Palisades Slökkviliðsþyrla reynir hér að hemja Palisades-eldinn í gær, en mikill vindur ýtti undir útbreiðslu hans.
Palisades Slökkviliðsþyrla reynir hér að hemja Palisades-eldinn í gær, en mikill vindur ýtti undir útbreiðslu hans. — AFP/David Swanson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Slökkviliðsmenn í Los Angeles og nágrenni börðust í gær við þrjá stóra gróðurelda sem herjuðu á úthverfi stórborgarinnar. Miklir vindar geisa nú á svæðinu og hafa þeir gert slökkviliðinu erfitt fyrir að temja eldana þrjá, sem kenndir eru við borgarhverfin Palisades, Hurst og Eaton

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Slökkviliðsmenn í Los Angeles og nágrenni börðust í gær við þrjá stóra gróðurelda sem herjuðu á úthverfi stórborgarinnar. Miklir vindar geisa nú á svæðinu og hafa þeir gert slökkviliðinu erfitt fyrir að temja eldana þrjá, sem kenndir eru við borgarhverfin Palisades, Hurst og Eaton. Eru aðstæður sagðar eins slæmar og hugsast gæti, og vöruðu embættismenn við því í gær að ástandið kynni enn að versna á næstu dögum.

Hafa vindhviðurnar mælst á bilinu frá 26-35 m/s og leiddi vindurinn meðal annars til þess að Palisades-eldurinn blossaði skjótt upp. Tók það hann einungis um tuttugu mínútur að stækka úr átta hektara svæði upp í rúmlega 80 hektara að sögn embættismanna í Los Angeles, en fyrst var tilkynnt um eldinn kl. 18.30 í fyrrakvöld að íslenskum tíma. Þakti eldurinn svo tæplega 1.200 hektara um hádegisbilið að íslenskum tíma í gær.

Eaton-eldurinn kviknaði í nágrenni Pasadena-borgar um kl. 2.30 að íslenskum tíma í fyrrinótt. Óx eldurinn á fyrstu sex klukkutímunum upp í rúmlega 400 hektara svæði. Þriðji eldurinn, kenndur við Hurst, hófst svo um kl. 6.10 í gærmorgun að íslenskum tíma skammt norðan við San Fernando-dalinn. Þakti hann í gær rúmlega 200 hektara svæði.

Tókst að bjarga safninu

Rúmlega 1.400 slökkviliðsmenn tóku þátt í slökkvistarfinu í gær, og sagði Gavin Newsom, ríkisstjóri í Kaliforníu, að nokkur hundruð til viðbótar væru á leiðinni til þess að takast á við eldana þrjá. Að minnsta kosti einn slökkviliðsmaður hefur slasast, þar sem 25 ára gömul kona hlaut höfuðáverka í slökkvistarfinu og var flutt á sjúkrahús.

Rúmlega 69.500 manns fengu fyrirskipanir um að yfirgefa heimili sín vegna eldanna. Skapaðist umferðarteppa á minnst einum stað, og þurfti fólk að yfirgefa bíla sína áður en eldurinn læsti sig í þá og flýja fótgangandi.

Getty-safnið var á meðal þeirra bygginga sem voru á hættusvæði eldsins, og brann nokkuð af trjám og gróðri í kringum safnið. Hins vegar tókst að koma í veg fyrir að safnið sjálft, sem stofnað var af auðkýfingnum J. Paul Getty heitnum, yrði eldinum að bráð, en þar má m.a. finna fjölda gripa frá tímum Forn-Grikkja og Rómverja.

Joe Biden Bandaríkjaforseti var staddur í Los Angeles í gær þar sem hann átti að kynna ný minnismerki. Sagði Biden að hann fengi reglulega nýjar upplýsingar um framgang eldanna, og að hann hefði þegar boðið fram alla þá aðstoð bandaríska alríkisins sem þörf væri á.

Vindhviðurnar sem knýja eldinn eru kallaðar Santa Ana-vindar, og skella þeir oft á suðurhluta Kaliforníu á haustin, þar sem loft leitar frá Klettafjöllum til Kyrrahafsins. Hefur því verið spáð að fárviðrið geti náð allt að 45 m/s í stökum hviðum á næstu dögum. Vara veðurfræðingar því við að ástandið muni einungis versna.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson