Það er þess virði að setja sig inn í málefni Bandaríkjanna, eftir getu, en þó alveg sérstaklega þegar þeir eru í kosningaham, sem stendur stundum í nokkur ár í senn, og þótt dálítið sé ýkt er það þó ekki fjarri lagi. Ísland er um fátt líkt Bandaríkjunum, en á það þó að mestu sameiginlegt með risaveldinu, að bæði ríkin mega teljast vera lýðræðisríki, og er raunar fremur fámennur hópur. Þau falla flest inn í ríkjahóp í Evrópu og Norður-Ameríku, og jafnvel á þeim slóðum vantar stundum upp á það, að öll ríki innan þessara marka standist þær kröfur svo vel, að hvergi séu falleinkunnir í bland við það sem sæmilegast er.
Helstu valdamenn á fyrrnefndum slóðum eru misjafnlega styrkir í sessi. Forsætisráðherrar í „grónum og þroskuðum“ lýðræðisríkjum, til að mynda í Evrópu, hafa töluvert pólitískt vald tengt nafni sínu og stöðu og haldi þeir jákvæðu mati hinna almennu kjósenda, þá sýna dæmin að þeir geta setið lengi við völd og ná vanalega að setja mark sitt á landið, sem þeir stýra. Stöku sinnum ná slíkir menn, því til viðbótar, að ráða mestu um það hver eftirmaður þeirra verður, en það er nú orðið sjaldgæfara en áður og meint þreyta almennings og „háttvirtra kjósenda“ ýtir undir, að rétt sé að reyna næst annars konar fyrirmenni í næstu umferð.
Þó eru mörg dæmi til um það, að pólitískur leiðtogi sitji glettilega lengi í sinni valdamiklu stöðu og það í lýðræðisríki. Á Norðurlöndum sat Svíinn Tage Erlander lengst allra samfellt sem forsætisráðherra eða í 23 ár, en allstóran hluta af því skeiði fór Erlander fyrir minnihlutastjórnum, í samstarfi við aðra flokka. „Krónprinsinn“ hans var Olof Palme, sem átti tvö valdaskeið sem stóðu samanlagt í ein átta ár, en þá féll hann fyrir byssukúlu, er hann rölti um miðbæ Stokkhólms ásamt konu sinni, án nokkurrar öryggisgæslu, en þeirri skipan hefur síðan verið breytt. Banamaður Olofs Palmes hefur aldrei fundist, svo að öruggt teldist, þótt nokkrar ábendingar og getgátur hafi iðulega verið uppi, og sumar jafnvel verið raktar til lögreglu, en þær hafa aldrei sannast, svo óyggjandi teldist. Má nærri geta, að allmargar kenningar hafa verið á lofti og jafnvel ákærur og/eða myndir verið birtar af mönnum sem líklegastir þóttu til þessa illvirkis. Eins og nærri má geta, þá áttu þeir sem lentu í þeirri kjaftatörn miðri, og um fullyrðingar margra um „sannfæringu“ sína um allt, ekki endlega auðvelda daga, og einhverjir úr þeim hópi bera sig enn illa eftir þá meðferð, sem þeir mættu, og hvernig best væri að halda sér burt frá fjöldanum, eða svokölluðu almannafæri. En á móti kæmi, að slíkur flótti sannfærði spekinga um, að þannig myndi enginn saklaus maður haga sér.
Kúlur fljúga
Bandaríkin hafa misst forseta sína, eða forsetaefni, en ekki þó alla sem mættu morðtilraunum, svo Ronald Reagan og Donald Trump séu nefndir, en fjórir aðrir lifðu ekki atlöguna af. Kaldhæðnir menn segja gjarnan, að það geri forseta eða forsetaefni bara gott, sæti þeir morðtilraun sem misheppnast! Og svo eru nefnd dæmi um varaforseta, sem aldrei hefðu orðið forsetar án atbeina morðtilraunar. Það má segja um Lyndon Johnson, varaforseta Kennedys, sem tæpu ári síðar vann sínar kosningar með miklum yfirburðum. En sú gæfa hélt ekki til næsta kjörtímabils þar á eftir. Þá var Víetnamstríðið, sem John F. Kennedy startaði, orðin slík byrði eftirmanninum Johnson, að hann treysti sér ekki í framboð, þrátt fyrir að hafa verið algjörlega ósigrandi fjórum árum fyrr.
