Ragnar Páll Bjarnason fæddist á Blönduósi 3. febrúar 1950. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands Blönduósi 4. janúar 2025.

Foreldrar Ragnars voru Bjarni Jónsson, f. 1906, d. 1990, og Jófríður Kristjánsdóttir, f. 1920, d. 1995, sem bjuggu í Haga í Þingi, A-Hún. Eftirlifandi systkini Ragnars eru Björg, f. 1944, og Lárus Hagalín, f. 1956. Látin eru Jón, f. 1946, d. 1990, Sigríður Kristín, f. 1948, d. 2021, Sigurlaug, f. 1951, d. 2024, og hálfsystirin Lára Ragnhildur, f. 1936, d. 2020.

Eftirlifandi eiginkona Ragnars er Þorbjörg Lóa Pálsdóttir, f. 1968. Börn þeirra eru Kristín Una, f. 1998, og Ragnhildur Ásta, f. 2003. Eldri börn Lóu eru Óskar, f. 1987 og Edda, f. 1990.

Fyrri eiginkona Ragnars var Sonja G. Wium, f. 1953. Börn þeirra eru Sólveig Ruth, f. 1972, Bjarni Guðmundur, f. 1973, Björn, f. 1976, Páley Sonja, f. 1981, Jófríður Eva, f. 1989, og Steinunn Agnes, f. 1996.

Barnabörnin eru orðin 23 og barnabarnabörn eru 4.

Ragnar ólst upp hjá foreldrum sínum í Haga og varð snemma liðtækur við bústörfin. Hann gekk í barnaskóla hreppsins, lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði og varð búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1969. Árið 1971 hóf Ragnar sjálfstæðan búskap í Norðurhaga, sem þá var nýbýli út frá Haga, og bjó þar búi sínu allt til ársins 2023 er hann varð að láta af búskap vegna veikinda sinna.

Meðfram búskapnum rak hann vörubíl lengst af og annaðist m.a. fjárflutninga fyrir bændur víða um land. Um árabil gegndi Ragnar margháttuðum félagsstörfum, sat m.a. sveitarstjórn og margvíslegum nefndum og var um tíma stjórnarformaður Sölufélags Austur-Húnvetninga.

Útförin fer fram frá Blönduóskirkju í dag, 11. janúar 2025, klukkan 11.

Elsku pabbi, það er sárt að vita til þess að þú sért ekki hjá okkur lengur. Þú varst kletturinn í fjölskyldunni. Það sem lýsir þér best er hvað þú varst vinmargur, kærleiksríkur, góður, glettinn, bóndi og hvað þú hugsaðir alltaf vel um börnin þín tíu. Alltaf nægt pláss fyrir alla í sveitinni og alltaf boðinn og búinn til að hjálpa ef eitthvað bjátaði á.

Þú varst svo góður bóndi og stundaðir þinn búskap alltaf með bros á vör og með mikilli ánægju. Þú hugsaðir fallega um dýrin þín, kindurnar þínar þekktu þig á talsmátanum og það var alltaf svo mikil ró yfir fjárhúsunum þegar þú varst þar. Þegar þú byrjaðir að veikjast meira og sást ekki fram á að geta stundað búskap lengur og leyfðir mér að stíga inn í og kaupa jörðina þína, búa þar og sjá um allt, það var skrítinn tími, svo skrítið að hafa þig ekki með í daglegum störfum. En þú stundaðir alltaf búskap alveg til hins síðasta þrátt fyrir að vera á sjúkrahúsinu. Ég kíkti til þín nánast daglega, annars hringdumst við á, og þú komst alltaf með einhvern fróðleik til að segja mér um búið og spurðir alltaf þegar ég mætti: „Hvað segja kindurnar gott?“ Þú varst alltaf með hugann við búið og vildir fylgjast með öllu sem ég gerði og gerðir það með aðdáun. Þú varst líka svo vinmargur og ótrúlega margir bændur sem leituðu til þín með ráðleggingar og fleira varðandi búskap. Það var enginn vondur eða óvinur í þínum orðaforða, allir voru vinir og maður leysti vandamálin ef einhver voru.

Það poppa upp skemmtilegar minningar þegar ég skrifa þetta, minningar á borð við þegar við vorum suður frá á nýja snjósleðanum okkar og við vorum á flatlendi og sleðinn datt laust á hliðina, við lágum þarna í snjónum og hlógum okkur máttlaus áður en við náðum að standa upp og velta sleðanum til baka. Þarna var ég svona tíu ára og við minntumst alltaf á þetta þegar það kom snjór með bros á vör og smá hlátri. Allar ferðirnar saman við fjárflutningana, öll skiptin sem þú leyfðir mér að keyra traktor þegar ég var að byrja og ég keyrði endalaust vitlaust eða í skurðinn, þú leyfðir mér samt alltaf aftur.

