Hvað er KVAN?
Við erum menntunar- og þjálfunarfyrirtæki og bjóðum upp á námskeið, þjálfun, fræðslu og fyrirlestra fyrir einstaklinga, skóla, stofnanir, fyrirtæki, fagfólk, foreldra og börn. Einnig erum við með sérlausnir eins og að halda starfsdaga og komum auk þess að flóknum verkefnum úti um allt land, sértaklega í skólum. Flóknu málin eru til dæmis samskiptavandi, einelti og neikvæð menning.
Hvað fleira er boðið upp á hjá KVAN?
Við erum með alls konar námskeið, meðal annars leiðtoganámskeið fyrir stjórnendur í fyrirtækjum og stofnunum. Mjög margir hafa sótt þessi leiðtoganámskeið. Sama má segja um námskeið sem kallast Verkfærakista og er fyrir kennara og fagfólk sem vinnur með börnum. Auk þess erum við með ferðaskrifstofu og bjóðum upp á ferðir erlendis fyrir alls konar hópa, þá helst námsferðir fyrir fólk úr grunn- og leikskólum en okkar markmið er að ferðirnar skili sér heim til barnanna í formi skólaþróunar og sterkari starfsmannahópa. Auk þess erum við með íþróttaferðir og fyrirtækjaferðir og erum alltaf að þróa okkur áfram.
Hvað er í boði fyrir börn og unglinga?
Við erum með sumarnámskeið, vináttuþjálfun fyrir börn og sjálfstyrkingarnámskeið, sem við erum einnig með fyrir fullorðna. Námskeiðin eru mjög góð fyrir öll börn og ungmenni, ekki síst fyrir þau sem hafa lent í einhverju eins og einelti og þurfa á styrkingu að halda. Við erum með fullt af frábæru starfsfólki sem heldur námskeið og er með fyrirlestra víða um land. Sjálf fer ég mikið í skólana með þeim Ástu og Berglindi, við flytjum fyrirlestra og námskeið og kennum hvernig á að koma í veg fyrir neikvæð og slæm samskipti.
Hvað stendur KVAN fyrir?
Kærleik, vináttu, alúð og nám en þetta eru líka upphafsstafir okkar sem eiga fyrirtækið. Það eru Kobbi, maðurinn minn, ég, Vanda, Anna Steinsen og maðurinn hennar Jón Halldórsson, eða Nonni. Kobbi er að vinna að því að auka útiveru en hann er doktor í útimenntun. Það er eitt af því sem er nýtt hjá okkur; að fá okkur öll meira út. KVAN er fallegt fyrirtæki með hjarta og við erum í samfélagslegri nýsköpun. Markmiðið er alltaf að hafa góð áhrif á samfélagið.
Vanda er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnun menntastofnana. Hún er lektor í Háskóla Íslands, auk þess að sinna starfi sínu hjá KVAN. Allar upplýsingar má finna á kvan.is.