Donald J. Trump komst í heimsfréttirnar á dögunum þegar hann gaf í skyn að beita mætti vopnum til að ná Grænlandi undir yfirráð Bandaríkjanna. Trump hefur áður, í fyrri forsetatíð sinni, sagst vera til í að kaupa Grænland. Það er að sjálfsögðu ekki til sölu, eins og grænlenskir ráðamenn hafa neyðst til að taka fram. Það er ráðlegt að taka yfirlýsingum forsetaefnisins með fyrirvara og alls ekki bókstaflega, eins og Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, hefur bent á en þó ber að taka þær alvarlega.
Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands, var ómyrk í máli um útspil Trumps og sagði það bull. Hún kynnti á liðnu ári nýja stefnu grænlensku landstjórnarinnar í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum til ársins 2033. Hún ber yfirskriftina Grænland og umheimurinn: Ekkert um okkur án okkar. Segja má að stefnan sé eitt af mörgum skrefum Grænlendinga í átt til sjálfstæðis. Þar er því meðal annars slegið föstu að norðurslóðir skuli áfram vera svokallað lágspennusvæði, það er að segja að á löndin sem liggja á norðurheimskautssvæðinu hafi áfram með sér friðsamleg samskipti. Í stefnunni er fjallað um nauðsyn nánara samstarfs við Kanada og Bandaríkin með áherslu á Inúítaþjóðir þessara tveggja landa en einnig lögð áhersla á góð samskipti við vinaþjóðirnar í útnorðrinu, Íslendinga og Færeyinga.
Útspil Trumps er engin tilviljun og Bandaríkin eru ekki eina stórveldið sem ásælist náttúrulegar auðlindir Grænlands og aðganginn sem það veitir að siglingaleiðum um norðurskautið ef svo illa fer að þær opnist allt árið. Norðurskautssvæðið hefur fengið nýtt og aukið vægi í alþjóðapólitíkinni. Ástæða er til að rifja upp ræðu Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi Norðurskautsráðsins árið 2019 þar sem hann skilgreindi norðurslóðir sem nýtt átakasvæði í heiminum. Ólafur Ragnar Grímsson vissi vel hvað hann var að gera þegar hann setti Hringborð norðurslóða á fót og kom málefnum svæðisins rækilega á kortið.
Í skýrslu sem Össur Skarphéðinsson og Unnur Brá Konráðsdóttir skiluðu til þáverandi utanríkisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, í árslok 2020 um Grænland og Ísland í nýrri heimsmynd norðurslóða kom skýrt fram hversu margir sameiginlegir fletir eru á hagsmunum þessara tveggja landa. Þar er líka rakið hvernig staðan á norðurheimskautssvæðinu hefur breyst frá aldamótum, meðal annars vegna aukins áhuga stórveldanna á svæðinu og auðlindum þess. Við skulum því taka mark á því sem leiðtogar stórveldanna Bandaríkjanna, Kína og Rússlands segja um málefni norðurslóða.
Ísland styður að sjálfsögu sjálfstæði Grænlands. Örlög Grænlands koma okkur við á svo margan hátt og heimskautafriðurinn er Íslandi jafn nauðsynlegur og Grænlandi.
Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands. tsv@althingi.is