Bjarni Benediktsson lét af þingmennsku eftir 22 ár á þingi og sem formaður Sjálfstæðisflokksins eftir 16 ár þar.
Bjarni Benediktsson lét af þingmennsku eftir 22 ár á þingi og sem formaður Sjálfstæðisflokksins eftir 16 ár þar. — Morgunblaðið/Eggert
Jólin voru ekki einu sinni úti þegar bera fór á auglýsingum um fyrstu þorrablótin og það sem þar er maulað. Þorri gengur í garð annan fimmtudag. Kurr er í hestamönnum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ekki má lengur bera tað á tún, heldur koma því til…

4.1.-10.1.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Jólin voru ekki einu sinni úti þegar bera fór á auglýsingum um fyrstu þorrablótin og það sem þar er maulað. Þorri gengur í garð annan fimmtudag.

Kurr er í hestamönnum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ekki má lengur bera tað á tún, heldur koma því til Sorpu, sem rukkar kílógjald.

Á liðnu ári seldi Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 4,2% minna af áfengi en árið á undan. Viðskiptavinum fækkaði í svipuðu hlutfalli.

Tala má um hrun í sölu rafbíla, en hún dróst saman um 70% í fyrra frá árinu á undan.

Mikill munur er á orkukostnaði heimila – bæði vegna rafmagns og húshitunar – eftir landshlutum, lægstur á Flúðum en hæstur í Grímsey, en höfuðborgarsvæðið alveg um miðbikið.

Eigendur útgerðarinnar Sólrúnar á Árskógsströnd seldu fyrirtækið og bátana tvo til útgerðar á Húsavík. Ástæðan var sögð örðugt rekstrarumhverfi smærri útgerða, en stefna nýrrar ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum hefði gert útslagið.

Hamborgarahyggjumenn lýstu áhyggjum af fyrirætlunum Reita, sem vilja rífa McDonald's-musterið við Suðurlandsbraut (þar sem nú er Metro) og reisa þar íbúðarhús.

Bjarni Þjóðleifsson, yfirlæknir og prófessor, dó 85 ára.

Glódís Perla Viggósdóttir landsliðsfyrirliði kvenna í fótbolta var kjörin íþróttamaður ársins með yfirburðum.

Álfabakkamálið hélt áfram að vinda upp á sig, en bent var á að áform um kjötvinnslu í hinni umdeildu vöruskemmu þar samræmdust ekki aðalskipulagi borgarinnar.

ÁTVR hefur ekki enn brugðist við hæstaréttardómi í fyrra; hvorki komið starfsemi sinni í lögmætt horf né bætt hlut áfengisinnflytjandans Distu, sem ríkið hallaði á.

Orkukostnaður heimila minnkar ekki ef fjölskyldubíllinn er tekinn með í reikninginn, en verð á bensínlítra er nú aðeins hærra í Mónakó og Hong Kong.

Brunagaddur var víða á landinu en nyrðra fögnuðu Akureyringar því að skíðasvæðið í Hlíðarfjalli var loks opnað, í fyrsta sinn í vetur. Þar hefur lítið snjóað, svo nær allur snjór í fjallinu er tilbúinn.

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar Jóhannesson, betur þekktur sem Futuregrapher, lést 41 árs eftir að hafa verið bjargað úr bíl sínum í Reykjavíkurhöfn á gamlársdag.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fv. forsætisráðherra, greindi frá því að hann tæki ekki sæti á Alþingi þegar það kæmi saman og að hann myndi ekki leita endurkjörs sem formaður flokks síns á landsfundi. Hann á að halda í febrúar en sumir telja þó rétt að fresta honum.

Ýmsir líklegir formannsframbjóðendur voru þegar nefndir, en helst Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Reykjavíkurborg gekk frá starfsleyfi Isavia til reksturs Reykjavíkurflugvallar næstu átta árin.

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík, Brynjar Þór Jónasson, segir ekkert athugavert við byggingu vöruskemmunnar í Álfabakka; telur hana raunar til sérstakrar fyrirmyndar og umfjöllun embættisins stund síns fegursta frama. Hann synjaði því kröfu um að stöðva framkvæmdirnar.

Þrettándanum var fagnað víða um land og jólin kvödd.