Þú kenndir mér að umgangast kindurnar og fóðra þær, kenndir mér að sjá þegar þeim líður vel og sjá hvort heyið sé nógu gott, þú hélst áfram að kenna mér þó þú værir inniliggjandi, veikur á sjúkrahúsi, en gerðir það með aðdáun og útskýrðir hlutina svo ótrúlega vel. Ég lofa þér því að hugsa vel um jörðina þína og kindurnar þínar. Ég veit reyndar ekki hvert ég á að leita með allar spurningarnar og ráðleggingarnar núna en ég veit að þú vakir yfir mér og öllum í fjölskyldunni og átt eftir að fylgjast með okkur alltaf.

Seinustu ár hafa verið mjög erfið vegna veikinda, bæði fyrir þig og okkur sem höfum staðið þér næst. Ég veit að það birti til í sumarlandinu þegar þú komst þangað, búinn að kveikja þér í einum London Docks og farinn að smala kindunum þínum. Í dag, 11. janúar, komum við saman til að kveðja þig í hinsta sinn og þökkum fyrir allt það góða sem þú hefur gefið okkur.

Takk pabbi fyrir allt. Þangað til næst, þín dóttir,

Ragnhildur Ásta.

Þá ertu farinn að smala á ný elsku pabbi minn, með London Docks í munnvikinu, berhentur og bara í lopapeysu þó það sé brunagaddur úti, svona varstu alltaf á mínum yngri árum. Enda var bara aumingjaskapur að vera með vettlinga, sagði ég við skólafélaga mína og var helst alltaf berhent eins og þú. Snjóaveturinn mikla 1992 gengum við hönd í hönd sitt með hvort prikið um landareignina í Norðurhaga og vorum að pikka ofan í skurði til að leita að kindum, grafa þær upp og koma í skjól. Ég lét mitt ekkert eftir liggja því þetta var verðmætabjörgun og vinir okkar sem þurfti að koma til aðstoðar. Gott fannst okkur að koma inn öðru hverju og þá var mamma búin að smyrja á bakka handa okkur og hita kaffi og kakó svo við næðum einhverri hlýju í okkur áður en við héldum aftur út.

Það voru ófáar ferðirnar sem ég fór með þér í vörubílnum, hvort sem það var að fara til Reykjavíkur að sækja áburð, stórgripir sóttir á ýmsa bæi eða kindur til að fara með í sláturhús. Þá var alltaf kóngabrjóstsykur í gulu Scaniunni og oft stoppuðum við í sjoppunni hvort sem það var á Blönduósi eða í Hvalfjarðarskálanum og þá var fengin sér pylsa, kók í gleri og prince polo. Þú varst með endalausa þolinmæði við að svara öllum mínum spurningum því margar voru pælingarnar.

Ritvinnsla var ekki mitt uppáhaldsfag þó hún væri ekki leiðinleg, en stundum þegar það voru heimaverkefni og ég búin að hjálpa þér mikið úti og var orðin þreytt þá biðu mín morguninn eftir verkefnin mín fullunnin á ritvélinni og gat ég skilað þeim með góðri samvisku því þetta voru launin þín til mín fyrir aðstoð heima fyrir. Síðar meir þegar ég var aðeins farin að fikta í tölvunni kenndirðu mér að copy/paste þegar um endurtekningarverkefni var að ræða en það mátti ég bara gera ef það var mikið að gera heima fyrir.

Takk pabbi minn fyrir að kenna börnunum mínum til verka í sveitinni, þó þau væru nú ekki alltaf sammála þér en þá leiddir þú þeim það fyrir sjónir af hverju þyrfti að vinna þetta verk og hvers vegna væri þörf á því að það væri vandað til verka.

Það eru margar minningarnar og vísdómsorðin sem ég hef frá þér og þó að söknuðurinn sé alltaf mikill þá eru minningarnar, og vitandi það að þú sért laus frá öllum þínum þrautum, huggun og styrkur fyrir okkur sem þig lifum.

Þín dóttir,

Páley Sonja.

Við fráfall Ragnars bróður hvarflar hugurinn ósjálfrátt til æskuáranna í Haga þar sem við ólumst upp við leik og störf í stórum systkinahópi. Þrátt fyrir sex ára aldursmun vorum við heilmiklir félagar þótt því færi auðvitað fjarri að við værum jafningjar. Hann var afskaplega þolinmóður við litla bróður, kenndi mér mörg verkin og varð fyrirmynd í ýmsu. Til dæmis leyfði hann mér ansi snemma að prófa að stjórna dráttarvél enda vorum við sammála um að það væri síst meira krefjandi en að sitja hest svo fremi að maður næði niður á kúplinguna.

