Bjarnþór Haraldur Sverrisson (Baddó) fæddist 3. september 1957. Hann lést 17. desember 2024.

Útför hans fór fram 10. janúar 2025.

Ég hef alltaf vitað af Baddó frá því að ég var krakki á Ísafirði og þefaði uppi sögur um persónur bæjarins. Við kynntumst fyrst á afmælisdaginn minn fyrir nokkrum árum. Á Húsinu, Rúnar Þór að spila og Baddó lét það ekki framhjá sér fara. Við gerðum þar samning á matarpöntunarblað um að ég myndi skrifa ævisöguna hans. Ég byrjaði þá að fanga kallinn á filmu. Elti hann með myndavél og tók við hann viðtöl. Milli okkar þróaðist óvæntur og skemmtilegur vinskapur. Hann talaði, ég hlustaði. Allt eins og það átti að vera. Hann hafði eitthvað til að lifa fyrir, sagði hann í gríni.

Að vera vinur Baddó þýddi auðvitað skilaboð á öllum tímum sólarhrings. Bara að taka stöðuna. Það var alltaf eitthvað að frétta af honum, hvort sem hann var að daðra við dauðann eða mundi eftir einhverju sem þurfti nauðsynlega að koma fram í ævisögunni. Orkuboltinn og eilífðarunglingurinn. Barnið í gamla hulstrinu. Einhvers konar kennileiti Ísafjarðar, hluti af náttúrunni. Naustahvilft, Pollurinn, Gamla bakaríið, Hamraborg og Baddó. Maðurinn með marða hjartað. Með því að fanga hann á filmu vildi ég sýna fólki Baddó eins og ég upplifði hann. Ör, hávær, talaði „non stop“ og var alveg ófær um að hlusta. Hann var eini maðurinn sem ég þekkti sem greip fram í fyrir sjálfum sér. Hann var samt ljúfur sem lamb, mikil manneskja og vinur vina sinna. Hann var góð sál hann Baddó.

Einni spurning frá mér var svarað í 18 sögum. Allar sagðar með leikrænum tilburðum og ólíkum röddum. Röddum sem áttu það sameiginlegt að vera rámar og titrandi. Krónískur skjálftinn eftir lífsstritið. Valdi vínið fram yfir boltann. Þrátt fyrir allt sem hann hefur lifað er sagan hans ekki í hrukkum sem ættu að dreifa sér þvers og kruss yfir andlitið. Það voru nánast engar hrukkur. Þær voru á hjartanu. Marða hjartanu. Sem átti það til að stoppa af og til.

Gott fannst honum að maður léti vita af komu sinni með fyrirvara svo að hann gæti smurt. Þegar ég mætti stóð hann í eldhúsinu með heklaða piparkökuhúshúfu og svuntu og töfraði fram svakalegustu snittur sem ég hafði séð, rækjunum og salatinu fagmannlega stillt upp.

Ég fattaði eftir eitt samtalið okkar að það þýddi ekkert fyrir mig að spyrja hann út í lífið, mottó, markmið og pælingar. Hann var fastur í að segja frá afrekum og slysasögum. Eftir því sem ég hlustaði meira og einbeitti mér að bassalínunni og þögninni slysuðust aðrar sögur upp á yfirborðið. Hann sagði mér óvart það sem ég vildi heyra milli þess sem hann sagði mér frá því sem hann hélt að ég vildi heyra. Ef ég hlustaði nógu mikið á djammsögurnar, ruglið og ævintýralegu mómentin fékk ég hjartað úr sögunum. Síðan þá hef ég tileinkað mér það í samtali við fólk, hlustið og þér munuð heyra.

Baddó minn, takk fyrir smurbrauðin og allt fáránlega draslið sem þú gafst mér. Fram undan er heljarinnar „jarðarfJör“ eins og þú sagðir svo oft frá. Takk fyrir samveruna og vinskapinn. Góða ferð inn í nýja heima.

Lengi lifi Baddó. Lengi lifi United. Lengi lifi Baddó United.

Þín vinkona,

Signý Rós.

Vinur minn og félagi Bjarnþór (alltaf kallaður Baddó) er fallinn frá eftir erfið veikindi. Ég náði að hitta Baddó áður en hann fór sína ferð í sumarlandið.

Ljóst mátti vera að fyrirliðinn var laskaður og þrekið að þrotum komið. Vinskapur minn og Baddós hafði staðið í yfir 30 ár og aldrei borið skugga á þann vinskap og Baddó trúr sínum vinum alla tíð. Baddó var kannski það sem kallað er kynlegur kvistur en aldrei varð ég nokkurn tíma var við eitthvað illt í vini mínum.

Það var nánast sama hvað gekk á á sjónum, hvort heldur var vont sjólag eða blíður blær, aldrei lá illa á Baddó og yfirleitt stutt í kímnina eða sagðar sögur af samferðamönnum.

Það var oft sem ég leitaði til vinar míns með hin ýmsu verkefni, alltaf var Baddó boðinn og búinn að hjálpa til að allt mætti fara á besta veg. En vinur minn hafði harðan húsbónda sem Bakkus var, samt stóð Baddó alltaf við sitt. Það var alveg ótrúlegt hvað oft fiskaðist vel þegar hann var um borð og gilti þá einu hvert veiðarfærið var.

Mér er minnisstæð veiðiferð sem hann fór með mér á handfæri eftir sjómannadagshelgi en þá fórum við úr höfn um klukkan sex um morguninn. Ég vildi komast út í Nesdýpi áður en togararnir kæmu út eftir helgina. Við renndum færum og það brast á þvílíkt mok að varla hafðist undan að innbyrða fisk og koma niður í lest. Eftir um þrjá tíma á reki lágu um þrjú tonn af boltafiski um borð þegar kippti undan.

Ég sneri mér að Baddó og áttaði mig þá á að Baddó kallinn var farinn að æla eins og múkki. Ég segi við Baddó að nú förum við í land, en hann brást illur við og sagði að hér yrði ekkert farið í land fyrr en búið yrði að fylla þau þrjú kör sem eftir væru, annars yrði sér að mæta. Ég gæti sagt fleiri blaðsíður af ævintýrum Baddós en læt hér staðar numið.

Elsku kæri vinur, hafðu þökk fyrir allt og allt og megir þú ganga á Guðs vegum. Ég færi börnum Baddós, systkinum, ættingjum, vinum og samferðamönnum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um þennan eðaldreng mun lifa og fyrir þig kæri vinur: Áfram Man. Utd!

Kristján Andri
Guðjónsson.