Svo voru það „morðtilraunirnar“ við Donald Trump. Það munaði aðeins millimetrum að Trump félli fyrir kúlu morðingja, en hann hafði hreyft höfuð sitt lítillega, og óafvitandi á réttu augnabliki. Trump særðist dálítið og gerði ekki minna úr en þurfti, en á því græddi hann kosningalega séð. Ekki löngu síðar hafði maður legið í leyni með skotfæri sín, inni í runnum við golfvöll Trumps, en öryggigæsla hans var orðin eitthvað betri eftir fyrri atlögu og náðist sá maður án þess að hann næði ætlunum sínum. Engu að síður töldu fjölmiðlafræðingar að Trump hefði einnig „grætt“ pólitískt á seinni „tilrauninni“. Varla myndi þó nokkur maður fórna sér fyrir byssukúlu, í þeirri von að hann myndi sleppa mjög naumlega í árásinni, en gæti náð að bæta þáverandi stöðu í baráttunni.
Jimmy Carter jarðaður
Síðustu daga fyrir helgi hefur Jimmy Carter átt sviðið, sem er þó ekki endilega viðeigandi lýsing. Það má þó segja, að Bandaríkjamenn kunna að jarðsetja sína fyrrverandi forseta, og nú var svo sannarlega komið að Jimmy Carter, því að hann varð fyrir nokkru 100 ára gamall, en kona hans, forsetafrúin Rosalynn Carter, lést nokkrum árum fyrr, þá 96 ára gömul. Hvíta húsið hafði sagt frá því, að ákveðið hefði verið, með góðum fyrirvara, að eiga náið samráð við Carter-hjónin um það, hvernig standa skyldi að opinberri útför hans og eftir atvikum þeirra hjóna. Og það var ekkert til sparað og allt gert af miklum myndarskap. Flogið var með kistu Carters fram og til baka í forsetaþotunni frægu, sem jafnan er kölluð Air Force One. En í þessum snúningum var flugvélin merkt sem Air Force 39, til heiðurs Carter, 39. forseta Bandaríkjanna. Vélin flaug með kistuna á ný þar sem hin kirkjulega jarðarför fór fram í dómkirkjunni í Washington, en sú kirkja stendur fallega á dálítilli hæð. Eftir jarðarförina var flogið með kistuna til Atlanta í Georgíu og þar farið víða um, m.a. var viðkoma í húsi og safni, sem eru tileinkuð honum, eins og mjög er almennt varðandi fyrrverandi forseta.
Helstu sjónvarpsstöðvar Bandaríkjanna gerðu mikið og vel úr þessum atburðum og var víða rætt um feril forsetans, þau fjögur ár sem hann gegndi því embætti, en Ronald Reagan sigraði hann sem forseta og gegndi embættinu í átta ár og Georg H.W. Bush næstu fjögur árin, en þá náði Bill Clinton að sigra hann og þar réð mestu að repúblikaninn og auðmaðurinn Ross Perot bauð sig fram og náði ótrúlega miklu fylgi frá forsetanum.
Lengi vou sagðar hetjusögur og vinsamlegar frásagnir af hinum fallna forseta, svo sem eðlilegt er, ekki síst hversu hógvær hann var, mikill trúmaður og hafði, ásamt konu sinni, tekið þátt í því, að byggja í sjálfboðavinnu ýmsar byggingar, sem nýttust almenningi til kennslu og trúariðkana. En þegar lengra leið í minningardögunum, þá var blandað betur við það, sem var ekki endilega forsetanum fyrrverandi til framdráttar, enda flest allvel þekkt. Það sem margir töldu honum réttilega til tekna voru tilraunir hans, sem heppnuðust, til að styrkja samband Egyptalands og Ísraels, en segja má að afrakstur þeirrar vinnu í „Camp David“ sé enn til staðar og geri enn verulegt gagn. En á móti þessu komu annmarkar á persónu forsetans. Hann var iðulega hrekklaus og næstum því sem einfeldningur að eiga við pólitíska fauta og jafnvel illmenni, þegar þýðingarmest var að hann sýndi raunsæi, ræddi við menn, sem þekktu vel til og með ríka reynslu og létu ekki barnaskap og óskhyggju ráða ferð. Þetta var það sem eyðilagði feril hans að mestu og réð því, að Ronald Reagan sigraði hann auðveldlega.
