Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Vinstristjórnir hafa verið þekktar fyrir annað en ábyrgan ríkisrekstur og hóflegar skattaálögur. Vonandi verður nú breyting á.

Kjartan Magnússon

Nýtt ár er gengið í garð og þjóðin hefur fengið nýja ríkisstjórn.

Sem fyrr snúast hinar stóru pólitísku átakalínur um það hvort auka eigi opinber afskipti eða draga úr þeim. Fyrri vinstristjórnir hafa ætíð beitt sér fyrir auknum ríkisafskiptum ásamt hækkun skatta og þannig skert athafnafrelsi þegnanna. Fylgjendur sósíalísks þjóðskipulags vilja að ríkið hafi stjórn á sem flestum gæðum fólksins og skammti því síðan eftir þörfum.

Ekki fer á milli mála að Samfylkingin er vinstriflokkur og annað verður varla sagt um báða samstarfsflokka hennar í nýrri ríkisstjórn. Ljóst er að stefna Flokks fólksins byggist á stórauknum ríkisútgjöldum og víðtækum opinberum afskiptum.

Viðreisn er miðjuflokkur í orði en á borði hefur ítrekað komið í ljós að henni hugnast best að vinna til vinstri. Tvö kjörtímabil í röð hefur Viðreisn tekið þátt í myndun vinstri meirihluta í borgarstjórn og látið sér vel líka að vinna þar í anda miðstýringar og vinstristefnu.

Verðbólgan verður prófsteinn

Eitt mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að stuðla að áframhaldandi lækkun verðbólgunnar. Góður árangur hefur náðst í baráttunni við verðbólgudrauginn að undanförnu. Verðbólgan fór hæst í 10,2% í febrúar 2023, mældist 6,7% í janúar 2024 en 4,8% í desember síðastliðnum. Tveimur dögum áður en ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur tók við völdum spáði greiningardeild Landsbankans áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar og að hún yrði komin niður í 3,9% í mars næstkomandi. Vonandi nær ný ríkisstjórn að halda lækkunarferlinu áfram og verður það ákveðinn prófsteinn á störf hennar.

Besta og fljótlegasta ráðið í baráttunni við verðbólguna væri að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, rifuðu seglin og kæmu rekstri sínum í jafnvægi. Með því að hætta lántökum hins opinbera skapast skilyrði fyrir enn frekari hjöðnun verðbólgu.

Óviðunandi hallarekstur

Kristrún Frostadóttir talar oft af skynsemi um efnahagsmál og ánægjulegt er að heyra að ríkisstjórn hennar ætli sér að stöðva hallarekstur ríkissjóðs. Í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar segir að eitt af forgangsverkefnum hennar verði að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Þetta eru góð stefnumál, sem vonandi verða að veruleika en tíminn mun leiða það í ljós.

Hingað til hafa vinstristjórnir verið þekktar fyrir annað en ábyrgan ríkisrekstur og hóflegar skattaálögur. Miðað við stefnu núverandi stjórnarflokka og harða gagnrýni þeirra á sparnaðaraðgerðir fráfarandi ríkisstjórnar er ekki víst að hugur fylgi máli þegar yfirlýsingar eru gefnar um aðhald og hagræðingu hjá hinu opinbera.

Enginn árangur mun nást í ríkisfjármálum nema ríkisstjórnin vinni einarðlega að sparnaði og hagræðingu. Hverfa þarf frá hugmyndum um dýr og óarðbær verkefni eins og svokallaða borgarlínu. Verkefnið mun ekki kosta undir 150 milljörðum króna og þeir fjármunir eru ekki til. Ljóst er að hægt er að ná flestum ef ekki öllum markmiðum borgarlínu með mun fljótlegri og margfalt ódýrari hætti með því að bæta núverandi strætisvagnakerfi.

Sóknarfæri í húsnæðismálum

Viðvarandi framboðsskortur á fasteignum í Reykjavík hefur verið einn helsti drifkraftur verðbólgunnar. Hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað lagt til að þessi framboðsvandi verði leystur með skipulagningu nýrra hverfa í Úlfarsárdal, Keldnalandi, Kjalarnesi og Geldinganesi. Hingað til höfum við hins vegar talað fyrir daufum eyrum vinstri meirihlutans, ekki síst borgarfulltrúa Samfylkingar og Viðreisnar. Í umræðum í borgarstjórn hefur komið fram að það sé beinlínis stefna meirihlutans að takmarka lóðaframboð í því skyni að halda lóðaverði uppi í borginni og tryggja hámarksafrakstur af sölu lóða til almennings.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að ráðast eigi í bráðaaðgerðir til að fjölga íbúðum hratt og kerfisbreytingar sem miði að jafnvægi á húsnæðismarkaði. Þetta hljómar vel. Það ættu að vera hæg heimatökin fyrir formenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar að biðja borgarfulltrúa sína um að láta af lóðaskortstefnunni og samþykkja tillögur Sjálfstæðisflokksins um stóraukið framboð lóða.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Kjartan Magnússon