Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Skeifusvæðið í Reykjavík og nálæg svæði hafa verið að taka breytingum á undanförnum árum eins og að var stefnt með nýju skipulagi.
Eldri atvinnuhús hafa verið rifin og fjölbýlishús risið í þeirra stað, t.d. á Grensásvegi 1. Og frekari áform eru um niðurrif og nýja byggð, eins og fram hefur komið í fréttum hér í Morgunblaðinu.
Ekki er margar óbyggðar lóðir enn að finna á þessu rótgróna svæði. En nú liggur fyrir beiðni hjá skipulagsyfirvöldum að fá að byggja nýtt skrifstofu- og verslunarhús á einni slíkri lóð, Skeifunni 13a.
Þessi lóð er vestan við verslun Jysk, áður Rúmfatalagerinn (Skeifan 13), og skáhallt á móti verslun Hagkaups.
Lóðin hefur um langa hríð verið notuð sem bílastæði. Á sumrin hafa matarvagnar verið starfræktir á lóðinni.
Lóðin stendur á skilgreindu miðsvæði M3a Skeifan. Á því svæði er einkum gert ráð fyrir verslun, þjónustu, skrifstofum, stofnunum og íbúðum. Léttur iðnaður er heimill en iðnaðarstarfsemi skal almennt vera víkjandi.
Fjögurra hæða bygging
Á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur hinn 19. desember sl. var lögð fram fyrirspurn THG Arkitekta ehf., dags. 16. desember 2024, ásamt greinargerð, um breytingu á deiliskipulagi Skeifunnar vegna lóðarinnar nr. 13a við Skeifuna.
Breytingin felst í að heimilt verði að reisa fjögurra hæða skrifstofu- og verslunarhús á lóðinni með inndreginni efstu hæð, samkvæmt tillögu THG Arkitekta.
Tillagan sýni dæmi um mögulegt útlit byggingar en gera megi ráð fyrir að útlit, yfirbragð og litaval taki breytingum þegar hönnun vindur fram. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.
Fram kemur í fyrirspurn THG Arkitekta að í gildandi deiliskipulagi, sem er frá árinu 2001, sé leyfilegt að byggja á lóðinni átta hæða bílastæðahús/skrifstofur ásamt tveimur hæðum í kjallara. Samtals séu þetta 19.700 fermetrar.
Innsend tillaga sýni fjögurra hæða skrifstofuhús með verslun og þjónustu á jarðhæðum ásamt möguleika á kjallara. Áætlað byggingamagn er um 32.000 fermetrar ofanjarðar og rúmist því vel innan núverandi byggingarreits.
Aðkoma að húsinu verði sunnanmegin og því verði núverandi innkeyrsla inn á lóðina óbreytt. Tillagan gerði ráð fyrir 30 bílastæðum sunnan við nýbygginguna. Skástæði norðan við lóð verði endurbætt og þar bætist við 17 bílastæði.
Gert er ráð fyrir inngangi á báðum langhliðum þannig að húsið opnist bæði til suðurs og norðurs.
Samkvæmt hlutafélagaskrá var félagið Skeifan 13a ehf. stofnað árið 2017. Stofnendur voru fjölmargir, einstaklingar og félög. Formaður stjórnar er skráður Ágúst Valfells.
Tilgangur félagsins er m.a. eignarhald á lóðarréttindum við Skeifuna 13a og samstarfsvettvangur um þróun skipulags í Skeifunni, Faxafeni og nágrenni. Húsin í Skeifunni eru á því svæði sem áður nefndist Sogamýri. Árið 1962 samþykkti borgarstjórn að skipulagt yrði iðnaðarhverfi á svæðinu. Uppbygging slíkra mannvirkja hófst á næstu árum.
Árið 1962 voru Iðngarðar hf., hlutafélag 17 aðila, stofnaðir í kringum uppbyggingu iðnaðarhúsnæðis á Skeifusvæðinu. Síðar fjölgaði verslunum á svæðinu og nú stendur yfir uppbygging íbúðarhúsnæðis í samræmi við aðalskipulag.
Stórar íbúðablokkir
Stórar íbúðablokkir hafa t.d. risið á horni Grensásvegar og Suðurlandsbrautar á síðustu árum.
Þá eru stór íbúðarhús risin eða eiga að rísa á Orkureitnum svonefnda, hinum megin við Grensásveg.
Í rammaskipulagi Skeifunnar er gert ráð fyrir allt að 750 nýjum íbúðum á svæðinu og um 190 þúsund fermetrum undir verslun og þjónustu.