Samvinna Sýning á verkum Steinu Vasulka verður sett upp í bæði Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur.
Samvinna Sýning á verkum Steinu Vasulka verður sett upp í bæði Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alþjóðlegra áhrifa gætir í dagskrá Listasafns Íslands í ár en verk þekktra listamanna á borð við Christian Marclay munu rata inn í sýningarsali safnsins. Þá hefur verið endurvakið Listasafnsfélagið sem starfrækt var á sjötta áratug síðustu aldar

Viðtal

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Alþjóðlegra áhrifa gætir í dagskrá Listasafns Íslands í ár en verk þekktra listamanna á borð við Christian Marclay munu rata inn í sýningarsali safnsins. Þá hefur verið endurvakið Listasafnsfélagið sem starfrækt var á sjötta áratug síðustu aldar. Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, segir að sýningarnar í ár séu mjög fjölbreytilegar og eigi ríkt erindi til allra.

Safnið sé auga út í heim

Árið hefst á sýningu á ljósmyndaverkum sem ber heitið Nánd hversdagsins. „Við sýnum þar verk eftir bæði íslenska og erlenda listamenn þar sem nándin er næstum áþreifanleg,“ segir Ingibjörg. „Á sýningunni má meðal annars sjá verk eftir Sally Mann sem er einn virtasti ljósmyndari Bandaríkjanna.

Í maí fáum við síðan að sjá hið margrómaða verk „The Clock“ eftir svissnesk-bandaríska listamanninn Christian Marclay en það hefur farið sigurför um heiminn. Verkið hlaut Gullna ljónið á Feneyjatvíæringnum árið 2011 og er af gagnrýendum sem almennum gestum talið eitt merkasta listaverk 21. aldarinnar.

Í sumar sýnum við svo mjög áhrifamikið verk grænlenska listamannsins Inuks Silis Høegh. Það er mikilvægt að Listasafn Íslands sé þetta auga út í heim og að fólk sem hér býr geti komið og séð alþjóðlegar sýningar eins og þessar,“ segir Ingibjörg.

Ádeila, húmor og huldumaður

Á árinu verða einnig settar upp sýningar á verkum íslenskra listamanna. „Í febrúar verður opnuð Feneyjasýning Hildigunnar Birgisdóttur og tekur púlsinn á ákveðinni tegund samtímalistar þar sem ádeila og húmor fara saman. Sýningin er að einhverju leyti frábrugðin sýningunni í Feneyjum þar sem hún er hér í stærri sal og þarf því að taka mið af því en kjarninn verður sá sami. Það er mikilvægt að við fáum að sjá sýninguna líka hér heima en framlag okkar á Feneyjatvíæringnum er viðamesta þátttaka okkar í alþjóðlegu myndlistarsamtali.

Eins má nefna sýningu á verkum Kristjáns H. Magnússonar en hann er huldumaður í íslenskri listasögu. Hann átti bara tíu ára feril, í Bandaríkjunum og á Íslandi, og lést árið 1937 aðeins 34 ára að aldri. Hann hélt margar sýningar erlendis þar sem hann hlaut góða dóma fyrir landslagsmálverk en hann var einna fyrstur til þess að mála íslenskt landslag að vetri til. Á Íslandi hlutu verk hans blendnar viðtökur og þá einkum hræðilega útreið eins íslensks gagnrýnanda og í dag eru verk hans fáum kunn.“

Sýning um fölsuð verk

Athygli vekur að í Listasafninu verður sjónum beint að fölsuðum listaverkum.

„Þetta mál vofir alltaf yfir okkur og hefur ekki verið hægt að leiða það til lykta með fullnægjandi hætti,“ segir Ingibjörg og vísar til hins svokallaða stóra málverkafölsunarmáls sem kom upp fyrir nokkrum áratugum og ekki náðist að dæma í vegna formsatriða.
„Eftir ítarlegar rannsóknir var fölsuðu verkunum skilað til eigenda sinna og því er hætta á að þau rati aftur inn á markaðinn. Í þessu samhengi munum við í samstarfi við Myndstef koma upp gagnagrunni þar sem öll þessi fölsuðu verk verða sýnileg og rökstuðningurinn aðgengilegur. Markmiðið er að fólk geti varað sig og sé meðvitað um það sem hafa ber í huga þegar fjárfest er í listaverkum.

Í sumar munum við vinna áfram með listasöfnum á landsbyggðinni. Að þessu sinni vinnum við með Skaftfelli – Myndlistarmiðstöð á Austurlandi og sýnum myndverk sem Jóhannes Kjarval vann á Austfjörðum. Það skiptir máli að safnið leitist við að vinna með landsbyggðinni, bæði hvað varðar sýningar og eins fræðslustarf.“

Steina Vasulka í tveim söfnum

Í haust verður loks yfirlitssýning á verkum Steinu Vasulka sett upp í bæði Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur en sýningin kemur frá Buffalo AKG-safninu í Bandaríkjunum. Áður var sýningin í List Center í Massachusetts og hefur hlotið lofsamlega dóma.