Hrekklaus einfeldningur
Carter beit í sig, að Khomeini erkiklerkur væri traustvekjandi maður sem forðast ætti að tortryggja. Hann lagðist gegn Íranskeisara og synjaði honum um varanlega landvist í Bandaríkjunum, til að spilla ekki fyrir hinu mikilvæga sambandi við Khomeiní, þótt ekki væri lagst gegn því að keisarinn leitaði sér lækninga í Bandaríkjunum. Íslenskur læknir í Bandaríkjunum varð við beiðni um að leggja til atlögu við mein keisarans, en það var þá of langt gengið. Khomeini erkiklerkur leyfði að „lýðurinn“ réðist inn í bandaríska sendiráðið i Teheran og niðurlægði það og Bandaríkin með því að nærri 60 starfsmenn voru teknir í gíslingu. Eftir nokkra mæðu og gagnrýni heima fyrir, þá samþykkti Carter loks að herleiðangur yrði sendur til að frelsa sendiráðsstarfsmennina úr klóm Khomeinis erkiklerks. Sú aðgerð mistókst algjörlega og varð síst af öllu til þess að bandarískur almenningur fengi traust á Carter.
Repúblikanar buðu Ronald Reagan fram gegn Jimmy Carter og varð það auðveldur leikur fyrir Reagan. Daginn, sem Ronald Reagan vann sinn innsetningareið, þá létu Íranar fangana í sendiráðinu lausa og töldu erkiklerksmenn vonlítið, fyrst Carter væri flúinn úr brúnni, að taka þá áhættu að Ronald Reagan léti til skarar skríða af fullri alvöru. Það var líklega rétt mat.
Það var fróðlegt að hlusta á einn af ævisöguskrifendum Carters fara betur yfir hina raunverulegu sögu varðandi Jimmy Carter, og bíða með frekari helgisögur. Sá viðurkenndi auðvitað kosti og getu Carters í mörgum efnum. En hann sagði einnig, að Carter hefði verið mjög metnaðarfullur og forðaðist, að hugsjónaefni skemmdu með nokkrum hætti fyrir hugsanlegum frama hans, enda, eins og fyrr sagði, var hann ekki í neinum vafa um færni sína, gáfur og pólitíska getu, enda hafði hann mjög rækilega undirbúið þann þátt. Hann ætlaði sér að komast áfram og á meðan Georgía var land „hvíta mannsins“ myndi hann halda sig þeim megin, uns þau atriði hefðu breyst, hvenær sem það yrði, þótt hann ætlaði ekki að breyta þeim, og trufla þannig stöðuna í Georgíu í þeim efnum. Fræðimaðurinn sagði einnig, að móðir hans hefði verið allt öðruvísi stemmd, og merki þess voru þau, að hún byði stundum einstaka blökkufólki að koma inn í sitt hús!
Útförin
Hin formlega útför fór fram, eins og áður sagði, í dómkirkjunni í Washington með mikilli reisn. Fjöldi margra náinna ættingja Jimmys Carters var þar í ýmsum heiðurssætum. Í fremstu sætum sátu Joe Biden og Kamala Harris og flutti Biden minningarorð. Í næstu röð þar fyrir aftan sátu Donald Trump, sem er í senn fyrrverandi forseti og tilvonandi forseti. Forsetafrúin tilvonandi sat við hlið hans. Næstur var Barack Hussein Obama, sem var forseti í átta ár, eða allt þar til Trump hafði unnið Hillary Clinton. Hann tapaði fjórum árum síðar fyrir Biden. Það vakti athygli, að á meðan beðið var þess að athöfnin hæfist töluðu þeir Obama og Trump heilmikið saman og sýndu gamansama takta. Frú Obama var ekki mætt og engin skýring gefin á því. Því næst komu George Bush yngri og kona hans og þá Hillary og Bill Clinton og vakti athygli hversu þungbúin frú Hillary virtist vera. Þá vakti athygli, að sonur Fords, fyrrverandi forseta repúblikana, talaði næstur og þulir sögðu það hafa komið á daginn, að Ford forseti og Jimmy Carter urðu miklir mátar, og hittust reglubundið.