Ragnhildur Björg Erlendsdóttir fæddist á Jarðlangsstöðum á Mýrum 14. apríl 1931. Hún lést á Hrafnistu 24. desember 2024.
Foreldrar hennar voru Auður Finnbogadóttir, f. 1904, d. 1985, og Erlendur Jónsson, f. 1896, d. 1980. Hún ólst upp á Jarðlangsstöðum í Borgarfirði að tíu ára aldri ásamt þremur systkinum, Þuríði, Ernu og Erni. Erna lifir systkini sín.
Fyrri eiginmaður Ragnhildar var Kjartan Jónsson, f. 1915, d. 1989.Börn þeirra eru: 1) Hilmar, f. 1949, kvæntur Maríu Hallbjörnsdóttur, þau skildu. Eignuðust þau Lísu, f. 1986. Fyrir átti Hilmar Sigríði, f. 1974. 2) Jón Birgir, f. 1952, kvæntur Theminu Kjartansson. Þau eiga Kjartan, f. 1976, Anítu, f. 1979, og Alex, f. 1981. 3) Auður, f. 1956, gift Herði S. Bachmann. Eiga þau Írisi, f. 1985, og Hildi, f. 1989. Barnabarnabörnin eru 13. Ragnhildur og Kjartan slitu samvistum.
Síðari eiginmaður Ragnhildar var Björn Þorgeirsson, f. 1917, d. 2003, og átti hann af fyrra hjónabandi þrjú börn.
Ragnhildur fluttist til Reykjavíkur 1941. Hún bjó í Vesturbænum í rúm 60 ár. Hún starfaði stærstan hluta starfsævinnar hjá Tollstjóranum í Reykjavík sem skrifstofustjóri.
Útförin fór fram 8. janúar 2025, í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Er sárasta sorg okkur mætir
og söknuður huga vorn grætir
þá líður sem leiftur úr skýjum
ljósgeisli af minningum hlýjum.
(H.J.H.)
Mamma ólst fyrstu 10 árin upp á Jarðlangsstöðum á Mýrum við Langá, ekki óeðlilegt að hennar uppáhaldsmatur var lax, þaðan flutti fjölskyldan til Reykjavíkur og voru henni hugleikin æskuárin í sveitinni. Hún fór í Laugarnesskólann og síðan í Ingimarsskólann. Hún átti auðvelt með nám og var áhugasöm um íslensku og sögu. Hún hafði mjög næmt skopskyn, var félagslynd og vinmörg. Mamma sá alltaf björtu hliðarnar, var lausnamiðuð og útsjónarsöm. Það var alltaf hægt að treysta á hennar vináttu og það var best að leita til hennar ef eitthvað bjátaði á.
Mamma var mikill fagurkeri og lagði mikið upp úr því að hafa fallegt í kringum sig. Hún tók alltaf á móti gestum með glaðværð og fallegum orðum. Hún bjó lengst af á Sólvallagötu 3 í Reykjavík og þar gat hún verið í stórum garði að rækta. Mamma var einkar ósérhlífin, hún fór í öllum veðrum út að ganga um Vesturbæinn þar sem hún bjó í rúm 60 ár. Hún sótti mikið Vesturbæjarlaugina og fór þangað þar til hún flutti 88 ára í Hvassaleiti 58, í fallega íbúð með glæsilegu útsýni yfir borgina. Hún lagði mikið upp úr að vera vel til fara og átti falleg föt og snyrtileg með eindæmum. Hún var mjög glæsileg og falleg kona. Alltaf gat hún hrósað öðrum og sagt eitthvað fallegt.
Mamma vann hin ýmsu störf og var ávallt farsæl í starfi en lengst af vann hún sem skrifstofustjóri hjá Tollstjóranum í Reykjavík þar til hún fór á eftirlaun.
Áhugamál hennar voru fjölmörg og fór hún á námskeið tengd Íslendingasögunum og ferðaðist með þeim á söguslóðir. Hún átti alltaf mjög auðvelt með að umgangast fólk og hafði einstakt lag á því að koma af stað umræðum.
Mamma var mjög menningarsinnuð, ýtti undir áhuga minn á bókmenntum eins og Sólon Íslandus sem mér þótti ekki góð lesning á þeim tíma en þessa bók tengi ég alltaf við mömmu. Hún hafði mikinn metnað fyrir mína hönd og hvatti mig áfram í að stíga alltaf út fyrir þægindarammann.
