Blaðberar og póstmenn sæta slíku misrétti oft á tíðum, að yfirgengilegt er.“
Með þessum orðum hófst bréf sem „hundavinur“ ritaði Velvakanda í ársbyrjun 1985. Ekki alls fyrir löngu hafði hann verið að bera út dagblöð, og er hann ætlaði að bera út í eina götuna mætti hann lausum hundum. „Geltu þeir ógurlega, en ég lét það ekki á mig fá enda alinn upp í sveit að hluta, vanur hundum og óhræddur við þá. Ætlaði ég mér því að ganga ótrauður upp tröppurnar á húsunum með blöðin. Stukku þá hundarnir eldsnöggt í veg fyrir mig og urruðu illilega. Þeir vörðu ekki aðeins sín heimili heldur alla götuna eins og hún lagði sig. Ógerningur var að nálgast húsin.“
Okkar mann fýsti ekki í hundaslag enda við ofurefli að etja og hann friðsamur að eðlisfari. Gatan var þess utan mannlaus, þannig að enginn var sjáanlegur til hjálpar. „Mér tókst að sýna stillingu, þó dauðskelkaður væri, tók það ráð að snúa mér við með blaðburðarpokana og gekk hægum skrefum frá götunni. Þessi mannýgu kvikindi eltu mig og flúði ég yfir í aðra götu með hundana urrandi á hælunum. Það var ekki fyrr en ég var kominn yfir í annað hverfi, að þeir sneru til síns heima.“
Bréfritari hafði heimildir fyrir því að hundar þessir gengju jafnan lausir á daginn og væru aðeins læstir inni yfir hánóttina. „Hér er augljóslega um alvarlegt brot að ræða.“
Bréf frá Björgu nokkurri var birt í sama tölublaði og var hún einnig í vandræðum. Ekki vegna óðra hunda en hundur var þó í henni. Skyldi engan undra, hún átti í mesta basli með að gera sér glaðan dag, fyrir þær sakir að Ríkið, eins og Vínbúðin hét á þeim árum, var alltaf harðlokað í hádeginu.
„Mikið hef ég oft reiðst út af því, þar sem ég kemst aldrei frá vinnu nema í hádeginu og á kvöldin er ég ekki búin fyrir en kl. sjö. Og svo sannarlega er ég ekkert einsdæmi í þessum efnum. Mikið held ég að það yrði þægilegra fyrir alla aðila, viðskiptavini sem starfsfólk áfengisútsala hér í borg, ef tekinn yrði upp sá háttur að hafa opið í hádeginu. Þá yrði vafalaust jafnari sala yfir daginn í stað þess að menn æði í offorsi rétt fyrir lokun og þurfi svo að híma í röð í lengri eða skemmri tíma. Forráðamenn ÁTVR, vinsamlegast takið þetta til athugunar.“
Ekki liggur fyrir hvenær breyting varð á afgreiðslutíma Ríkisins eða hvort það var vegna bréfs Bjargar. En í dag er í öllu falli auðsótt að koma þar við í hádeginu og jafnvel á laugardögum sem var auðvitað harðbannað fyrir fjörutíu árum.
Bætt úr biðraðaástandi
„Borgari“ var einnig í brasi. Hann vantaði víndreitil í jólauppskriftina en þurfti að bíða í tvær klukkustundir í Ríkinu, þar sem röðin náði út á götu. Vín var afgreitt yfir borðið á þessum árum. Jón Helgason, Sólvangi, fann til með borgaranum og lagði til lausn í skrifi til Velvakanda. „Nú vill „Borgari“ að bætt verði úr þessu biðraðaástandi með því að hafa fleiri áfengisútsölur í borginni. Mig grunar þá að Borgara þætti hagkvæmast ef vínið kæmi beint úr vatnskrönum heima hjá honum. Það ætti að vera framkvæmanlegt á þeirri tækniöld sem við lifum nú á. En vel á minnst. Kranana þarf að hafa svo hátt frá gólfi að börn nái ekki til þeirra.“
Menn skrifuðu gjarnan undir nafnnúmerum á þessum árum og 6398-6976 óskaði eftir liðveislu Víkverja. Vandi hans var eftirfarandi: „Þannig er mál með vexti að einn af starfsfélögum mínum svitnar mikið og er að kæfa okkur hin úr svitalykt.“
Hann eða hún vann á stórum vinnustað og auðvitað viðkvæmt mál að minnast á þetta. Fyrir vikið var leitað til Velvakanda eftir ráðum. „Getur þú nú ekki beðið einhvern fróðan að gefa ráð í þessu sambandi. Það er ekki hægt fyrir sumt fólk að þvo sér bara, það lyktar samt. Ég þekki fólk sem fer í sund daglega en lyktar samt sem áður. Gefðu okkur nú ráð sem duga.“
Ekki var Velvakandi með ráð á reiðum höndum og heldur ekki í næstu tölublöðum. Óvíst er því hvernig þetta fór allt saman.
Unga fólkið lét ekki sitt eftir liggja. S.H. var mjög þakklát sjónvarpinu fyrir að sýna „hina frábæru tónleika með hljómsveitinni Duran Duran“ en „þungarokksaðdáandi“ hvatti sömu stofnun til að sýna meira efni með hljómsveitinni Kiss í framtíðinni. „Hvað ef Skonrokk tæki það til sín og léki til dæmis aftur lag þeirra „I love it loud“?“
Loks hringdi „sjúklingur“ í Velvakanda og sagði farir sínar ekki sléttar. „Sjúkradagpeninga fæ ég sem eiga að halda í manni líftórunni, þ.e. nægja til kaups á brýnustu nauðsynjum, mat og öðru. Nú hafa ýmsir fengið kauphækkun að undanförnu og því ekki úr vegi að hækka dagpeningana. En hækkunin sem nú nýverið var gerð á þeim er með heldur minna móti en verið hefur hjá öðrum í þjóðfélaginu. Greiðslan dag hvern fyrir hjón hækkaði sem sagt um 8 krónur og 63 aura, úr 172 krónum og 64 aurum í 181 krónu og 27 aura. Fyrir tvö börn var greiðslan 93 krónur og 70 aurar, en hefur nú hækkað upp í 98 krónur og 38 aura eða um 4 krónur og 68 aura. Svo segja menn að lífsgæðunum sé ekki misskipt.“