[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handknattleiksmarkvörðurinn Andrea Gunnlaugsdóttir er komin til Gróttu frá Fram að láni út tímabilið. Andrea, sem verður 23 ára á árinu, er uppalin hjá ÍBV en hefur verið hjá Fram undanfarin tvö tímabil

Handknattleiksmarkvörðurinn Andrea Gunnlaugsdóttir er komin til Gróttu frá Fram að láni út tímabilið. Andrea, sem verður 23 ára á árinu, er uppalin hjá ÍBV en hefur verið hjá Fram undanfarin tvö tímabil. Hún mun veita Önnu Karólínu Ingadóttur samkeppni seinni hluta tímabilsins. Andrea lék níu leiki með Fram í úrvalsdeildinni fyrir áramót og var með um 30 prósenta markvörslu.

Bournemouth, sem hefur komið gríðarlega á óvart í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í vetur, hefur orðið fyrir öðru áfalli sínu á nokkrum dögum. Brasilíski framherjinn Evanilson er úr leik næstu mánuði eftir að hafa ristarbrotnað í leik liðsins gegn Everton um síðustu helgi. Nú hefur Tyrkinn Enes Ünal, félagi hans í framlínu Bournemouth, líka helst úr lestinni en hann sleit krossband í hné á æfingu og spilar ekki meira á þessu keppnistímabili.

Bandaríska knattspyrnukonan Allison Lowrey hefur samið við ÍBV um að leika með liðinu á komandi keppnistímabili. Allison er 22 ára sóknarmaður sem hefur leikið með háskólaliðum Texas A&M og Rutgers. ÍBV leikur sitt annað ár í 1. deild eftir að hafa fallið úr Bestu deildinni haustið 2023.

Ljóst er að Norðmaðurinn Per-Mathias Högmo verður ekki næsti þjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu. Verdens Gang í Noregi segir að frágengið sé að Högmo verði næsti þjálfari Molde í Noregi, en hann hefur ítrekað verið orðaður við landslið Íslands á undanförnum vikum. Þá þýðir þetta jafnframt að Freyr Alexandersson tekur ekki við Molde, en hann hefur verið orðaður við Molde, Brann og íslenska landsliðið að undanförnu.

Jesper Jensen lætur af störfum sem þjálfari danska kvennalandsliðsins í handknattleik í sumar, að eigin ósk. Hann hefur stýrt liðinu frá árinu 2020 og það fékk silfurverðlaunin á EM 2024 í desember eftir tap gegn Þóri Hergeirssyni og hans konum í norska landsliðinu. TV2 í Danmörku segir að Jensen taki að öllum líkindum við ungverska meistaraliðinu Ferencváros í sumar.