Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Jóhann Úlfarsson, umsjónarmaður fasteigna hjá Icelandair, læsti á eftir sér í höfuðstöðvum fyrirtækisins á Reykjavíkurflugvelli áður en starfsemin var flutt í nýtt húsnæði á Flugvöllum í Hafnarfirði skömmu fyrir jól, en þótt hann sé að hætta störfum eftir tæplega 40 ár hjá fyrirtækinu er hann ekki sestur í helgan stein. „Ég verð sjötugur seinna í mánuðinum og kemst þá í úreldingarflokk, en ég er húsgagnasmiður og bólstrari á fullu í félagsmálum og hef því nóg að gera.“
Snemma árs 1986 fékk Jóhann vinnu hjá Flugleiðum, sem síðar varð Icelandair. „Fyrsta starfið mitt hérna fólst í að rukka ferðaskrifstofur á höfuðborgarsvæðinu vegna farmiðasölu,“ segir Jóhann. Þær hafi verið yfir 30 af öllum stærðum og gerðum og hann hafi keyrt á milli og fengið greitt í ávísunum. „Þá var ekki lagt beint inn á fyrirtæki og ég fór með ávísanirnar í banka.“
Eftir að hafa sinnt innheimtu í nokkur ár tók Jóhann að sér póstmálin og eitt leiddi af öðru. „Í störfum mínum hef ég unnið með öllum deildum og sviðum fyrirtækisins á einn eða annan hátt. Ég segi stundum að þegar menn sópuðu molunum af borðinu hjá sér og sögðu „ég get ekki gert þetta“ kom ég, sópaði upp molunum og gerði það sem þurfti að gera.“ Þetta hafi verið lítil mál í huga margra en engu að síður oft verið stórmál. Þótt hann þekki fyrirtækið út og inn hafi hann samt ekki starfað í háloftunum. „Það næsta sem ég hef komist því er að fljúga í flugherminum.“
Starfsandinn hefur haldið Jóhanni við efnið. „Það hefur verið ofboðslega gaman að vinna hjá Icelandair,“ leggur hann áherslu á. „Einu sinni var auglýst að Hótel Loftleiðir væri heill heimur út af fyrir sig og ég segi stundum að það sama eigi við um Icelandair.“ Starfsmannaveltan sé reyndar meiri nú en áður en lengst af hafi starfsfólkið verið sem ein samhent fjölskylda. „Þegar ég byrjaði tókust Loftleiða- og Flugfélagsarmurinn stundum á en það var bara gaman.“ Nú séu nánast allir hættir sem hafi unnið hjá Loftleiðum og Flugfélagi Íslands, sem sameinuðust í Flugleiðir, og helst minnst á togstreituna í bókum.
Hreyfiþörf
Enginn í fjölskyldu Jóhanns hafði unnið hjá Loftleiðum eða fyrirrennurum þess þegar hann hóf þar störf. „Ég kallaði fyrirtækið stundum Ættleiðir,“ segir hann og vísar til þess að mjög algengt hafi verið að ungt fólk hafi fetað í fótspor foreldra sinna hjá fyrirtækinu. „Það sýnir ekki aðeins hollustu heldur líka að þegar gott fólk getur af sér góð afkvæmi er gott fyrir félagið að fá þau í vinnu.“
Eðlilega hafa orðið miklar breytingar á starfsumhverfinu frá því Jóhann hóf störf hjá Icelandair. Hann nefnir sérstaklega tölvurnar og forritunina. „Af öllu þessu er dásamlegast að hafa verið þátttakandi í öllum þessum nýjungum sem hafa orðið í fluginu.“
Jóhann hefur verið öflugur í félagsmálum. Hann var til dæmis lengi í stjórn knattspyrnudeildar Vals og síðar hjá Leikni og ÍR, hefur verið í sóknarnefnd í Fella- og Hólasókn í mörg ár og er stjórnarformaður ÚK – Útfararstofu kirkjugarðanna. „Áður en ég veit af er ég kominn í einhverja stjórn.“ Hann hjólar mikið og hefur auk þess verið mikið í hlaupum, göngu og golfi. „Ég veit ekki til þess að margir á mínum aldri kaupi sér nýtt hjól eins og ég geri, að minnsta kosti gerðu hvorki pabbi minn né afi það. Ég hef mikla hreyfiþörf og á ekki betri frístundir en með góðum vinum og félögum úti á golfvelli.“
Fólk hefur veitt Jóhanni mikla ánægju og hann hann segir að hann þrífist best með öðrum. „Ástæða þess að ég hef unnið svona lengi hjá Icelandair eru skemmtileg viðfangsefni og samskipti við fólk. Að láta hlutina ganga. Ég hef unnið með fjögur til fimm þúsund manns og oft verið kallaður Jói reddari. Ég verð sjötugur 27. janúar, má þá ekki vinna lengur og horfi þá bara á konuna. Það verða mikil viðbrigði en ég kvíði því ekki. Mér finnst gaman að lífinu, á hamingjusama fjölskyldu og er ánægður.“