Hún las alveg gríðarlega mikið og hafði einstakt minni, gat endursagt heilu línurnar úr bókum og sögum af samferðamönnum sínum þá sérstaklega eitthvað skemmtilegt og var hún góður sögumaður. Ljóð fór hún með alveg fram í andlátið. Tónlist var henni hugleikin og var hún hrifnæm þegar hún heyrði fallega tónlist. Hún ferðaðist mikið innan- og utanlands með okkar fjölskyldu, eigum við dýrmætar minningar frá þeim ferðum.
Það er sárt að kveðja mína bestu vinkonu og mömmu sem var einstök fyrirmynd. Á þessum tímamótum rifjast upp ótal minningar sem ég minnist með miklu þakklæti og hlýju. Þú hefur verið mitt akkeri í lífinu og ávallt verið traust og einstök móðir.
Elsku mamma, mundu að ég verð alltaf besta stelpan þín.
Minning um yndislega móður mun lifa í hjarta mínu um ókomna tíð.
Þín dóttir,
Auður.
Tengdamóðir mín Ragnhildur Erlendsdóttir lést á Hrafnistu að kvöldi 24. desember, 93 ára að aldri. Síðustu tvö árin hafði líkamlegri heilsu hennar hrakað, sem hún mætti af æðruleysi.
Ég kynntist Ragnhildi árið 1981 eftir að við Auður kynntumst. Það fyrsta sem ég tók eftir í fari hennar var hversu glæsileg hún var og bar sig vel. Ragnhildur var léttlynd og ávallt stutt í hennar fallega bros. Aldrei sá ég hana skipta skapi og hún sá alltaf það góða í fari hvers manns. Hún hafði ákveðnar skoðanir og tók alltaf afstöðu með þeim sem minna máttu sín og þoldi illa misrétti og græðgi.
Hreyfing skipti Ragnhildi miklu máli, hún gekk til vinnu, synti mikið og undi sér vel úti í náttúrunni.
Ragnhildur hafði fjölmörg áhugamál og nýtti tíma sinn vel, alla tíð sótti hún leikhús og á ég henni það að þakka að í dag er ég tíður gestur í leikhúsum landsins. Engum hef ég kynnst sem las fleiri bækur en Ragnhildur og voru alltaf bókastaflar í kringum hana. Hafði hún sérstakt dálæti á ljóðum og gat þulið heilu ljóðabálkana alveg fram í andlátið, sama má segja um tónlist, sem fylgdi henni alla tíð, þá hafði hún sérstakt dálæti á tenórsöng og þá sérstaklega ítölskum aríum.
Auður var alla tíð nátengd móður sinni og töluðu þær saman nær daglega, dætur okkar voru einnig nátengdar ömmu sinni og er söknuður þeirra mikill.
Björn eiginmaður Ragnhildar var eins og hún ákaflega léttlyndur og skemmtilegur maður. Hann var tónelskur og afburðagóður söngmaður alla tíð.
Við ferðuðumst stundum með Ragnhildi og Bjössa, sérstaklega er mér minnisstætt mánaðarferðalag til Portúgals og tíðar ferðir innanlands. Æskustöðvar Ragnhildar í Borgarfirðinum voru henni ávallt hugleiknar og þekkti hún þar hverja þúfu og var alltaf til í að njóta útivistar þar.
Nú þegar líður að lokum samvistar okkar á þessari jörðu, þá á ég fallegar og góðar minningar um brosmilda og skemmtilega tengdamóður sem var mikill og góður vinur minn alla tíð. Sú minning lifir með mér áfram.
Hörður Bachmann.
Það er sárt að kveðja jafn mikilvæga og áhrifamikla manneskju eins og ömmu Sóló. Amma Sóló var einstök kona, sérlega jákvæð að eðlisfari og með mikið jafnaðargeð. Hún sá alltaf það fallega í fari fólks, sýndi ætíð einlægan áhuga og hafði einstakt lag á því að hrósa öllum sem voru í samskiptum við hana. Hún hafði einstaka og hlýja nærveru sem var engu öðru lík. Hún var einkar hnyttin og fær í mannlegum samskiptum. Það var alltaf hægt að spjalla við hana um allt milli himins og jarðar, enda var hún víðlesin og fylgdist náið með dægurmálum. Hún var vinmörg og glaðlynd, það var ekki til sá fýlupúki sem amma gat ekki komið í gott skap.
