Í tilefni af því að hrossaskítur er nú flokkaður með spilliefnum yrkir Jón Jens Kristjánsson: Við lítinn fögnuð er lagt af stað á losunarvöll trú ég hópur stefni í hrúgu á kerru er hrossatað sem hér eftir flokkast sem spilliefni það sem að fyrrum…

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Í tilefni af því að hrossaskítur er nú flokkaður með spilliefnum yrkir Jón Jens Kristjánsson:

Við lítinn fögnuð er lagt af stað

á losunarvöll trú ég hópur stefni

í hrúgu á kerru er hrossatað

sem hér eftir flokkast sem spilliefni

það sem að fyrrum var borið í beð

og bar í sér fjörefnin mörgu og dýru

rétt er nú kallað að raða því með

rafhlöðum, eitri og geymasýru.

Þá Hjörtur Benediktsson:

Algjöra nýjung hér nefni

svo naumlega veit hvert ég stefni

ef skítur hér hross

það skaðlegt er oss

og skoðast sem spilliefni.

Ingólfur Ómar Ármannsson er hugsi:

Nú eru jólin bráðum búin

baggi margra þungur er.

Útgjöld verða ekki flúin

að ýmsu jafnan hyggja ber.

Inn að skinni reytt og rúin

ráðvillt þjóðin barmar sér.

Þórarinn Már Baldursson er á svipuðum nótum:

Um jólin margur missir sig

í matar- og gjafafári

en greiðslukorta-Grýla þig

gómar á nýju ári.

Gunnar J. Straumland yrkir undir gripluhætti, þar sem fremstu stafir hverrar línu mynda orð:

Öllum finnst ég fram úr skara

fjölhæfninni dást menn að

um mig gleðigjafir fara

gegnumsneitt og verðskuldað

margir undrast yfir svona

æðislegri gæðasál

leysir örlög allra vona

innra kveikir hjartans bál.

Friðrik Steingrímsson fylgdist með Óla Þór Árnasyni flytja veðurfréttirnar:

Fyrir norðan frost og snjór,

frekar þyngist róður,

ekki klikkar Óli Þór,

andskoti'er'ann góður.

Hjörtur Sandholt orti limru í tilefni af útvarpsauglýsingum á dömubindum með vængjum:

Nú náum við lífsins að njóta

og nánast um loftið að þjóta.

Við lögmálum ögrum,

um loftið við flögrum,

með Libresse á milli fóta!

Að síðustu kastar Höskuldur Búi Jónsson fram:

Áin seytlar létt og lágt

linast allur kraftur,

en þegar sólin svífur hátt

syngur fossinn aftur.