40 ára María ólst upp í Seljahverfinu í Breiðholti en svo var fjölskyldan mikið í Haga á Barðaströnd þar sem afi hennar og amma bjuggu.
María útskrifaðist með BS-gráðu í sjúkraþjálfun frá HÍ árið 2013. „Ég byrjaði síðan að vinna á Landspítalanum, á lungnadeild, taugadeild og göngudeild. Er þar í þrjú ár. Svo flytjum við fjölskyldan til Nantes í Frakklandi þar sem maðurinn minn var að læra róbótaverkfræði og erum þar í tvö ár. Frakkland er æðislegt land og þetta er eitthvað sem mig langar til að gera aftur. “
Þegar heim var komið fór María að vinna í Styrk sjúkraþjálfun. „Svo ákváðum við að eiga örverpið okkar þannig að ég tek mér pásu frá stofuvinnu og er með dótturinni í nítján mánuði og fer svo yfir í heimasjúkraþjálfun og starfa við það í dag.“
Áhugamál Maríu eru dans, tennis, hlaup, gönguferðir, ferðalög og samvera með fjölskyldu. „Ég dansa salsa og hef farið í dansferðalög erlendis með vinum. Svo erum við nýflutt í Kársnesið og stöndum í rosamiklum framkvæmdum þar á gömlu húsi. Það er eins og önnur vinnan okkar í dag.“
Fjölskylda Eiginmaður Maríu er Páll Svavar Helgason, f. 1983, vélfræðingur og róbótaverkfræðingur og rekur fyrirtæki sem sérhæfir sig í sjálfvirknilausnum. Dætur þeirra eru Ásdís Ýr, f. 2009, Íris Ísafold, f. 2012, og Salka Sigurrós, f. 2022. Foreldrar Maríu eru Margrét Ásdís Bjarnadóttir, f. 1956, ljósmóðir, búsett í Kópavogi, og Valgeir Karl Bjarnason, f. 1957, skipstjóri, búsettur í Eistlandi.