Golf
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
„Þetta var frábær upplifun og öll umgjörðin í kringum mótið var upp á tíu. Það var heiður að vera fulltrúi Íslands og heimsálfunnar,“ sagði kylfingurinn Gunnlaugur Árni Sveinsson í samtali við Morgunblaðið.
Gunnlaugur var í úrvalsliði áhugamanna í Evrópu á Bonallack Trophy í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en þar mætast úrvalslið áhugamanna Evrópu og Asíu/Eyjaálfu. Að lokum vann lið Asíu og Eyjaálfu, 16,5:15:5, eftir spennandi keppni.
„Það var svekkjandi. Við vorum jafnir eftir tvo daga og ég ætlaði að vinna leikinn minn í dag (í gær). Ég vildi vinna og liðið mitt vildi vinna. Svona er þetta þegar þú ert með bestu leikmenn Asíu og Evrópu. Allir leikir eru stál í stál og því miður náðum við ekki að klára þetta í ár.
Það var svekkjandi að tapa en þessi reynsla gaf manni mjög mikið. Maður verður fljótur að jafna sig á tapinu, þótt við höfum verið nálægt sigri,“ sagði Gunnlaugur.
Þrátt fyrir naumt tap í heildarkeppninni var Gunnlaugur sáttur við sína spilamennsku á mótinu. Hann vann Kartik Singh frá Indlandi í tvímenningi í gær.
„Ég lagði mig 110 prósent fram. Fyrstu dagarnir voru aðeins erfiðir því ég var ekki með settið mitt og ég þurfti að vinna mig í gegnum það. Undirbúningurinn var því aðeins öðruvísi fyrir mig persónulega.
Ég spilaði mjög vel í mínum leikjum í fjórmenningi og fjórleik fyrstu dagana og svo spilaði ég vel í tvímenningi í dag (í gær). Ég er sáttur við mitt framlag, þótt ég hefði verið til í að skila fleiri stigum á töfluna. Ég fékk marga hörkuleiki og sumir duttu hinum megin.“
Með betri morgnum ævinnar
Gunnlaugur er fyrsti Íslendingurinn sem er valinn í úrvalslið Evrópu í þessari keppni. Hann er þakklátur fyrir tækifærið.
„Það komu margar góðar tilfinningar þegar ég fékk skilaboðin um að ég hefði verið valinn. Ég vaknaði í Bandaríkjunum, slökkti á vekjaraklukkunni og sá skilaboð um valið. Þetta var með betri morgnum ævinnar. Ég hringdi í háskólaþjálfarann minn og þetta var mjög skemmtilegt.“
Keppnin fór fram í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og fylgdist nánasta fjölskylda vel með gangi mála.
„Þetta er búið að vera mikið ævintýri. Menningarmunurinn er gríðarlegur. Maður heyrir bænaköll í hátalarakerfi á meðan maður er að spila. Það er frábært að mamma, pabbi og bróðir minn komu að fylgjast með. Það hefur verið gaman fyrir fjölskylduna að upplifa nýtt land og nýtt ævintýri.“
Góð byrjun hjá LSU
Gunnlaugur keppir fyrir LSU-háskólann í Louisiana og hefur slegið í gegn í vetur en hann er besti nýliðinn til þessa á háskólamótaröðinni og hefur þegar unnið eitt mótanna. Í Louisiana æfir hann og keppir við bestu aðstæður og eru markmiðin fyrir komandi ár há.
„Markmiðin eru mjög há. Ég fer aftur til Bandaríkjanna og klára vorið þar. Það er mikið af sterkum mótum þar og með góðri spilamennsku á ég að fljúga upp heimslistann. Ég vil halda áfram því sem ég hef verið að gera. Ég fæ mikið traust frá þjálfurunum og við viljum halda vegferðinni okkar áfram.
„Það er draumur fyrir kylfinga að vera í svona miklu atvinnumannaumhverfi. Það er allt gert fyrir þig og mikilvægasta hlutverk þeirra í kringum þig er að þú fáir allt sem þú þarft til að blómstra. Það er fullt af sterkum mótum og maður æfir og keppir við bestu aðstæður. Þetta er algjör draumur og ég er mjög þakklátur fyrir þetta tækifæri,“ sagði Gunnlaugur.