Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Borgarfulltrúar verða varir við titring í fundarsal borgarstjórnar í Ráðhúsinu í Reykjavík í sama mund og strætisvagn ekur yfir hraðahindrun í Vonarstræti. Alþingismenn sem sitja fundi á efstu hæð Smiðju, skrifstofubyggingar Alþingis sem stendur hinum megin Vonarstrætis, verða einnig varir við titring af sömu sökum, eins og greint hefur verið frá.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi segist í samtali við Morgunblaðið hafa orðið var við titring í fundarsal borgarstjórnar sem hann hélt að kynni að vera jarðskjálfti, en þegar að hafi verið gáð hafi komið í ljós að titringsins gætti þegar strætisvagni var ekið yfir téða hraðahindrun. Hann segir að fyrst hafi orðið vart við þetta eftir að hin nýja skrifstofubygging Alþingis, Smiðja, hafi verið tekin í gagnið.
Hann segist ekki einn um að hafa orðið þessa var.
Þegar strætó ekur um
„Mér var bent á þetta á borgarstjórnarfundi í haust, hafði þá reyndar tekið eftir þessu áður, en þá var þessi skýring nefnd. Ég hef orðið var við að þegar þessi titringur verður er strætó alltaf að keyra fram hjá,“ segir Kjartan.
Talinn hönnunargalli
Þessi lýsing rímar vel við það sem Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu. Greindi hún frá því að í stjórnarmyndunarviðræðunum hefði henni brugðið við titring sem hún hélt að væri jarðskjálfti. Sagði hún þar að hönnunargalli í Smiðju ylli því að fundarherbergin á fimmtu hæð byggingarinnar titri í hvert sinn sem strætisvagnar eða önnur stór ökutæki aka yfir hraðahindrun í Vonarstræti sem er framan við bygginguna.
Gat hún þess til gamans að titringurinn hefði valdið töluverðum áhyggjum þegar Volodimír Selenskí forseti Úkraínu heimsótti Ísland og fundaði með utanríkismálanefnd þingsins í fundarherbergi á fimmtu hæð Smiðju. „Ekki er öll vitleysan eins,“ bætti hún við.
Kjartan segir að húsverðir Ráðhússins kannist við þetta vandamál, en titringurinn sé þó ekki svo mikill að hann skapi óþægindi í sjálfu sér.
„En kannski er þetta eitthvað sem þarf að skoða,“ segir hann og segir að til greina komi að færa umrædda hraðahindrun, sé svo að titringinn megi rekja til hennar. Sjálfsagt sé að kanna málið nánar.
Óska fundar með borginni
Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis sagði við blaðið að Alþingi myndi óska eftir fundi með fulltrúum borgarinnar vegna titringsmála, væntanlega í næstu viku.