Sjónarhorn
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Sú sem þetta skrifar minnist þess ekki að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi farið sérlega illum orðum um pólitíska andstæðinga þótt oft hafi hann haft ástæðu til. Bjarni kann sig og hið sama má segja um langflesta pólitíska andstæðinga hans á þingi. Pólitískir andstæðingar Bjarna eru hins vegar ekki bara á þingi, þeir eru einnig í netheimum þar sem þeir láta til sín taka og vanda ekki kveðjurnar þeim sem þeir eru ósammála. Og þeir eru mjög ósammála Bjarna Benediktssyni í svo að segja í öllum málum og láta vita af því, oft með dólgslátum.
Bjarni hefur fengið yfir sig meiri fúkyrðaflaum en flestir aðrir stjórnmálamenn samtímans. Auðveldlega væri hægt að fylla dálk eins og þennan með sóðalegum tilvitnunum um hann. Talað hefur verið um hann sem holdgerving spillingar, hann hefur verið kallaður konungur þjófanna og sagður vera barnamorðingi, svo einungis afar fátt sé rifjað upp af þeim orðum sem höfð hafa verið um hann af andstæðingum hans. Þessir andstæðingar eiga það sameiginlegt að hafa gefið sjálfum sér þann stimpil að vera marktækir þjóðfélagsgagnrýnendur þótt við blasi að þeir eru það ekki, enda munnsöfnuðurinn iðulega þannig að ekki er mark á honum takandi. Netmiðlar, sem hafa það markmið að þefa uppi smelludólgafréttir, hafa í gegnum tíðina slengt sóðalegum ummælum um Bjarna á netið og krækt þannig í dágóðan lestur.
Það þarf sterkt bak til að þola ósvífna og ósanngjarna gagnrýni. Í mótlæti kemur vel í ljós úr hverju manneskja er gerð. Bjarni hefur sýnt aðdáunarvert þol og haldið ró í aðstæðum þar sem mjög hefur reynt á hann. Ástæða er til að bera djúpa virðingu fyrir því. Það er ekki þægilegt fyrir ráðherra að vita að hann geti orðið fyrir aðkasti og jafnvel árás mæti hann á opinbera viðburði. Þetta var raunveruleiki í lífi Bjarna Benediktssonar í allnokkurn tíma. Hver var sök hans? Harðskeyttustu andstæðingar hans kenndu honum um dráp á börnum á Gasa. Maður áttar sig ekki vel á því hvað er að gerast í hugarheimi fólks sem ályktar á svo galinn hátt.
Nú hefur Bjarni ákveðið að kveðja stjórnmálin. Stjórnmálafræðingar hafa þegar gefið honum góða einkunn fyrir stjórnmálaferilinn. Það hefur valdið nokkru svekkelsi hjá slatta af þeim einstaklingum sem þrifist hafa á því að hafa sem mesta andúð á Bjarna. Þeir koma ekki auga á einn einasta sólargeisla á löngum pólitískum ferli formanns Sjálfstæðisflokksins. Reyndar virðist þessum hópi almennt þykja einbeittir sjálfstæðismenn vera manngerð sem hugsi um það eitt að safna auði og koma sér vel fyrir á kostnað almennings. Slík einföldun á raunveruleikanum fellur í kramið hjá ýmsum, líka þingmönnum vinstriflokka sem dunda sér við að búa til Grýlu úr Sjálfstæðisflokknum, flokki sem á löngum líftíma hefur átt ríkan þátt í að gera Ísland að betri stað til að búa á. Hörðustu vinstrimenn kjósa að harðneita þeirri staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur stuðlað að framförum hér á landi, enda líður þeim langbest í sínum sósíalísku hugarórum.
Auðvitað gerði Bjarni Benediktsson ýmis mistök á sínum langa pólitíska ferli og á nokkur hneykslismál að baki. Hugsanlega hefur sú efnahagslega velsæld sem hann ólst upp við gert að verkum að hann hefur ekki haft þá sterku innsýn í líf venjulegs fólks sem heppilegust hefði verið fyrir þungavigtarmann í íslenskri pólitík. Í höfuðatriðum vann hann þó vel og hélt flokki sínum í landstjórninni í langan tíma og eins og alkunna er líður sjálfstæðismönnum aldrei betur en þegar þeir eru við völd. Valdaleysi fyllir þá óróa og leiða.
Bjarni Benediktsson var öflugur og valdamikill stjórnmálamaður sem lét pólitíska andstæðinga ekki slá sig út af laginu. Hann hlaut að verða umdeildur. Ekkert réttlætir hins vegar hið bullandi hatur og hina miklu heift sem um of ríkti í hans garð. Ástæða er til að kveðja stjórnmálamanninn Bjarna með virðingu.