Texasbúi Carrin F. Patman, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, á skrifstofu sinni.
Texasbúi Carrin F. Patman, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, á skrifstofu sinni. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Carrin F. Patman, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, segir mikið hafa áunnist við að efla samskipti ríkjanna í sendiherratíð sinni. Þá hafi alþjóðleg umræða um Grænland minnt á vaxandi þýðingu norðurslóða í alþjóðamálum og mikilvægi þess að tryggja öflugar varnir

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Carrin F. Patman, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, segir mikið hafa áunnist við að efla samskipti ríkjanna í sendiherratíð sinni. Þá hafi alþjóðleg umræða um Grænland minnt á vaxandi þýðingu norðurslóða í alþjóðamálum og mikilvægi þess að tryggja öflugar varnir.

Patman tekur á móti blaðamanni og ljósmyndara í bandaríska sendiráðinu við Engjateig. Við mæltum okkur mót síðastliðinn miðvikudag en daginn eftir var sendiráðið lokað vegna útfarar Jimmy Carter forseta.

Patman, sem var skipuð sendiherra í ágúst 2022, heldur af landi brott í næstu viku eftir viðburðaríka sendiherratíð. Mun næstráðandi hennar í sendiráðinu, Erin Sawyer, stýra sendiráðinu þar til nýr sendiherra lendir á Íslandi og hefur störf. Tímasetningin á því liggur ekki fyrir en skýrist eftir innsetningu Donald Trump í embætti Bandaríkjaforseta 20. þessa mánaðar.

Haldið upp á 80 árin

Patman hefur verið áberandi sendiherra á Íslandi og meira borið á henni en forvera hennar. Meðal annars minntist hún þess 17. júní í fyrra að þá voru 80 ár liðin síðan Bandaríkin urðu fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstæði Íslands. Jafnframt voru það ár 75 ár liðin síðan Ísland var ásamt Bandaríkjunum meðal stofnaðila Atlantshafsbandalagsins, NATO.

Náði langt í lögmennsku

Eins og fram kom í samtali Morgunblaðsins við Patman 16. mars í fyrra útskrifaðist hún úr lagadeild Texas-háskóla árið 1982 og gekk til liðs við lögmannsstofuna Bracewell í Houston. Þar starfaði hún í þrjá áratugi sem málafærslumaður. Gætti hagsmuna skjólstæðinga sinna í réttarsal, yfirleitt sem verjandi í málum þar sem fyrirtæki tókust á. Patman var fyrsta konan í sjö manna stjórn stofunnar, sem var með nokkur hundruð starfsmenn og skrifstofur í tíu löndum. Síðar hafði Patman mikil áhrif á uppbyggingu samgönguinnviða í Houston. Hún er gift lögmanninum James V. Derrick og eru þau búsett í Texas.

Merkileg nýsköpun á Íslandi

Patman er sem áður segir á heimleið og við þau kaflaskil er hún beðin um að gera upp sendiherratíð sína á Íslandi.

„Það hefur verið afar lærdómsríkt að starfa hér. Ég hef meðal annars kynnt mér byltingarkenndar lausnir hjá nýsköpunarfyrirtækjum í loftslagsmálum og sjálfbærni. Ég snæddi um daginn hádegisverð með Þór Sigfússyni hjá Sjávarklasanum, en ég myndi gjarnan vilja sjá útibú frá Sjávarklasanum við strönd Mexíkóflóa. Houston er enda nærri ströndinni og engin ástæða til að vera ekki með slíkt þróunarstarf í sjávarútvegi,“ segir Patman.

Mörg íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafi þróað byltingarkennda tækni en þar megi nefna Kerecis og Össur.

