Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Lítið hefur miðað í kjaraviðræðum Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) við sveitarfélögin og við ríkið.
LSS vísaði viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga til ríkissáttasemjara í byrjun nóvember sl. Félagið hefur sett saman hóp sem er að skoða mögulegar verkfallsaðgerðir og annast undirbúning að aðgerðum til að knýja á um að samningsréttur LSS verði virtur og komið verði til móts við kröfur félagsins. Engar ákvarðanir hafa þó enn verið teknar að sögn Bjarna Ingimarssonar formanns LSS.
Félagið ákvað svo eftir árangurslausan fund með samninganefnd ríkisins síðastliðinn mánudag að vísa kjaradeilu við ríkið einnig til ríkissáttasemjara. Kjarasamningur sem félagið gerði við ríkið í haust var felldur af félagsmönnum í atkvæðagreiðslu í október með 55,77% atkvæða gegn 42,31%.
Kjaraviðræður við sveitarfélögin hafa staðið með hléum í 14 mánuði og gengið treglega. Bjarni segir í samtali við Morgunblaðið að seinast hafi verið fundað með sveitarfélögunum 19. desember sl. „Við ákváðum þá að taka okkur jólafrí en það hefur ekki verið boðaður fundur á nýju ári og eingöngu átt sér stað óformlegt spjall,“ segir hann.
Í umfjöllun um stöðuna í viðræðunum við sveitarfélögin á vef LSS 20. desember segir að ljóst hafi orðið á seinasta sáttafundi að viðræður síðustu mánaða skiluðu engu og að LSS teldi að ekki væri grundvöllur til að halda samtalinu áfram nema samninganefnd sveitarfélaganna kæmi með eitthvað að borðinu til að nálgast kröfur LSS.
Fljótlega eftir áramót verður kjararáð LSS boðað til fundar og félagsfundur haldinn í framhaldi af því til að fara yfir stöðuna og framhaldið.
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn eru ein af öryggisstéttum samfélagsins og búa því við takmarkaðan verkfallsrétt. Ber þeim að halda uppi ákveðinni lágmarksþjónustu ef félagsmenn samþykkja að fara í verkfallsaðgerðir. Bjarni segir félagsmenn hafa verkfallsrétt upp að ákveðnu marki ef farið er í aðgerðir. „Við þurfum alltaf að mæta til vinnu og sinna ákveðnum verkefnum en hægt er að undanskilja ákveðin verkefni í vinnunni, aðgerðir eiga ekki að bitna á neyðarþjónustu en þær geta bitnað á grunnþjónustu,“ segir hann. Hópurinn sem er að skoða mögulegan undirbúning aðgerða vinnur að tilteknum tillögum. Hann segir að félagið vilji standa rétt að þessum málum og er því m.a. verið að skoða mögulegar aðgerðir út frá lögfræðisjónarmiðum. Bjarni leggur áherslu á að hópurinn hafi ekki tekið neinar ákvarðanir en sé að skoða þessi mál á alla kanta.
Um 1.450 félagsmenn eru í LSS, þar af eru um 450 manns í fullu starfi hjá ríkinu, sveitarfélögunum og hjá Isavia. Hópur félagsmanna er í hlutastarfi. Í júní á seinasta ári var undirritaður nýr kjarasamningur milli LSS og SA vegna Isavia. Samningar annarra hafa verið lausir frá 1. apríl á síðasta ári.
Samningaviðræður við ríkið sem staðið hafa yfir frá því samningurinn var felldur í október síðastliðnum hafa ekki skilað tilskildum árangri. Að sögn Bjarna hefur lítið verið fundað með samninganefnd ríkisins frá því að samningurinn var felldur í október. „Við höfum tekið tvo fundi og fórum svo í jólafrí. Við hittumst svo aftur á mánudaginn í þessari viku en það skilaði engu. Þá var ekki um annað að ræða en fá ríkissáttasemjara til að koma inn í vinnuna,“ segir hann. Ekki hefur verið ákveðið hvenær fyrsti sáttafundurinn verður haldinn.
Spurður hvaða mál félagsmenn leggja mesta áherslu á segir Bjarni að í ríkissamningunum séu það aðallega stofnanasamningar, sem þurfi yfirleitt að gera eftir að búið er að ganga frá kjarasamningum, sem geti reynst þrautin þyngri ef þeim fylgir ekki fjármagn. Einnig þurfi að leiðrétta launamun á milli fólks í sambærilegum störfum hjá sveitarfélögum og ríkinu.