Guðni Arnberg Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 29. apríl 1934. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 25. desember 2024.

Foreldrar hans voru Sæunn Jófríður Jóhannesdóttir, f. 18.2. 1908, d. 14.1. 1997, og Þorsteinn Arnberg Guðni Ásbjörnsson, f. 21.8. 1904, d. 13.7. 1971. Systkinin voru sex, bræður Guðna eru Steini Sævar og Árni Hreiðar en látin eru Jóhannes, Helga og Málfríður.

Hinn 22.10. 1955 kvæntist Guðni Hallgerði Ástu Þórðardóttur, f. 25.10. 1935. Börn þeirra: 1) Dagmar Hrönn, f. 28.4. 1955, d. 3.11. 2016, eftirlifandi eiginmaður Dagmarar Hrannar er Guðmundur Eiríksson, sonur þeirra er Guðni Eiríkur. Núverandi maki Guðmundar Eiríkssonar er Lilja Jónsdóttir. 2) Þorsteinn Guðni Arnberg, f. 29.1. 1960, eiginkona Ingigerður Þórðardóttir. Börn þeirra eru a) Þórður, maki Sunna Dögg Heimisdóttir, börn þeirra Þorsteinn Dan og Halla Dís, b) Ásta, maki Halldór Valur Pálsson, börn þeirra Inga Halla og Valdís Hrönn.

Guðni ólst upp í Reykjavík. Hann hóf störf hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1953 við Sogsvirkjanir og hjá Landsvirkjun árið 1966 þar til hann lét af störfum vegna aldurs árið 2004.

Guðni var meðal annars virkur félagi í Harmonikkufélagi Reykjavíkur og Félagi harmonikkuunnenda auk Fornbílaklúbbsins. Á sínum yngri árum var hann einnig virkur í Svifflugfélagi Íslands. Guðni var félagi í Oddfellow í tæp 50 ár.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 9. janúar 2025, klukkan 15.

„Hæ gæ,“ heilsaðir þú mér í hvert sinn sem ég heyrði í þér í síma. Þetta var töff, vinalegt og fullt af umhyggju sem skein í gegn með raddblænum sem fylgdi. Þannig varstu ávallt í garð samferðafólks þíns og þinna nánustu. Þú fylgdist vel með okkur og misstir ekki af neinu. Spurðir út í vinnuna og fleira. Alltaf viðstaddur stóru stundirnar í lífi okkar. Og upp rennur fyrir manni að þú á þinn hátt gafst svo mikla hvatningu, þótt þú hefðir ekki mörg orð um það. Það var heldur ekki þinn stíll. Þurftir þess ekki. Síðustu misserin voru spurningarnar kannski farnar að vera oftar um sama hlutinn og með styttra millibili en það lýsir auðvitað engu öðru en einskærri velvild og umhyggju.

Ég hugsaði um ævi þína um daginn og áttaði mig á að þótt lífið gæti virst hversdagslegt; sinna vinnu, fjölskyldu og hafa eitthvað fyrir stafni, þá um leið var ævi þín ekkert annað en stórt ævintýri með ótrúlegum atburðum sem þú tókst þátt í og markaðir þannig spor þín á lífsleið annarra. Sögurnar sem þú sagðir mér af hinum og þessum atburðum í lífi þínu þættu efni í skáldsögu eða kvikmyndahandrit sem keppst væri um.

Það að vera í kringum þig var svo ofboðslega notalegt – nærvera þín var betri en annarra. Stundum er sagt að það sé merki um hversu vel manni líður í návist einhvers að geta notið þagnarinnar, saman. Það var svo sannarlega raunin með þér. Glaðlyndi þitt og nærvera gerði það að verkum að öllum leið vel með þér, sama úr hvaða átt þjóðfélagsins fólk kom enda fórstu ekki í manngreinarálit. Vandvirkni og snyrtimennska var þér í blóð borin og ég mun passa upp á að ganga extra vel um bílinn hér eftir því að góður maður sagði eitt sinn að hægt væri að meta manninn út frá því hvernig hann gengi um bílinn sinn.