„Maðurinn minn, Jim, hitti einmitt nýverið mann í jólaboði í Houston sem hafði fengið gervifót frá Össuri. Einnig má nefna matvælafyrirtækið Good Good, en ég held ég fari rétt með að fyrirtækið hyggist opna skrifstofu í Austin [höfuðborg Texas], óhagnaðardrifna geirann og alla nýsköpunina til að takast á við alþjóðlegar áskoranir. Svo eru það skólarnir. Ég hef gert mér far um að heimsækja háskólana á ferð minni um Ísland og ræða við nemendur, sem hefur verið afar gefandi. Þannig að ég fer héðan með margar hugmyndir í farteskinu og Ísland hefur veitt mér mikinn innblástur. Það hefur svo sannarlega breytt lífi mínu og viðhorfum til margra hluta að vera sendiherra hér,“ segir Patman.

Milli siglingaleiða

Hvernig myndirðu draga saman dvöl þína hér? Á hvaða sviðum hefurðu helst náð árangri?

„Ég tel að það hafi gengið virkilega vel að efla samstarf ríkjanna. Fyrst ber að nefna að þjóðaröryggi og varnarmál eru gríðarlega mikilvæg í heiminum í dag. Staðsetning Íslands er að sjálfsögðu mjög mikilvæg mitt á milli siglingaleiðanna tveggja sem nefndar eru GIUK-hliðið og héðan er því hægt að sinna afar mikilvægu eftirliti með umferð skipa og kafbáta. Hingað koma jafnframt bandarískar flugvélar sem hafa eftirlit með kafbátaumferð, enda hafa rússnesk stjórnvöld verið að hnykla vöðvana og ráðist inn í fullvalda ríki, en það er mikið áfall í heimsmálum að þau telji sig geta gert slíkt. Að sjálfsögðu hafa Ísland og Bandaríkin staðið þétt saman gegn þeirri ágengni.

Lofsverð framganga Íslands

Og framganga Íslands hefur verið lofsverð hvað varðar móttöku flóttamanna, mannúðaraðstoð og alls kyns stuðning sem þessu tengist. Ég tel að eitt það mikilvægasta sem við höfum gert sé að efla samstarfið í varnarmálum. Það er mikilvægt að allir átti sig á því að rétt eins og Ísland er mikilvægt fyrir Bandaríkin og NATO hafa Bandaríkin og NATO úrslitaþýðingu fyrir öryggi Íslands.

Til lengri tíma litið tel ég að sú staða geti komið upp í heimsmálum að Íslendingar þurfi að gefa mikilvægi þessa enn meiri gaum en þeir hafa gert og leggja enn meira af mörkum. Tel að mál muni þróast á þann veg. Við viljum öll trúa því að við lifum í friðsömum heimi eða að átök annars staðar hafi í öllu falli ekki áhrif á okkur en þau gera það. Og ég held að Íslendingar og Bandaríkjamenn þurfi að gera sér grein fyrir því.“

Spurð hvað hægt sé að gera meira í varnarmálum segir Patman margt lofa góðu og nefnir til dæmis aukin verkefni í tengslum við NATO á varnarsvæðinu í grennd við Keflavíkurflugvöll og í Helguvík.

Mikilvægur heimshluti

Varnarmál í okkar heimshluta eru nú mikið til umræðu á vettvangi alþjóðamála eftir að Donald Trump yngri kom í óvænta heimsókn til Grænlands síðastliðinn þriðjudag. Nú ætla ég ekki að biðja þig um að skýra hvað vakir fyrir Trump í Grænlandsmálinu. Hins vegar leikur mér forvitni á að spyrja þig út í það mál.

„Ég ætla mér svo sannarlega ekki að tala fyrir hönd Trumps og ríkisstjórnar hans. Að sjálfsögðu ekki. Trump forseti mun gera grein fyrir stefnu sinni og hafa sendiherra hér. Hins vegar tel ég að það sé góðs viti að Trump skuli koma auga á mikilvægi þessa heimshluta. Það er mikilvægt enda eru Grænland, Ísland og önnur norðurskautsríki á margan hátt heiminum afar mikilvæg. Það lofar að því leyti góðu. Það er auðvitað mjög mikilvægt að Trump sé meðvitaður um þetta,“ segir Patman og áréttar að það sé auðvitað Grænlendinga og Dana að ákveða hvernig þeir vilji haga sambandi sínu við Bandaríkjastjórn.