Íslendingar móðguðust þegar forsetaefnið Donald Trump skipti úr einangrunarstefnu yfir í heimsvaldastefnu og lýsti yfir áhuga á landvinningum á Grænlandi en foraktaði Ísland.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri gagnrýndi eigið stjórnkerfi á fundi borgarstjórnar, en þar var ákveðið að gera stjórnsýsluúttekt vegna Álfabakkamálsins. Hann sagði sér ekki stætt á að stöðva byggingarframkvæmdir en ekkert um hvernig hlutur nágrannanna yrði réttur.

Þéttingarstefna borgaryfirvalda gengur svona og svona en af 517 nýjum íbúðum á átta þéttingarreitum í miðbænum hefur ekki tekist að selja nema 227. Er þó húsnæðiskreppa.

Dagur B. Eggertsson fv. borgarstjóri sætti gagnrýni í borgarstjórn, en hann hefur ekki beðist lausnar sem borgarfulltrúi þótt hann hafi verið kjörinn á þing í nóvember. Um áramótin fékk hann bæði tvöfalt þingfararkaup, laun fyrir setu í borgarstjórn og álag fyrir setu í borgarráði.

Guðmundur Ari Sigurjónsson var kjörinn þingflokksformaður Samfylkingar, en á daginn kom að Dagur B. Eggertsson hafði gert ráð fyrir að sú vegtylla kæmi í sinn hlut.

Tundurdufl kom upp úr kafinu hjá togaranum Björgu EA, en eftir að það kom í ljós í Akureyrarhöfn var það dregið út á Eyjafjörð og sprengt af Landhelgisgæslunni.

Bitur kaleikur bíður starfsmanna stjórnarráðsins, en Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur enn ekki skipað þriggja manna hóp til þess að fara yfir sparnaðartillögur almennings í samráðsgáttinni. Þær eru tæplega þrjú þúsund talsins.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nýbakaður utanríkisráðherra, hélt til Úkraínu þar sem hún hitti nokkra embættismenn.

Búseti, sem á íbúðarhúsið við hlið Álfabakkaskemmunnar, vandaði Dóru Björt Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata og formanni umhverfis- og skipulagsráðs, ekki kveðjurnar, en hún sagði að Búseti gæti sjálfum sér um kennt.

Aftur á móti vildi Dóra Björt ekki fyrir nokkurn mun ræða við blaðamenn um málið.

Framkvæmdastjóri Búseta sagði hins vegar skýrt að ábyrgðin lægi hjá borginni, hún hefði beitt skipulagsvaldi til þess að tryggja viðskipti með lóðina við Álfabakka.

Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins segir kurr í flokksmönnum eftir ósigur í þingkosningunum og að rætt sé um að flýta flokksþingi. Þá væntanlega til þess að kjósa nýjan formann.

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður taldi sig hins vegar ekki bera ábyrgð á afhroðinu og kvaðst myndu sitja sem fastast til að huga að endurreisn flokksins.

Kostnaður við ADHD-lyfið Elvanse hefur stóraukist undanfarin ár og nam nærri milljarði króna á liðnu ári.

Hagar, sem skemman við Álfabakka var byggð fyrir, harma hvernig komið er og hafa skilning á sjónarmiðum íbúa, en þá skortir einmitt sjónarmið af svölum sínum. Fyrirtækið átelur vinnubrögð Reykjavíkurborgar og málflutning kjörinna fulltrúa hennar.

Kjördæmisráð Framsóknarflokksins í Reykjavík beindi þeim tilmælum til framkvæmdastjórnar að setja af stað ferli til þess að boða flokksþing sem fyrst.

Mikill áhugi er á veiðileyfum í Elliðaám og eftirspurn eftir leyfum tvöfalt meiri en framboðið.

Nýtt met var sett á íslenska flugumsjónarsvæðinu á liðnu ári og fóru um 200.000 flugvélar um það.

Dómsmálaráðherra auglýsti ekki embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, svo Halla Bergþóra Björnsdóttir verður áfram eikarlaufum skrýdd næstu fimm árin.

Elsa Haraldsdóttir hárgreiðslumeistari dó 76 ára.

Komið er að leiðarlokum þessarar vikulegu yfirferðar yfir fréttir vikunnar að sinni, svo héðan í frá þurfa lesendur að lesa Morgunblaðið alla daga vikunnar.