Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) í samstarfi við CCP býður í samtal um skapandi greinar fimmtudaginn 9. janúar klukkan 8:30-10 í húsakynnum CCP á Bjargargötu 1, 102 Reykjavík. Yfirskrift fundarins að þessu sinni er Skapandi aðferðafræði. Fundurinn verður haldinn á ensku og erindum verður streymt, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Fyrirlesarar koma frá CCP, Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. Bergur Finnbogason, listrænn stjórnandi hjá CCP, mun tala um samstarf CCP við ýmsar alþjóðlegar rannsóknastofnanir og hvernig aðferðir leikjageirans hafa nýst þeim.
Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, mun fjalla um mikilvægi félagslegs andrúmslofts, í formi félagslegra töfra, sem hann hefur greint með sjónrænni félagsfræði í bók sinni Sjáum samfélagið.
Katrín Ólína Pétursdóttir, hönnuður og forseti hönnunardeildar LHÍ, mun fjalla um verkefnið Primitiva, rannsóknarverkefni í skartgripahönnun sem sameinar skapandi hugsun og stafræna tækni. Hún mun segja frá því hvernig tilraunir og frásagnarlist í mismunandi miðlum á ferli hennar áttu þátt í að móta skartgripalínu hennar.
Í kjölfar erinda verður opnað fyrir umræður meðal fundargesta sem Anna Hildur Hildibrandsdóttir stýrir.
Samtal um skapandi greinar er röð óformlegra funda sem RSG stendur að í samvinnu við CCP. Með fundaröðinni vill RSG skapa samræðuvettvang áhugafólks um skapandi greinar með því að tengja saman hagaðila í einkageiranum, akademíunni og frá stofnunum og stjórnsýslunni og efla þannig umræðuna um menningu og skapandi greinar. Fundirnir eru haldnir fyrsta fimmtudag hvers mánaðar.