Listin að miðla málum

Nú ertu að láta af störfum sem sendiherra. Hvað hyggstu taka þér fyrir hendur?

„Já, ég er að láta af störfum. Þetta verður líklega síðasta staðan sem ég gegni, en ég er auðvitað skipuð af Biden og kem raunar ekki úr utanríkisþjónustunni. Biden forseti og teymi hans völdu fólk sem þau þekkja til að verða sendiherrar í ríkjum bandamanna sinna. Það var því hlutverk mitt hér að vera fulltrúi forsetans. Hins vegar mun ég taka virkan þátt í samfélagsmálum þegar ég kem heim til Texas. Við Jim maðurinn minn ætlum okkur að taka virkan þátt í starfi miðstöðvar sem við höfum komið á legg við Lyndon Baines Johnson School of Public Affairs við Háskólann í Texas,“ segir Patman, en miðstöðin heitir The Patman Center for Civic and Political Engagement.

Miðla þekkingu sinni

„Hugmyndin er að kenna nemendum listina að ná málamiðlun við stefnumótun. Nú er enda svo mikil skautun í landinu okkar. Þegar fjölskylda mín var í opinberri þjónustu var auðveldara að ná fram málamiðlun í stjórnmálum og semja um lausnir sem gáfu öllum eitthvað, féllu kannski ekki öllum í geð en voru málamiðlun. Við vonumst til að geta ræktað þann hæfileika í fólki og miðlað þekkingu okkar,“ segir Patman, en afi hennar og faðir voru kjörnir fulltrúar. Föðurafi hennar, Wright Patman, var í 47 ár í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

Mikil áform Kínverja

Kínversk stjórnvöld hafa stigið skref til að styrkja stjórnmálasambandið við Ísland. Hversu náið fylgist ríkisstjórn þín með þessari þróun?

„Fyrst vil ég segja að kínverski sendiherrann hér á landi [sem heitir He Rulong] er afskaplega hlýlegur og viðfelldinn maður sem lætur til sín taka og ég tel að hann hafi staðið sig afskaplega vel sem fulltrúi Kína á Íslandi. Ég tel hins vegar að við þurfum öll að hafa hugfast hvaða metnað Kínverjar hafa í heimsmálunum.

Ráðamenn í Kína vilja að Kína verði hið ráðandi heimsveldi. Vilja hafa stærsta her heimsins. Og allur tæknibúnaður sem Kínverjar setja upp felur í sér möguleikann á söfnun gagna. Það eru jafnvel lög í Kína sem mæla fyrir um að stjórnvöld geti beðið Huawei, eða hvaða annað fyrirtæki sem er sem safnar gögnum, að afhenda stjórnvöldum gögnin. Þetta tel ég að við þurfum öll að hafa hugfast þegar Kínverjar vilja fjárfesta á Íslandi.“

Íslendingar afar vinalegir

En aftur að sendiherratíð þinni á Íslandi. Hvernig hafa Íslendingar komið þér fyrir sjónir?

„Þið eruð eins og Texasbúar. Eins og ég sagði í fyrra samtali okkar eruð þið hlýleg, vinaleg og hafið góða kímnigáfu. Takið verkefni ykkar alvarlega, hvort sem það eru viðskipti eða velgjörðarmál, en takið ykkur sjálf ekki of hátíðlega. Mér var farið að líða eins og heima hjá mér fyrstu vikuna á Íslandi enda eruð þið svo vinaleg. Svo að þannig myndi ég lýsa ykkur. Og það er ein ástæðan fyrir því að það hefur verið sérstök ánægja að starfa hér. Ég skal segja þér að hver svo sem Trump forseti velur til að starfa hér verður afar lánsamur og hann eða hún mun elska að vera hér.“

Hefur eflt NATO

Nú er Biden að láta af embætti. Þú hefur mikla þekkingu á bandarískum stjórnmálum. Hvað stendur upp úr á forsetatíð hans?

