Björgvin Víglundsson
Það er augljóst að hér ríkir slæmt ástand í húsnæðismálum. Hingað til hafa menn haft uppi ýmsar aðgerðir til að laga ástandið en engin þeirra hefur haft merkjanleg áhrif til hins betra. Í þessari grein verður reynt að átta sig á því til hvaða aðgerða mætti grípa án þess að opinberir aðilar leggi fram fjármagn. Af þeim ástæðum eru lóðaverð og vextir ekki rædd, en það eru auðvitað stórir þættir.
Eftirfarandi tillögur eru sniðnar eftir umhverfi byggingariðnaðar Norðurlandaríkja að mestu:
1) Á lóðum húsa geti eigendur byggt með ákveðnum skilyrðum hús allt að 40 fermetrum. Slíkt hús mætti leigja eða selja að vild. Hér þarf auðvitað að setja skilyrði um hæð og hugsanlega fleira, en þó ber að varast að hafa umgjörð svo flókna að framkvæmd yrði erfið. (Svíþjóð)
2) Eigendur geti skipt eignum sínum, til dæmis þannig að einbýlishús með neðri hæð geti orðið tvær íbúðir. Þetta er afar einfalt í Svíþjóð og Noregi. Eigandi getur þá framkvæmt að fengnu leyfi og þinglýst.
3) Menn gætu án einfaldan hátt gert kvisti á 2/3 hluta þaks og/eða breytt og lagað byggingar á einfaldan hátt. Hér væri ekki þörf á flóknu ferli skipulagsbreytinga. Minnt er á þegar eigandi varð að rífa sama kvistinn tvisvar samkvæmt dómi Hæstaréttar vegna formgalla á framkvæmd skipulagsbreytinga.
4) Endurskoðuð verði hönnun með tilliti til aðgengis fatlaðra. Þar eru reglugerðir of strangar og geta virkað hindrandi þegar fólk vill eignast nýja íbúð. Þetta er í raun sérstök skattheimta á nýjar íbúðir.
5) Endurskilgreindar verði kröfur um form og gerð íbúða og sérstaklega minni íbúða.
6) Byggingarreglugerð vegna innfluttra eininga og húsa verði breytt. Nauðsynlegt er að nota megi staðallausnir til dæmis frá Evrópu.
7) Skipulagsbreytingar verði með einföldu ferli. Undirritaður hefur unnið við slíkt í norsku sveitarfélagi og einfaldara getur það ekki verið og tók nokkra daga.
Lokaorð
Ekki er þörf á og óljóst hvaða gagn er af því gífurlega magni hönnunargagna sem nú er skylda til að leggja fram vegna framkvæmda.
Ýmsir þættir eru þar hindrandi og óskynsamlegir; við getum nefnt sérteikningar, skráningartöflur og fleira. Í Noregi leggja menn fram einfaldar teikningar á A4 eða svipuðu blaði til að hefja framkvæmdir á t.d eigin húsi. Einangrunarkröfur og fleira eru óþarflega miklar hérlendis, við höfum heitt vatn og rafmagn sem hentar vel fyrir varmadælutækni. Ekki væri úr vegi að líta til áranna 1970 til 1980 með tilliti til reglugerða. Einnig er hindrandi sá mikli fjöldi aðila sem þarf að ráða í hvert verk, ásamt alls kyns skilyrðum sem hindra að fagmenn geti starfað (OECD-skýrsla). Auðvitað er það svo að eigandi hvers verks er ábyrgur og gerir sína samninga við framkvæmdaraðila eftir atvikum. Langan tíma getur tekið að fá samþykki fyrir einföldum framkvæmdum og er það lengsta sem ég veit um sex ára bið vegna einfalds kvists.
Eiginhagsmunir og sérskoðanir hinna ýmsu aðila munu blandast inn í þessa umræðu og menn munu berjast með oddi og egg til að halda í sitt. Til þess að laga hlutina þarf hugrekki og stefnufestu.
Höfundur er verkfræðingur.