Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna eftir aðeins tvær vikur, kann að ýfa upp mannskap og heilu þjóðirnar bæði fjær og nær, telji hann að það sé óhjákvæmilegt í þeirri andrá. Nú síðast gróf forsetinn tilvonandi upp á ný þekktan áhuga sinn á að fella Grænland og Bandaríkin undir sama hatt eða, eftir atvikum, fella Grænland undir ráðandi ríki. Þegar Trump hafði í fyrra sinnið gegnt forsetaembættinu í þrjú ár, þá vaknaði sama hugmynd eða svipuð hjá honum. Þetta var árið 2019 og kosningar þá fram undan árið á eftir. Þá var mikið undir hjá forsetanum og Grænland því sett í bið, en vangaveltur Trumps í það sinn dugðu þó til þess að móðga í framhjáhlaupi töluvert marga, og þá ekki síst okkar góðu frændur, Dani.
Og nú þegar seinni hálfleikur stendur, og Donald Trump er með gjörunna stöðu og glæsilega, og það frá fyrstu dögum í nóvember, þá fagnaði hann sigri. En Joe Biden, og varaforsetinn Harris, héldu þó dellunni áfram, um að Trump væri „hrikalega hættulegur lýðræðinu“. Mikill meirihluti fólks þar vestra áttaði sig á því fleipri, að Trump væri Hitler endurborinn, og menn trúðu ekki þessari skröksögu, enda höfðu þeir margir lesið að Hitler heitinn hefði framið sjálfsmorð fyrir næstum 80 árum, ásamt og með kvinnu sinni, og enginn hefði gert því skóna síðan, að Adolf og Evu hefði verið komið fyrir djúpt í Grænlandsís og Trump vildi nú gera aðra tilraun til að grafa þau upp.
Heimurinn veit reyndar ekki annað en að restin af Hitler og Evu sé geymd í skókassa í Kreml, samkvæmt sérstökum fyrirmælum Jósefs Stalíns, og það helsta sem væri sæmilega heillegt þar væri einungis einn kjálki og þótt Hitler hefði verið gríðarlegur áróðursmaður og getað logið út í það óendanlega í löngum ræðum, sem Joseph Göbbels framleiddi ofan í hann, þá myndi aðeins einn kjálki gera hverjum ræðumanni erfitt fyrir, hvað þá eftir að 80 ár voru liðin frá því að þeim ljóta leik lauk.
En það var raunar ekki Donald Trump sem kom Joe Biden fyrir pólitískt kattarnef. Trump þótti vinna kappræðu við Joe Biden forseta með miklum yfirburðum, og þá einkum vegna þess að varla var hægt að segja að Biden hefði lagt þar eitthvað til mála. Þá komu helstu ráðamenn demókrata leynilega saman á neyðarfund, með þau þau Barack Obama fyrrverandi forseta og Nancy Pelosi forseta fulltrúadeildarinnar í forystu, og lögðu svo óbærilegan þrýsting á Joe Biden um að draga sig sem fyrst úr leik og víkja fyrir Kamölu Harris að Biden gaf eftir. Allir vita hvernig það fór. Donald Trump vann með yfirburðum.
Vitað er að Trump viðurkenndi að mestu að hann hefði verið næsta óviðbúinn svo hörðum árásum sem á hann dundu þegar hann varð forseti í fyrra sinnið árið 2016. Augljóst er nú orðið að hann er miklu betur búinn þegar hann tekur við Hvíta húsinu nú, eftir tæpar tvær vikur, gangi allt eftir almanakinu. Og þótt Trump telji sig réttilega eiga harma að hefna, eftir meðferð og misnotkun margra öflugra ríkisstofnana í „fyrri hálfleik,“ þá er með öllu ástæðulaust að stíga of fast til jarðar þegar Grænland og leiðtogar þeirra þar eru óvænt ávarpaðir. Er þá höggvið nærri grónu ríki Nató, eins og Danmörku, sem á mikillar sögu og ríkra hagsmuna að gæta.
Það er vissulega fjarri því að vera útilokað að Trump, verðandi forseti, sem er þekktur og snjall atvinnumaður í stórviðskiptum og er nú miklu mun þjálfaðri og reyndari en hann var í fyrri hálfleik í bandarískum stjórnmálum, líti á ummæli sín sem hluta af samningatækni. En það er augljóslega gengið lengra gagnvart vinaþjóðum þegar verðandi forseti vill ekki að útiloka að hann muni í þessari „deilu“ nota hervald sitt til að ljúka henni. Trump sýndi „í fyrsta hálfleik“ að þótt hann hikaði sjaldan, þá forðaðist hann ætíð að beita ofurvaldi Bandaríkjanna til að stofna til stríðs, svo ekki sé sagt gagnvart friðsamri þjóð sem átt hefur góð samskipti og er trygg bandalagi þjóðanna.