M-gjöfin
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Landsliðsfyrirliðarnir Jóhann Berg Guðmundsson og Glódís Perla Viggósdóttir urðu efst í einkunnagjöf Morgunblaðsins, M-gjöfinni, fyrir landsleikina sem spilaðir voru á árinu 2024.
Jóhann Berg fékk níu M í níu leikjum og fékk því eitt að meðaltali í leik. Hann fékk tveimur M-um meira en markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson og miðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason sem komu næstir með sjö M.
Glódís fékk 13 M á árinu, þremur meira en Sveindís Jane Jónsdóttir sem varð önnur með tíu. Varnarmaðurinn Ingibjörg Sigurðardóttir og miðjukonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir koma þar á eftir með sjö M hvor.
Einkunnagjöf Morgunblaðsins er á þá leið að leikmenn fá eitt M þegar þeir eiga góðan leik að mati blaðamanna Morgunblaðsins og mbl.is, tvö þegar þeir eiga mjög góðan leik og þrjú þegar þeir eiga frábæran leik.
Morgunblaðið var með M-gjöf í öllum leikjum karlalandsliðsins á árinu 2024, að undanskildum tveimur vináttuleikjum við Gvatemala og Hondúras í Bandaríkjunum í upphafi árs. Voru því gefin M í tíu leikjum karlalandsliðsins á liðnu ári.
Í kvennaflokki var Morgunblaðið með M-gjöf í öllum leikjum, fyrir utan vináttuleikina tvo við Bandaríkin ytra í október. Kvennaliðið spilaði tólf leiki á árinu og eins og hjá körlunum voru gefin M í tíu leikjum liðsins á árinu.
Fékk M í átta leikjum
Í leikjunum níu sem Jóhann Berg spilaði á liðnu ári fékk hann einu sinni tvö M og sjö sinnum eitt M. Hann lék aðeins einn leik á árinu þar sem hann fékk ekki M, en það var í tapinu gegn Tyrklandi á heimavelli, 4:2, í Þjóðadeildinni. Jóhann fékk tvö M gegn Svartfjallalandi á heimavelli í sömu keppni.
Hákon Rafn Valdimarsson spilaði alla leiki Íslands á árinu 2024. Í leikjunum tíu þar sem M-gjöfin var til staðar fékk Hákon einu sinni tvö M og fimm sinnum eitt M. Tvö fékk hann í útisigrinum á Svartfjallalandi í nóvember, 2:0.
Sverrir fékk fleiri M að meðaltali í leik því miðvörðurinn sterki missti af heimaleiknum við Svartfjallaland og útileiknum við Tyrkland. Þrátt fyrir það fékk hann einnig sjö M á síðasta ári. Sverrir fékk tvö M fyrir frammistöðuna í 1:0-sigrinum frækna á Englandi á Wembley síðasta sumar og fimm sinnum hlaut hann eitt M.
Aðeins einn landsliðsmaður fékk þrjú M á síðasta ári, en Albert Guðmundsson átti frábæran leik þegar Ísland vann glæsilegan sigur, 4:1, á Ísrael í fyrri leik liðsins í umspili um sæti á lokamóti EM. Albert skoraði þrennu í leiknum og skaut Ísraela í kaf. Því miður tapaði Ísland fyrir Úkraínu fimm dögum síðar og komst ekki á EM.
M-gjöf karlalandsliðsins:
9M Jóhann Berg Guðmundsson.
7M Hákon Rafn Valdimarsson og Sverrir Ingi Ingason.
6M Jón Dagur Þorsteinsson og Orri Steinn Óskarsson.
5M Arnór Ingvi Traustason.
4M Albert Guðmundsson, Daníel Leó Grétarsson og Andri Lucas Guðjohnsen.
3M Guðlaugur Victor Pálsson, Hákon Arnar Haraldsson, Valgeir Lunddal og Stefán Teitur Þórðarson.
2M Logi Tómasson.
1M Bjarki Steinn Bjarkason, Kolbeinn Birgir Finnsson, Mikael Anderson, Hjörtur Hermannsson, Mikael Egill Ellertsson og Ísak Bergmann Jóhannesson.
Fimm sinnum tvö M
Í tíu M-gjöfum á liðnu ári fékk Glódís fimm sinnum tvö M og þrisvar eitt. Hún fékk tvö M í sigrinum á Serbíu á heimavelli í Þjóðadeildinni í byrjun árs og sömu einkunn fyrir frammistöðuna í heimasigrum á Póllandi og Þýskalandi og svo útisigri á Póllandi í undankeppni EM. Hún fékk einnig tvö M í jafntefli gegn Austurríki á útivelli.
Sveindís Jane lék einnig tíu leiki þar sem M-gjöfin var til staðar. Eins og Glódís fékk hún tvö M í sigrunum á Serbíu, Póllandi og Þýskalandi. Glódís fékk því alltaf tvö M þegar Sveindís fékk sömu einkunn. Sveindís fékk svo fjórum sinnum eitt M. Engin í kvennaliðinu fékk þrjú M í einkunn á árinu 2024.
Ingibjörg Sigurðardóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir komu síðan næstar með sjö M hvor.
M-gjöf kvennalandsliðsins:
13M Glódís Perla Viggósdóttir.
10M Sveindís Jane Jónsdóttir.
7M Ingibjörg Sigurðardóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.
6M Hildur Antonsdóttir.
5M Guðrún Arnardóttir.
4M Guðný Árnadóttir.
3M Alexandra Jóhannsdóttir og Sandra María Jessen.
2M Fanney Inga Birkisdóttir, Diljá Ýr Zomers og Hlín Eiríksdóttir.
1M Telma Ívarsdóttir, Bryndís Arna Níelsdóttir, Sædís Rún Heiðarsdóttir, Natasha Anasi, Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Berglind Rós Ágústsdóttir og Katla Tryggvadóttir.