„Steina er listamaður sem við viljum gera hátt undir höfði svo að fólk hér heima skilji hvað hún er merkilegur listamaður og frumkvöðull á sviði vídeólistar í heiminum. Okkur fannst spennandi að vinna með Listasafni Reykjavíkur að þessu verkefni, því verk hennar eru þess eðlis að þau þurfa mikið pláss til þess að þau njóti sín sem best en um er að ræða umfangsmiklar innsetningar,“ segir Ingibjörg en söfnin unnu síðast saman árið 2005 þegar sett var upp sýningin Lest þar sem sýnd voru á fimmta hundrað verka Dieters Roth.

Aðspurð hvort vídeóverk Steinu verði uppfærð með tilliti til nýrrar tækni, segir Ingibjörg að velta þurfi fyrir sér ýmsum sjónarmiðum í því samhengi. „Það þarf að skoða á hvaða formi eigi að sýna verkin. Á að sýna þau í sinni upprunalegu mynd eða á að vinna verkin áfram með aðstoð nýrrar stafrænnar tækni? Hvað má, hvað er hægt og hvernig? Það er ekki til einfalt svar við þeirri spurningu og margir koma að þessu samtali.“

Án gjafa væri safnið ekki til

Í dag verður Listasafnsfélagið endurvakið og við það tækifæri fær safnið stórt málverk eftir sænska listmálarann Andreas Ericksen að gjöf frá hjónunum Birgi Þór Bieltvedt og Eygló Björk Kjartansdóttur. Verkið heitir „Askberg“ og er sirka 2x2,5 metrar að stærð.

„Ég er ekki viss um að margir viti hvað gjafir hafa átt stóran þátt í uppbyggingu Listasafns Íslands og skipta miklu máli. Það vekur athygli hvað velunnarar safnsins hafa verið stórhuga en án þessara gjafa væri safnið ekki til. Með stofnun félagsins nú verður til umgjörð um slíka framkvæmd líkt og tíðkast víða erlendis. Að fólk og fyrirtæki geti styrkt safnið eða gefið verk og fengið í staðinn lækkun á útsvars- og tekjuskattstofni.

Árlegt innkaupafé safnsins er nú tæpar 40 milljónir en þyrfti að vera mun meira til þess að við getum keypt það sem þarf í safneignina, til þess að endurspegla og skrásetja íslenska listasögu. Eins og staðan er núna náum við ekki að sinna þeirri lögbundnu skyldu okkar. Við getum til dæmis ekki keypt verk eftir íslenska listamenn sem eru að vekja athygli á alþjóðlegum vettvangi án þess að klára allt innkaupafé ársins.

Vonandi verður breyting þar á með þessu framtaki og að samfélagið verði virkari þátttakandi.“

Listasafnsfélagið, hollvinafélag Listasafns Íslands

Vonandi sjái fólk hag sinn
í að styðja við góð málefni

Listasafnsfélagið, hollvinafélag Listasafns Íslands, verður endurvakið á fundi sem haldinn verður í safninu á Fríkirkjuvegi 7 í dag kl. 17. Fundurinn verður opinn öllum og geta allir gerst stofnfélagar.

Félagið var upphaflega stofnað árið 1956 af listunnendum og söfnurum úr samfélaginu, þeim Gunnlaugi Þórðarsyni lögfræðingi sem var formaður félagsins, Baldvini Einarssyni forstjóra, Sverri Sigurðssyni forstjóra, Selmu Jónsdóttur listfræðingi og Þorvaldi Skúlasyni listmálara. Stefna félagsins var að kaupa og gefa safninu verk viðurkenndra erlendra listamanna.

Hvatamenn að endurvakningu félagsins eru Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi ráðherra, Reimar Pétursson lögmaður og Salvör Nordal heimspekingur.

„Safnstjóri bar undir mig hvort ekki væri þjóðráð að styðja við safnið með stofnun hollvinafélags og ég tók undir það sérstaklega í ljósi þess að nú er til staðar nýr lagarammi utan um almannaheillafélög eins og þetta. Vonandi verður þetta til þess að fólk sjái hag sinn í því að styðja við góð málefni. Við vitum að safnið hefur ekki úr miklu að spila þegar kemur að listaverkakaupum og er hugsunin sú að fólk sem er aflögufært geti stutt við safnið. Allir geta gerst stofnfélagar og er árgjaldið fimm þúsund krónur,“ segir Katrín um stofnun félagsins.

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir