Jólasalan Kaupmenn á landsbyggðinni sem haft var samband við segja jólasöluna svipaða og fyrir síðustu jól.
Jólasalan Kaupmenn á landsbyggðinni sem haft var samband við segja jólasöluna svipaða og fyrir síðustu jól. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Hér er allt til sölu nema áfengi,“ segir Stefanía Birgisdóttir, en hún rekur ásamt eiginmanni sínum Olgeiri Hávarðssyni verslunina Bjarnabúð í Bolungarvík. Í Bjarnabúð fæst allt milli himins og jarðar eins og oft var reyndin í gömlu kaupfélögunum á landsbyggðinni

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Hér er allt til sölu nema áfengi,“ segir Stefanía Birgisdóttir, en hún rekur ásamt eiginmanni sínum Olgeiri Hávarðssyni verslunina Bjarnabúð í Bolungarvík. Í Bjarnabúð fæst allt milli himins og jarðar eins og oft var reyndin í gömlu kaupfélögunum á landsbyggðinni. Þar er hægt að fá bækur, barnaföt, tískufatnað, leikföng og svo auðvitað matvörur, svo eitthvað sé nefnt. „Við erum líka með opið alla daga nema á jóladag og nýársdag, og á aðfangadag er opið til klukkan 5, svo að við höfum alveg fengið fólk á hlaupum að kaupa síðustu gjafirnar,“ segir Stefanía hress og segir að salan í ár hafi verið svipuð og í fyrra.

„Við leggjum aðaláhersluna á þjónustu við viðskiptavini okkar og þegar fólk er að kaupa í matinn liggur við að við gefum upp góðar uppskriftir í leiðinni,“ segir hún og hlær og bætir við að á landsbyggðinni sé öll verslun miklu persónulegri því fólk þekkist vel.

Halda krónunum í hagkerfinu

„Við erum þokkalega ánægð með söluna fyrir þessi jól,“ segir Kristín Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Lindarinnar á Selfossi, og bætir við að salan hafi verið á svipuðum nótum og hún var hjá þeim í fyrra. „Við erum ánægðar með að halda okkar hlut í sölunni fyrir jólin, ekki síst í ljósi sífellt harðnandi samkeppni við erlendar sölusíður. Mér finnst það vera umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga að íhuga að nota krónurnar okkar innanlands svo að þær haldist í hagkerfinu, okkur öllum til góða, en tapist ekki til erlendra aðila á netinu.“

Kristín segir að hlýlegar jólagjafir séu alltaf vinsælar í jólapakkana. „Það er praktískt að gefa fatnað í jólagjöf og við seljum alltaf mikið af peysum, náttfötum og svona kósífatnaði fyrir jólin.“ Hún segir að útvíðar klassískar buxur hafi einnig verið mjög vinsælar fyrir jólin og fallegir toppar undir jakka og síðan kjólar. Kristín tekur undir með Stefaníu í Bolungarvík að verslun úti á landi sé persónulegri en í bænum. „Við erum búnar að vera með verslun hér í rúm 50 ár og eigum marga fastakúnna. Þegar eiginmennirnir koma í jólaleiðangur vitum við oft hvað konurnar þeirra vilja og þekkjum stærðir og annað. Konurnar koma svo oft til okkar og segja að jólagjöfin frá eiginmanninum hafi aldeilis verið fín þetta árið.“

Hlý og mjúk föt

„Náttfötin eru alltaf mjög vinsæl hjá okkur, bæði fyrir fullorðna og ekki síður fyrir börnin,“ segir Elín Ragna Valbjörnsdóttir, verslunarstjóri Lindex á Akureyri. Hún segir að talsvert sé einnig selt á vefnum hjá Lindex, en fyrir norðan hafi líka öll vetrarföt verið vinsæl.

„Við seljum alltaf mikið af húfum, treflum og vettlingum og öðrum ullarfötum fyrir jólin og það var eins núna eins og fyrri ár. Síðan eru mjúk hversdagsföt fyrir bæði fullorðna og börn mjög vinsæl líka,“ segir Elín, sem segir jólasöluna hafi verið mjög svipaða og fyrir síðustu jól.

Síminn í glugganum

„Jólasalan var ágæt hjá okkur í Sillukoti,“ segir Sigríður Jóhannesdóttir á Gunnarsstöðum. Sillukot, sem selur heimagerðar vörur eins og sápur og kerti, var fyrst á Þórshöfn, en þar sem salan er hliðarbúgrein bústýrunnar með fjárbúskapnum var hún færð á bæinn.

„Mesta jólasalan hjá mér er í gegnum jólamarkaði, bæði hérna á Þórshöfn og eins í Mývatnssveit, Húsavík, Egillsstöðum og Hvammstanga og víðar. Það er svo gott að kynna sig og vörur sínar á mörkuðunum,“ segir Sigríður. „Ég er með vinnustofuna hérna við hliðina á fjárhúsunum og hef þar bara símanúmerið í glugganum og fólk hikar ekkert við að hringja þegar það kemur og þá skýst ég niður eftir. Þetta er svo persónulegt hjá okkur að fólk fær fjárhúsalyktina í kaupbæti,“ segir hún og hlær.

Penninn á Akureyri

Bókapakkinn

„Skáldsögur seljast alltaf vel og þar eru Arnaldur og Yrsa að seljast mest alls staðar á landinu, og einnig Guðrún Mínervudóttir sem varð söluhæst,“ segir Ingimar Jónsson forstjóri Pennans. Hann segir að ævisögur hafi einnig selst vel, sérstaklega bók Geirs Haarde, en færri bækur í fræða- og handbókaflokki hafi verið gefnar út í ár. Góð sala var í ljósmyndabókum og þar var Óli K. fremst í flokki. „Barnabækur voru að seljast mjög vel og ljóst að umræðan um mikilvægi lestrar barna er að skila sér, sem er mjög gleðilegt.“