Ég þakka fyrir samfylgdina, elsku afi, takk fyrir að kenna mér að blístra, takk fyrir stundirnar okkar með nikkuna, en umfram allt: takk fyrir gleðina, húmorinn og góða skapið.

Guðni Eiríkur.

Þegar kemur að kveðjustund hugsar maður til baka og margar minningar koma í hugann. Allt hefur sinn tíma og það er okkar að horfast í augu við þann veruleika. Þegar kemur að kveðjustund er aðdragandinn stundum nokkur, en þegar kallið kemur erum við einhvern veginn alltaf óviðbúin. Nú er hann Guðni farinn úr þessu jarðlífi, jarðlífi sem var honum erfitt síðustu misserin. Ellin fer stundum illa í fólk, það fer ekki alltaf eins og við viljum. Hugurinn hjá Guðna var undir það síðasta óskýr en inn á milli rofaði til. Minningabrotin frá liðnum tíma gátu þá verið ótrúlega hrein þegar undir það síðasta voru rifjaðir upp liðnir tímar og þeir bárust í tal.

Hann lifði hefðbundnu lífi hins vinnandi manns, hugsaði um fjölskylduna sína, hafði fjölmörg áhugamál, kunni að njóta góðu stundanna og öllu sem honum ávannst í lifandi lífi þurfti hann að vinna fyrir hörðum höndum. Hann var Reykvíkingur, en bjó um tíma á Suðurlandi og naut sín þar, vann hjá fyrirtæki sem stuðlaði að því að efla stöðu innviða og hann var stoltur af sínu framlagi, traustur hlekkur í þeirri keðju sem gerir samfélagið okkar sterkara og betra. Einstaklega handlaginn, var leitandi í sínum verkum, prófaði nýjar aðferðir, smíðaði hluti og var alltaf að spekúlera hvernig væri hægt að gera hitt og þetta með betra og léttara móti. Smíðaði loftpúðafar, íssleða, gerði upp gamla bíla, gerði við harmonikkur, skar út, já honum var flest til lista lagt. Honum auðnaðist líka að bjarga mannslífi og þann viðburð rifjaði hann oft upp með mér.

Guðni var einstakt snyrtimenni og hann þoldi til dæmis ekki skítuga bíla. Hann sagði eitt sinn við mig stuttu eftir að ég kom í fjölskylduna að hann væri nú fljótur að sjá hvaða mann einstaklingar hefðu að geyma: „Þú þarft ekki annað en að sjá hvernig umhirða viðkomandi er á bílnum sínum!“

Hann hafði einstakt skopskyn, var félagslyndur, naut þess að vera í góðum félagsskap. Spilandi á sína harmonikku á harmonikkumótum eða við ýmis tilefni og í útilegum. Ferðalög urðu þó nokkur með vinnufélögum og fjölskyldu seinni árin, innanlands og utan.

Guðni var Íslendingur í þess bestu orðs bestu merkingu. Hann hafði samt gaman af því að rifja það upp að hann var sko fæddur undir dönskum kóngi, því þótti honum rétt að halda til haga.

Hann sótti fundi í Oddfellowreglunni þar sem hann var félagi í rétt tæp 50 ár.

Guðni var ekki margorður, en nærveran við hann var einstaklega góð. Fyrr á árum flaug hann um loftin blá í svifflugi, var alltaf til í að prófa hluti en fór samt alltaf varlega. En fyrst og fremst naut hann sín með lífsförunaut sínum, henni Gerði, akkerinu sínu eins og hann sagði, og eiginlega flest sem þau gerðu var í sameiginlegu nafni þeirra. Og hann fylgdist með sínu fólki og naut samvistanna við það. Eitt af því sem hann sagði við mig þegar við kvöddum hann í eitt af síðustu skiptunum, en þá var hugurinn þokkalega með á nótunum, var að hann bæði að heilsa öllum sem hann þekkti. Nú bið ég þig að skila kveðju yfir í sumarlandið. Takk fyrir samfylgdina.

Guðmundur Eiríksson.