Umboðsmaður barna efnir til afmælishátíðar í Kaldalóni í Hörpu í dag, en 30 ár eru liðin frá stofnun embættisins með lögum um það sem tóku gildi 1. janúar árið 1995.
Dagskrá hefst kl. 14 með tónlistaratriði og ávörpum Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra og Salvarar Nordal, umboðsmanns barna, en þar á eftir verða flutt erindi um verkefni embættisins um mat á áhrifum á börn og barnvæna réttarvörslu. Þá munu fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna halda erindi um fræðslu í skólum um réttindi jaðarsettra hópa og fulltrúar úr barna- og ungmennaráði heimsmarkmiðanna munu kynna sitt starf.
Áhrif á börn verði metin
Aðspurð segir Salvör verkefni embættisins um mat á áhrifum á börn, sem kynnt verður í Kaldalóni í dag, vera leiðbeiningar sem unnar hafi verið fyrir vef og til útdeilingar og miða að því að áhrif á börn séu metin við vinnslu frumvarpa og við aðra ákvarðanatöku sem varðar börn, ekki ósvipað og gert er í sambandi við mat á áhrifum í jafnréttismálum. Stefnan sé að stjórnvöld taki leiðbeiningarnar upp og noti reglubundið.
Þá segir Salvör að einnig verði kynnt drög að skýrslu um barnvæna réttarvörslu, sem kemur út á næstu vikum og unnið hefur verið að á síðasta ári. „Við létum gera könnun til að greina hvernig réttarkerfið og stjórnsýslan á Íslandi samræmist kröfum um barnvæna réttarvörslu og alþjóðlegar skuldbindingar,“ segir Salvör, en könnunin náði til lögreglu, ákæruvalds, dómstóla, barnaverndarþjónustu, Útlendingastofnunar og sýslumannsembætta. Dæmi um aðstæður segir hún að gæti verið þegar börn eru vitni, hvernig upplýsingagjöf er háttað, hvernig talað er við börn og hvort hlutirnir séu sniðnir að þeim sérstaklega. Annað dæmi um aðstæður er staða barna í umgengnismálum, segir Salvör.
Vonast eftir stefnu stjórnar
Ráðgjafahópur umboðsmanns barna er hópur ungmenna á aldrinum 12-17 ára sem hittast reglulega og eru umboðsmanni til ráðgjafar og taka þátt í fjölmörgum verkefnum skv. lögum um embættið. Ungmennin munu kynna verkefni sem þau eru mjög áhugasöm um að stjórnvöld taki til sín, að sögn Salvarar, og lúta að því hvernig fræðsla í skólum er um jaðarsetta hópa. Hópurinn kynnti verkefnið á síðasta ári fyrir mennta- og barnamálaráðherra að sögn Salvarar.
Hún segist vonast til að heyra frá forsætisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum barna. „Ég hef ekki haft tök á að hitta ráðherra, hvorki forsætisráðherra né aðra ráðherra. Það er talað um málefni barna í stjórnarsáttmálanum en við eigum eftir að sjá útfærslu á ýmsum atriðum,“ segir Salvör. Verkefnin séu næg sem þurfi að huga að þegar komi að málefnum barna.
Aðspurð segist hún ekki hafa heyrt annað en að full samstaða sé um tilveru embættisins og bætir við að kannski sé enginn málaflokkur jafn mikilvægur.
Fyrrverandi umboðsmenn mæta
Þórhildur Líndal var fyrsti umboðsmaður barna og gegndi hún embættinu frá 1995 til ársloka 2004. Ingibjörg Þórunn Rafnar gegndi þá embættinu frá ársbyrjun 2005 og út júní 2007, en hún lést árið 2011. Margrét María Sigurðardóttir gegndi embætti umboðsmanns barna frá júlí 2007 til loka júní 2017 þegar Salvör tók við. Þórhildur og Margrét María verða viðstaddar afmælishátíðina.
Ráðgert er að dagskrá ljúki kl. 15.30 og verður þá boðið upp á léttar veitingar. Viðburðurinn er opinn öllum meðan húsrúm leyfir. olafur@mbl.is