Náin tengsl okkar systra við ömmu hófust á barnsaldri. Hún var mikil smekkkona, pjattrófa og fagurkeri. Hún og afi Bjössi bjuggu sér fallegt heimili við Sólvallagötu 3 þaðan sem við eigum margar yndislegar minningar. Afi Bjössi sá ekki sólina fyrir henni, það birti yfir honum í hvert sinn sem hann leit hana augum. Samband þeirra var einstaklega fallegt og hamingjuríkt, gott er að vita af því að þau hafi sameinast á ný. Sérlega minnisstæð eru þau skipti sem við gistum hjá þeim, þá spiluðum við svarta Pétur og fengum alltaf ljúffengar pönnukökur. Amma hafði alltaf tíma og hvatti okkur til dáða í gegnum allt lífið, hrósaði okkur og sýndi ætíð einlægt þakklæti yfir minnstu hlutum. Það var því fastur liður að heimsækja hana um helgar, sóttum við mikið í hennar nærveru og ræktuðum okkar sterku tengsl með samveru, bréfaskriftum, símtölum og leikhúsferðum. Síðar þegar við systur hófum nám í Kvennaskólanum vorum við tíðir gestir hjá henni og voru pönnukökurnar hennar ómissandi með kaffinu. Seinna þegar við kynntust eiginmönnum okkar og eignuðust börn sýndi hún þeim mikla umhyggju og mynduðu þau falleg tengsl við hana.
Við fórum með þeim í ótal ferðir innanlands og utanlands. Sérlega minnisstætt er þegar amma kom í heimsókn til okkar systra þegar við stunduðum háskólanám í Danmörku. Þá kenndi hún okkur handtökin við pönnukökubaksturinn sem enn reynist erfitt að ná eins fullkomnum og hún gerði.
Amma var heilsuhraust til níræðisaldurs, var fjallageit og mikil sundkona. Við fórum oft saman í Vesturbæjarlaugina á silfraða Volvóinum og keyrði hún á lágmarkshraða sem okkur þótti svo notalegt.
Það er ein af okkar stærstu lífsgjöfum að fá að alast upp með jafn sterka fyrirmynd og ömmu Sóló. Við kveðjum þig með mikilli sorg en þakklæti fyrir allar yndislegu stundirnar sem safnast hafa saman yfir langa ævi.
Elsku amma, takk fyrir þá dásamlegu hlýju og umhyggju sem þú sýndir okkur. Minningarnar um þig og þína einstöku lífssýn hafa verið okkur mikilvægt veganesti. Eftir situr mikið tómarúm sem við munum fylla í með björtum minningum sem ylja fyrir lífstíð. Við vitum að þú heldur áfram að fljúga hátt, sólarmegin á næsta tilverustigi rétt eins og þú gerðir í þessu með afa Bjössa þér við hlið.
Ömmustelpurnar þínar,
Íris Dögg og Hildur Björg.
Ragnhildur Erlendsdóttir giftist föðurbróður mínum, Kjartani Jónssyni frá Asparvík.
Kjartan var sjómaður og síðan húsasmiður.
Þau Ragnhildur og Kjartan bjuggu lengst af á Birkimelnum og heimili þeirra var eitt af hlýjum athvörfum sem leitað var til á menntaskólaárum í Reykjavík.
Gott var að geta labbað við hjá Ragnhildi á Birkimelnum og spurt einfaldlega: „Hvað er í matinn?“ og tekið stutt spjall um nýjustu bók Þórbergs, ljóð Davíðs, Steins Steinars eða bara daginn og veginn þá stundina.
Ragnhildur var ávallt glaðbeitt, fróð og hvetjandi. Hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi.
Oft á sumrin komu Ragnhildur og krakkarnir vestur í Bjarnarhöfn nokkra daga.
Synirnir Hilmar og Jón Birgir voru langtímum hjá foreldrum mínum í Bjarnarhöfn á barns- og unglingsárum.
Það fylgdi Ragnhildi alltaf hlátur og gleði, ferskleiki sem var afar smitandi og aðrir nutu.
Mér hlýnar enn yfir minningunni þegar ég lá unglingur nokkra daga á Landakoti vegna kirtlatöku og Ragnhildur kom með rjómaís, sem var eitt af fáu sem ég mátti þá borða.
Ragnhildur var glæsileg kona og henni fylgdi reisn, hlýja og virðuleiki.
Með þessum orðum þökkum við Ragnhildi samferðina, gleðistundirnar, spjallið, já samskiptin öll og vináttu.
Börnum hennar, fjölskyldum og vinum sendum við einlægar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Ragnhildar Erlendsdóttur.
Ingibjörg Kolka og Jón Bjarnason.