Ráðhúsið Tekist er á um hver beri ábyrgð á vöruhúsinu við Álfabakka.
Ráðhúsið Tekist er á um hver beri ábyrgð á vöruhúsinu við Álfabakka. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er á lágu pólitísku plani að kenna Búseta og öðrum um þá stöðu sem upp er komin. Ábyrgðin liggur augljóslega hjá borginni og það er ekki ábyrgt að benda á þennan eða hinn eins og mér finnst að sumir í meirihlutanum hafi haft tilhneigingu…

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Það er á lágu pólitísku plani að kenna Búseta og öðrum um þá stöðu sem upp er komin. Ábyrgðin liggur augljóslega hjá borginni og það er ekki ábyrgt að benda á þennan eða hinn eins og mér finnst að sumir í meirihlutanum hafi haft tilhneigingu til að gera,“ segir Helgi Áss Grétarsson varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins um ummæli borgarfulltrúa meirihlutans í Álfabakkamálinu sem var til umræðu í borgarstjórn á þriðjudaginn.

Hann segir að baki liggja margra ára ferli þar sem borgin hafi reynt að koma lóðinni í verð.

„Það tókst ekki fyrr en þessi fjárfestir kom, óskaði eftir því að fjórar lóðir yrðu sameinaðar í eina og borgaði að núvirði einn milljarð króna fyrir lóðina. Þetta gerir það að verkum að það myndast skrítið samband á skipulagslegum forsendum á milli lóðarhafa annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar, sem seljanda. Ferlið sumarið 2022 er sérkennilegt í meira lagi með tilliti til þess hvernig deiliskipulagsbreytingin var auglýst og fáir fengu að komast að, þó að formskilyrði laga hafi verið uppfyllt,“ segir Helgi.

Fjárhagslegar skuldbindingar

Helgi segir að í janúar 2023 hafi verið lögð fram fyrirspurn til skipulagsfulltrúa hvort þarna mætti starfrækja kjötvinnslu. Svar skipulagsfulltrúa hafi verið jákvætt, sem veki spurningar því á þeim tímapunkti hafi verið komnar á fjárhagslegar og viðskiptalegar skuldbindingar milli aðila. Fjárfestirinn sem var með lóðarvilyrðið var kominn með traustan leigutaka til langs tíma til reksturs kjötvinnslu og leyfi fyrir kjötvinnslunni var forsenda fyrir því að kaupin gengju eftir.

„Aðalatriðið er það að borgin hafði mikla hagsmuni af því að koma lóðinni í verð. Um var að ræða viðskipti upp á einn milljarð króna og borgin beitti skipulagsvaldi sínu til að tryggja að viðskiptin gengju eftir,“ segir Helgi Áss Grétarsson.

Dóra Björt bendir á Búseta

Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, sagði á borgarstjórnarfundinum að það hefði verið fyrir tilstuðlan Búseta að byggingarreit hússins við Árskóga 7 var breytt. Hún segir að Búseti gefi í skyn að þeir hafi ekki vitað að þarna risi hús og Búseti hafi átt frumkvæði að breytingum 2015.

Dóra baðst undan viðtali og vísaði til ræðu sinnar í borgarstjórn þar sem hún lýsti því yfir að bygging hússins við Álfabakka 2 væri bæði vont mál og glatað. Hún hefði ekki verið upplýst um umfang byggingarinnar og sem formaður skipulagsráðs hefði hún takmarkað vald til að hafa áhrif á útlit húsa. Hún sagði það væri ekki sama hvernig byggð væri þétt og það vantaði ákvæði um birtumagn í byggingarreglugerð.

Einnig kom fram í máli Dóru að stjórnsýsla borgarinnar væri ekki vandamálið heldur þyrfti að styrkja hana og tekur þá um leið aðra afstöðu en borgarstjóri sem gagnrýndi að íbúar við Árskóga hefðu beinlínis fengið röng svör við fyrirspurn sinni um uppbyggingaráformin þegar þau voru auglýst.

Borgin búin að missa þetta út úr höndunum

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir það sitja í sér að áfram skuli byggja skemmuna í óþökk fólksins í hverfinu á sama tíma og sagt sé að unnið sé að lausn máslins.

„Þetta snýst ekki bara um fólkið í blokkinni sem fer verst út úr þessu heldur allt umhverfið þarna í kring. Bæði borgarstjóri og formaður umhverfis- og skipulagsráðs segjast vilja leita lausna, sem hlýtur að þýða að það verði gerðar grundvallarbreytingar á framkvæmdinni. Ég held að því fyrr sem framkvæmdir verða stöðvaðar þeim mun minni verði kostnaðurinn, því allt sem er byggt þarna er í hættu á að verða rifið niður.“

Hún segir yfirlýsingar kjörinna fulltrúa og afstöðu byggingarfulltrúans um að stöðva ekki framkvæmdir sýna að það sé engin tenging þarna á milli.

Vill stöðva framkvæmdir

Hvað myndir þú vilja að væri gert?

„Ég vil að framkvæmdir verði stöðvaðar. Mér finnst það mikilvægt því kostnaðurinn við breytingarnar verður bara meiri ef haldið verður áfram. Þetta snýst líka um meira en húsið; þessi kjötvinnsla er ekki í neinu samræmi við verslun og þjónustu sem þarna á að vera samkvæmt skipulagi,“ segir Kolbrún.

Kolbrún tekur undir sjónarmið íbúa um að húsið verði rifið en hún segist eiga eftir að sjá að það muni gerast.

„Borgin er búin að missa þetta allt út úr höndunum á sér, ræður engu lengur og er núna á hnjánum að biðja um samtal um einhverja lausn og á allt undir ákvörðunum þeirra sem hafa byggt á lóðinni,“ segir Kolbrún.

Stjórnsýsluúttektin getur tekið hálft ár eða ár og áfram verður haldið með skemmuna. Umræðan í dag er að leita lausna til að breyta byggingunni en krafa íbúanna er að rífa hana.

Hún segir að um sé að ræða hagsmuni heils hverfis.

„Þetta er mesta áfall sem ég hef orðið fyrir á mínum ferli hérna,“ segir Kolbrún Baldursdóttir.