„Af mörgu er að taka og ég er afar stolt yfir því að hafa starfað fyrir Biden forseta. Meðal þess sem stendur upp úr er að hafa endurreist styrk NATO-bandalagsins og að hafa brugðist við yfirgangi Rússa í Úkraínu. Okkur þykir mikið til þess koma hversu vel Úkraínumenn hafa staðið sig við að verjast árásum Rússa. Við það hafa Úkraínumenn notið stuðnings bandamanna sinna og þá ekki aðeins bandamanna NATO, enda þótt Úkraína sé ekki NATO-ríki, heldur einnig 20 annarra ríkja. Og Biden forseti hefur fengið þessi ríki til að starfa saman og leyniþjónusta Bandaríkjanna deildi snemma upplýsingum með þessum ríkjum til að upplýsa alla um hvað væri í vændum.

Trúðu því ekki

Margir trúðu því ekki, sögðu að Pútín forseti myndi ábyggilega ekki gera þetta [ráðast inn í Úkraínu]. Það myndi enda ekki þjóna hagsmunum Rússlands og svo framvegis. Og við héldum áfram að segja að við vonuðumst til að hafa rangt fyrir okkur en teldum að hann myndi gera það. Og hann gerði það. Úkraínumenn hafa sýnt mikla og eftirtektarverða þrautseigju með stuðningi Bandaríkjanna og bandamanna hjá NATO, sem hafa í sameiningu lagt gríðarlega mikið af mörkum.

Einn sá merkasti

Biden hefur byggt upp þetta bandalag. Hefur jafnframt farið fyrir stærstu fjárfestingunni í endurnýjanlegri orku [sem um getur í Bandaríkjunum] með aðgerðum sínum gegn verðbólgu [e. The Inflation Reduction Act]. Þetta er tvennt af því sem stendur upp úr. Biden hefur líka haft áhyggjur af tækniþróun í Kína og eru fjárfestingar ríkisstjórnar hans í framleiðslu tölvukubba í Bandaríkjunum mikið afrek sem hefur breytt stöðu mála. Þetta er aðeins toppurinn á ísjakanum. Ég tel að Biden hafi áorkað einstaklega miklu og að hans verði minnst sem eins af fremstu forsetunum.“

Á leið í stjórnmál?

En að lokum. Hvað um þig? Ætlarðu í stjórnmál? Þú sem ert svo mælsk og sannfærandi.

„Mikið er fallegt af þér að segja það. Ég mun ekki gera það en mun styðja við góða frambjóðendur á stjórnmálasviðinu. Ég fylgist með félögum mínum í stjórnmálum og dáist að þeim. Mun styðja gott fólk,“ segir Patman, sem hefur hlýja nærveru og kveður gesti með faðmlagi.

Hér fyrir ofan má sjá myndir sem sendiherrann deildi með Morgunblaðinu eftir dvöl sína á Íslandi.

Til upprifjunar er myndin af þeim Patman, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þáverandi umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, og Jennifer Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, tekin í tilefni af því að tvíhliða samstarf Bandaríkjanna og Íslands á sviði orku- og loftslagsmála var kynnt til sögunnar.

Haft var eftir Guðlaugi Þór í Morgunblaðinu 16. febrúar síðastliðinn að verið væri að opna beina línu á milli fyrirtækja beggja landa sem starfa í orku- og loftslagsmálum, en einnig háskólanna og stofnana. „Þetta er samkynja vettvangur og þeir sem ég hef beitt mér fyrir að stofnaðir væru á vettvangi landanna, bæði í öryggis- og varnarmálum og í efnahags- og viðskiptamálum sem ég kom á í minni tíð sem utanríkisráðherra,“ sagði Guðlaugur Þór í samtali við blaðið. Er þetta dæmi um hvernig samstarf ríkjanna hefur orðið nánara í tíð Patman sem sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.

Höf.: Baldur Arnarson