Þegar á unglingsárum sýndi sig að Ragnar var afar fjárglöggur og næmur á líðan skepna, einnig var hann laghentur við hvers kyns smíðar, kjarkmikill og dugnaðarforkur við bústörfin. Eftir á skil ég varla hvernig honum tókst, veturinn sem hann varð gagnfræðingur, að smíða hraðbát sem átti eftir að virka afbragðs vel í lystiferðum næstu sumur ef Hópið var slétt. Þessi óvenjulegi smíðisgripur þrengdi víst verulega að öðrum í smíðastofu Reykjaskóla og heimflutningurinn krafðist vörubíls.

Einhvern veginn lá snemma í loftinu að Ragnar myndi hasla sér völl sem bóndi þegar fram liðu stundir. Þar með fetaði hann í spor föður okkar og afa og bjó góðu búi í Norðurhaga í ríflega hálfa öld allt þar til yngsta dóttirin tók við. Oft dáðist ég að útsjónarsemi og óbilandi vinnuþreki bóndans þegar hann var upp á sitt besta og það var eins og frí væri bara fyrir annað fólk en líklega galt hann þess í þverrandi heilsu á efri árum að hafa gengið svo nærri sér sem raun bar vitni. Þótt starfsvettvangur okkar væri ólíkur og ég gerðist borgarbúi var alla tíð kært með okkur og við nutum þess að hittast og bera saman bækur okkar þegar færi gafst. Með heimsókn til Ragnars varð ég á ný sveitamaður um stund og stöku sinnum til smávegis gagns fyrir hann, einkum síðari árin, svo sem í réttum og við heyskap. Þá kenndi hann mér líka að dráttarvélar nútímans og tilheyrandi tæki krefjast dálítið meira en þess að ökumaðurinn nái niður á kúplinguna.

Fyrir nokkrum árum, meðan Ragnar var enn heill heilsu, töluðum við um að tvennt skyldum við gera saman áður en við yrðum of gamlir; að ganga á Jörundarfellið og gera upp gamla gráa Fergusoninn sem kom í Haga 1955. Því miður varð af hvorugu og öllum fjallgöngum míns góða bróður lokið.

Lárus H.
Bjarnason.

Látinn er langt um aldur fram góður vinur og nágranni, Ragnar í Norðurhaga. Leið okkar hefur legið saman frá unga aldri. Mikill vinskapur var milli heimilanna í Haga og á Sveinsstöðum. Börnin mörg á báðum bæjum og á svipuðum aldri. Oft kátt við eldhúsborðið heima þegar Hagafjölskyldan var í heimsókn. Gullkorn flugu og gamlar sögur voru rifjaðar upp. Það var alltaf glaðværð kringum Hagafólk.

Ungur hafði Ragnar mikinn áhuga á búskap og fór í Bændaskólann á Hvanneyri að loknu námi á Reykjaskóla. Trúlega hefur hann þá þegar verið farinn að hugsa að byggja sér nýbýli á heimahögunum. Fljótlega hafði hann bæði byggt myndarleg fjárhús og nýtt íbúðarhús. Nýbýlið fékk nafnið Norðurhagi. Búið stækkaði og barnahópurinn óx. Samfellt átti hann börn í Húnavallaskóla í 40 ár. Efast um að aðrir hafi gert betur.

Ég vil gjarnan lítið ljóð

láta af hendi rakna.

Eftir kynni afargóð

ég alltaf mun þín sakna.

(Guðrún V. Gísladóttir)

Ragnar var hagsýnn bóndi og hafði góðar afurðir af fé sínu. Hann eignaðist snemma vörubíl og stundaði fjárkeyrslu fyrir sláturhúsið á Blönduósi um árabil. Hann tók líka þátt í félagsmálum sveitarinnar og sat í hreppsnefnd um skeið. Þá var hann formaður Sölufélags A-Húnvetninga, átti sæti í stjórn Búnaðarsambandsins og var formaður jarðanefndar. Víðar kom hann að félagsmálum þó að það verði ekki rakið hér.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Það var gott að eiga Ragnar að sem vin og nágranna. Hann var glöggur á fjármál og leitaði lausna á hverjum vanda sem upp kom. Oft ræddum við um þjóðmál sem uppi voru og oftar en ekki vorum við sammála um hvert ætti að stefna og hvað væri best fyrir nærsamfélagið, land og þjóð. Ráðamenn á hverjum tíma fóru ekki endilega þær leiðir sem við töldum skynsamastar, en það er önnur saga.

