Námskona Alexandra með samnemendum sínum í diplómanámi hjá hinni mögnuðu majakonu Sofie í hefðbundnum mexíkóskum lækningum.
Námskona Alexandra með samnemendum sínum í diplómanámi hjá hinni mögnuðu majakonu Sofie í hefðbundnum mexíkóskum lækningum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta á allt upphaf sitt í því að ég kynntist gömlum mexíkóskum manni í Kólumbíu fyrir um áratug. Þá hafði ég verið að ferðast um víða veröld í nokkur ár og var orðin blönk, svo ég var að vinna á hosteli í Kólumbíu, og þar fékk ég tannpínu

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þetta á allt upphaf sitt í því að ég kynntist gömlum mexíkóskum manni í Kólumbíu fyrir um áratug. Þá hafði ég verið að ferðast um víða veröld í nokkur ár og var orðin blönk, svo ég var að vinna á hosteli í Kólumbíu, og þar fékk ég tannpínu. Þá kynntist ég þessum gamla skrýtna manni, sem heitir Julio Lopez en er kallaður El Vampiro, en hann gaf mér Aztek-úða sem hjálpaði mér að losna við sýkinguna og deyfði verkinn,“ segir Alexandra Dögg Sigurðardóttir sem framleiðir húð- og heilsuvörur undir nafninu La Brújería, en þær býr hún til úr mexíkóskum og íslenskum jurtum.

„Ég varð alveg heilluð af mögnuðum áhrifum úðans og við Julio fórum að spjalla. Þá kom í ljós að hann vantaði aðstoðarmanneskju hjá sér í Mexíkó við að búa til þennan úða og ýmislegt fleira úr jurtum. Mig vantaði vinnu, svo ég var komin tveimur vikum seinna til að vinna hjá honum. Ég hafði farið nokkrum sinnum til Mexíkó, sem var aldrei planið, en alltaf dró mig eitthvað þangað aftur, kannski örlögin. Ég var orðin 26 ára og hafði verið leitandi og var farin að spyrja sjálfa mig hvað ég ætlaði að gera í lífinu, ekki gat ég verið á flakki um heiminn endalaust. Þá kom lífið með þetta upp í hendurnar á mér, en ég hafði fram að því ekki hugmynd um að ég hefði áhuga á jurtum, ekki fyrr en ég var mætt í skógarþorpið í Mexíkó. Rót jurtarinnar sem er í þessum úða, Aztek-rótin, hún vex í þrjú þúsund metra hæð hjá ákveðnum samfélögum þarna,“ segir Alexandra, sem flutti inn á Julio og fór í æfingabúðir hjá honum.

Hann er lifandi alfræðibók

„Vinnan mín fólst í því að fara með honum í afskekkt þorp þar sem við vorum að kenna konum ýmislegt um næringarfræði og að nýta nærumhverfið til að búa til jurtalyf fyrir sig sjálfar. Ég var aðstoðarkona Julio en á sama tíma var ég nemi, ég lærði að búa til þessi lyf, gera smyrsl og fleira. Hjá mér vaknaði gríðarlegur áhugi á lækningamætti jurtanna og frítímann nýtti ég til að spyrja Julio um allt sem ég vildi vita, hann er lifandi alfræðibók. Í framhaldinu fór ég að malla eitthvað sjálf og ég bjó þarna í nokkra mánuði, en ég hef komið þangað nokkrum sinnum aftur. Mér fannst áhrifaríkt að sjá árangurinn á samfélögunum sem við Julio vorum að vinna með, eftir nokkra mánuði sá ég að fólkið var byrjað að grennast, en það er mikið offituvandamál í Mexíkó, og þau voru minna veik og bjartara yfir þeim. Konurnar gátu líka aflað sér tekna því við kenndum þeim að búa til vörur til að selja. Það var gefandi fyrir mig að fá að taka þátt í þessu fallega starfi sem Julio sinnir þarna. Ég kaupi enn jurtir hjá þessum samfélögum og vinn svo mínar vörur sjálf frá grunni og bæti íslenskum jurtum við. Ég fer stundum til Mexíkó til að tína jurtir sjálf og svo tíni ég íslensku jurtirnar hér heima. Ég rækta líka jurtir til að nota í vörurnar mínar, bæði hér heima og úti í Mexíkó, en það sem ég þarf að kaupa reyni ég að kaupa beint frá bónda.“

Aztek-úði gegn munnþurrki

Alexandra segist hafa byrjaði á að selja vörurnar sínar þó nokkru áður en hún stofnaði formlega fyrirtækið La Brújería.

