hverju einasta laugardagskvöldi um miðnætti í 92 vikur samfleytt, alltaf samkvæmt áætlun og innan marka. Þetta var erfitt en rosalega gaman.“

Einar hætti svo hjá Flugfélagi Íslands um áramótin 2012/2013. „Meðfram starfi mínu, eða hluta af því, sem umdæmisstjóri á Austurlandi, var ég drifkraftur í ferðamennsku og tók það eðlilega ágætis tíma. Skemmtilegt og mjög gefandi var átakið „Dagar myrkurs á Austurlandi“ sem haldnir eru enn árlega. Þeir urðu til hjá Markaðsstofu Austurlands, hvar ég var alla tíð virkur og áhugasamur.“

Viðurkenningarskjalið „Kletturinn“ sem Markaðsstofan veitir árlega þeim sem skara fram úr í ferðamálum kom í hlut Einars árið 2009.

„Eftir að ég hætti hjá Flugfélaginu blés ég aðeins úr nös, en ræsti svo „smiðju mína“ og fór að smíða allskonar nytjahluti, leikföng, húsgögn og fleira og fleira, allt úr „túnfætinum heima“: lerki, birki, ösp, reynivið aðallega frá Hallormsstað. Smiðjan var samt alltaf tiltæk og meira og minna í gangi með annarri vinnu fram að Kárahnjúkakverkefninu. Fram að því smíðaði ég aðallega úti- og svalahurðir og endurbyggði tvö hús frá grunni, alltaf nóg að gera.

Lítill tími gafst í fríi og ferðalög. Þó fór ég í nokkrar ógleymanlegar skíðaferðir til Austurríkis og Ítalíu ásamt því að aka út í óvissuna á bílaleigubíl um Evrópu. Nú fer ég að hægja aðeins á en alltaf er eitthvað undir heflinum, söginni og í rennibekknum. Það er ekki sjálfgefið að ná þetta mörgum árum, lítt brenglaður að eigin áliti en eðlilega smá slitinn. Við Gerður erum enn að baksa saman, er á meðan er, með æðruleysi og smá heppni. Það er gaman að lifa.“

Fjölskylda

Eiginkona Einars er Gerður Aradóttir, f. 19.6. 1945, fv. skrifstofumaður. Þau eru enn búsett í Árskógum 15. Foreldrar Gerðar voru Ari Björnsson, f. 19.5. 1917, d. 2.1. 1993, og Bjarghildur Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 9.4. 1926, d. 13.1. 2015. Þau bjuggu í Selási 6 (Varmahlíð) á Egilsstöðum.

Börn Einars og Gerðar: 1) Bjarghildur, f. 1963, d. 1997, stúdent og skrifstofumaður. Maki: Sigurður O. Sigurðsson, f. 1959, verkamaður. Þau voru búsett á Seyðisfirði, þar sem Sigurður býr enn. Börn þeirra eru Davíð Þór, f. 1983, viðskiptafræðingur, búsettur í Eiðaþinghá, og Arna Kristín, f. 1985, kennari og tölvunarfræðingur, búsett í Hvalfjarðarsveit; 2) Erla Sigrún, f. 1964, kennari, makalaus, búsett á Egilsstöðum. Sonur hennar er Brynjar Freyr, f. 1989, húsasmíðameistari, búsettur í Danmörku; 3) Halldór Örvar, f. 1973, stöðvarstjóri á Egilsstaðaflugvelli. Maki: Anna Dís Jónsdóttir, f. 1975, stúdent og innheimtufulltrúi. Börn þeirra eru Antoníus Bjarki, f. 1996, umsjónarmaður hjá Icelandair, Katrín Anna, f. 2003, nemi, og Lísbet Eva, f. 2003, nemi. Þau eru öll búsett á Egilsstöðum. Barnabarnabörn Einars og Gerðar eru orðin níu.

Systkini Einars eru Hlynur, f. 1950, Sigrún, f. 1959 og Sigurður Mar, f. 1964.

Foreldrar Einars voru Halldór Sigurðsson skólastjóri, f. 24.6. 1923, d. 28.5. 1997, og Sigrún Einarsdóttir húsfreyja, f. 8.11. 1922, d. 25.9. 2019.