Með Ragnari er genginn góður maður sem skilur eftir sig margar og góðar minningar. Mínar innilegustu samúðarkveðjur sendi ég hans fjölmörgu börnum og öðrum eftirlifandi ástvinum.

Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum.

Hann lærði ungur verk að vanda

og vera engum til meins.

Þá væri þjóðin ekki í vanda

ef þúsundir gerðu eins.

Þetta vísukorn mun vera úr smiðju Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Þessar línur ljóðs passa vel við minningu Ragnars í Norðurhaga á útfarardegi.

Það er margs að minnast hjá okkur bændunum sem einu sinni vorum ungir menn. Á mínum fyrstu búskaparárum leitaði ég oft til þeirra Hagabræðra um reddingar vegna tækjanna minna, sem voru ekki upp á marga fiska þá. Sú greiðasemi þeirra var mér mikilvæg og yljar enn í dag.

Vorið 1982 þurfti Ragnar í mjög erfiðan höfuðskurð sem gekk vel en tók langan tíma að ná góðri heilsu á ný.

Haustið 1983 gerðum við nokkrir félagar samning við Sláturhúsið á Blönduósi um flutning á öllu sláturfé úr héraðinu og víðar að. Sem SAH tæki til afsetningar. Þessir félagar voru: Jónas á Helgavatni, Kristján á Húnsstöðum, Valdi á Hrafnabjörgum, Heiðar á Hæli, Magnús í Miðhúsum og Ragnar í Norðurhaga fór fyrir hópnum. Þarna var Ragnar í essinu sínu, talnaglöggur og með mikla skipulagshæfileika, gætinn og góður bílstjóri. Norðurhagi var byggður úr Hagalandi um 1970, hófu þau ungu hjónin Ragnar og Sonja G. Wium frá Leifsstöðum í Svartárdal hefðbundinn búskap með sauðfé og nautgripi. Búskapur þeirra gekk vel. Gott bú og afurðasamt. Þau greiddu alla jafna útsvar sem um munaði, sem var reyndar fátítt á þessum tíma.

Byggðu stórt og glæsilegt íbúðarhús á jörðinni, sem veitti ekki af með stækkandi fjölskyldu. Þau eignuðust saman sex börn, sem öll eru fullorðið fólk sem skilar sínu og vel það.

Örlögin höguðu sér þannig að þau skildu og fór hvort sína leið. Hún gerðist húsfreyja á Neðri-Mýrum í Engihlíðarhreppi en hann hélt áfram búskap í Norðurhaga á óðali feðranna.

Ekki komst Ragnar, þessi glöggi maður á menn og málefni, hjá starfi að félagsmálum í héraðinu. Hann var um tíma formaður stjórnar Búnaðarsambands Austur-Húnavatnssýslu, Jarðanefnda A-Hún. og stjórnar Sölufélags A-Hún. sem var mikið starf og ekki alltaf þakklátt.

Þegar hilla tók að aldamótunum síðustu, við sólarupprás nýs tíma eftir lakari stundir, kom að Norðurhaga Þorbjörg Lóa Pálsdóttir, ung og dugandi kona með tvö börn sín, Óskar og Eddu. Þetta var Ragnari mikil gæfa að fá Lóu sína sem húsmóður á heimilið, fork í búskapinn ef svo bar undir, með sinn hlýja faðm fyrir þessa stóru fjölskyldu. Þau eignuðust saman tvær dætur, Kristínu Unu og Ragnhildi Ástu, sem var yngsti bóndi landsins búandi í Norðurhaga árið 2023. Lóa og Ragnar keyptu sér hús á Blönduósi.

Ragnar varð árið 2023 að fara á Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi til dvalar og átti þaðan varla afturkvæmt nema kannski dagpart og fastur í hjólastól vegna Parkinsons-sjúkdóms sem lagði hann að velli nú á nýbyrjuðu ári.

Við vonum, biðjum og væntum þess að fjölskylda Ragnars í Norðurhaga lifi heil á komandi tímum. Almættið gefi Sonju Wium styrk og góðar stundir.

Með innilegri samúðarkveðju,

Halla og Magnús Miðhúsum.

hinsta kveðja

Við kveðjum Ragnar Pál bónda í Haga hinsta sinni. Að baki er áralangt samstarf og traust vinátta, sem vert er að þakka og aldrei bar skugga á.

Megi Guð blessa minningu Ragnars og fjölskyldu hans um ókomna tíð.

Jóhannes og fjölskylda, Torfalæk.