„Fyrst var þetta hliðarstarf og mest af áhuga og þá fór ég stundum með vörur á markaði, en það gekk svo vel að ég fór að bæta vörurnar, leggja áherslu á betri umbúðir, fékk mér kennitölu og sótti um styrki. Fyrirtækið hefur vaxið smám saman og alltaf bætist í vörulínuna hjá mér, oft það sem ég hef sjálf áhuga á og vantar, eða einhvern í kringum mig,“ segir Alexandra og bætir við að Aztek-úðinn sem hún forðum notaði gegn tannpínu í Kólumbíu, hafi vakið mikla athygli hjá þeim viðskiptavinum hennar sem prufa hann.

„Ég bý úðann til eftir uppskrift sem Julio kenndi mér en hann fæst líka með íslenskum fjallagrösum. Aztek-rótin er talin sveppa-, bakteríu- og víruseyðandi, verkjastillandi og bólgueyðandi. Hægt er að nota úðann gegn hósta, hálsbólgu, munnangri, tannverk, ýmsum sýkingum og bólgum í munni og tannholdi, sveppasýkingu og flökkuvörtum í húð og kynfærum. Úðinn byrjar strax að virka en hann eykur líka munnvatnsframleiðslu, enda hefur fólk sem er með munnþurrk tekið úðanum fagnandi, til dæmis þeir sem eru í lyfjameðferð sem veldur munnþurrk. Einhverjir geðlæknar hafa líka mælt með Aztek-úðanum mínum fyrir sína sjúklinga, því sum geðlyf valda munnþurrki.“

Magnaðir rauðþörungar

Alexandra hefur lokið diplomanámi í mexíkóskum hefðbundnum lækningum og tekið námskeið í jurtalækningum.

„Ég bý líka til græðandi smyrsl og ætla mér að gera jurta-tinktúrur, en ég hef í seinni tíð bætt við mig þekkingu. Ég bý líka til snyrtivörur, til dæmis andlitsolíuna Asta-glow, úr þörungum og jurtum, en ég fór að búa til þessa olíu af því að ég var alltaf að fá bólur í andlitið. Þessi olía virkar mjög vel á bólótta húð og hún er líka með smá lit úr rauðþörungunum, svo maður verður ferskari og frískari. Rauðþörungarnir Astaxanthin eru ræktaðir á Íslandi og margir nota þá líka til inntöku, en vinsældir þessara þörunga hafa farið vaxandi, þeir vinna meðal annars gegn sólarskemmdum í húð og efla ónæmiskerfið,“ segir Alexandra sem býr líka til rósa-andlitsskrúbb, varasalva, baðsalt, kynörvandi jurtadropa og líkamsolíu sem inniheldur jurtir sem auka blóðflæði og vinna til dæmis gegn myndun æðahnúta.

„Ég er líka með fyrirtæki mínu að kynna mexíkóska menningu og styðja samfélög úti með því að kaupa jurtir beint frá þeim sem og annan varning, handgerð hljóðfæri, hálsmen, reykelsi og fleira. Ég sel þann varning þegar ég fer með vörur á markaði og mér finnst það skipta máli, þó ekki sé það í miklu magni, því þó ég geti ekki bjargað öllum heiminum þá get ég samt hjálpað einhverjum, eins og til dæmis fjölskyldunni sem smíðar hljóðfærin. Allt skiptir máli. Og nú er ég þakklát fyrir að hafa fengið tannpínu í Kólumbíu fyrir áratug, þannig er það oft í lífinu, einhver gjöf fylgir með þegar við mætum einhverju erfiðu.“

Verslunin La Brújería er einvörðungu á netinu en vörur Alexöndru fást líka í eftirfarandi verslunum: Á höfuðborgarsvæðinu: Eko-húsið, Mamma veit best, Mistur, Móar stúdíó og Holy Cow. Hús handanna á Egilsstöðum. Nánar á labrujeria.is.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir