Kolbrún Bergþórsdóttir
Ljósvakahöfundur er andlegt flak eftir að hafa horft á þáttaröð um nornir, Witches: Truth Behind the Trials, á National Geographic. Þættirnir eru sex og fjalla um nornaréttarhöld í Evrópu á öldum áður.
Þarna var saklaust fólk sakað um að kalla bölvun yfir einstaklinga. Jafnvel börn bentu ásakandi á fullorðna. Sakborningar, sem voru yfirleitt konur, játuðu venjulega og þá eftir skelfilegar pyntingar. Einhverjir stóðu þó allan tímann fast á sakleysi sínu en dóu samt.
Það dró úr manni allan mátt við áhorfið. Ekki er hægt að tala um neitt upplífgandi í sambandi við þættina nema þá helst það að langfæstir þeirra sem dæmdir voru fóru lifandi á bálið. Meira að segja þeim refsiglöðustu fannst refsingin að deyja á báli ómannúðleg. Þeir sem dæmdir voru sekir voru hálshöggnir og líkinu síðan kastað á bál.
Fræðimaður sem rætt var við í þáttunum varaði við því dæma þá ákærðu og dæmdu í málunum sem illar manneskjur. Venjulegar manneskjur á öllum tímum, sagði hann, geta gerst sekar um hræðilega hluti. Það er alveg satt hjá honum, en meinið er að það er alls engin huggun að frétta að svo að segja hver einasta manneskja sé fær um að eyðileggja líf annarra.