Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Yfirvöld í Kaliforníu staðfestu í gær að tíu manns hið minnsta hefðu farist í gróðureldunum miklu sem enn geisa í Los Angeles og nágrenni. Rúmlega 10.000 byggingar hafa nú orðið gróðureldunum að bráð að sögn slökkviliðs Kaliforníu, og sagði Robert Luna, fógeti í Los Angeles-sýslu, að ummerkin eftir eldsvoðann líktust því helst að atómsprengja hefði lent á borginni.
Nokkuð hefur borið á ránum og gripdeildum í kjölfar eldanna, og gildir nú útgöngubann á vissum svæðum í Los Angeles-sýslu. Þá hefur Gavin Newsom, ríkisstjóri í Kaliforníu, kallað út þjóðvarðlið ríkisins til þess að gæta almannaöryggis.
Sagði Newsom að gripið yrði til allra ráða til þess að verja samfélagið á næstu dögum og varaði við því að gripdeildir yrðu ekki liðnar. Luna sagði að lögreglumenn fógetaembættisins væru nú að fylgjast með þeim svæðum sem fólk hefði neyðst til að flýja og að allir yrðu handteknir sem ekki ættu erindi á þau svæði.
Sumir íbúa hafa hins vegar tekið málin í eigin hendur, og sagði Nicholas Norman við AFP-fréttastofuna að hann hefði ákveðið að verja heimili sitt eftir að hann sá grunsamlegar mannaferðir að nóttu til. „Ég gerði það dæmigerðasta bandaríska sem hægt var: Ég fór og náði í haglabyssuna mína og sat þarna við ljós svo að þeir myndu vita að fólk væri þarna,“ sagði Norman.
Alríkið sendir slökkvilið
Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann hefði heimilað auknar fjárheimildir frá almannavörnum alríkisins til þess að styðja við Kaliforníu eftir það sem hann kallaði „stærsta og skaðsamasta eldinn í sögu Kaliforníu“.
Sagði Biden meðal annars að alríkið myndi sjá um kostnað við viðbragð gegn eldunum í 180 daga, og að það væri gert að beiðni Newsom ríkisstjóra.
Biden sagði að 400 slökkviliðsmenn á vegum alríkisins og 30 slökkviliðsflugvélar og -þyrlur væru á leiðinni til Los Angeles. Þá myndi varnarmálaráðuneytið senda átta stórar flugvélar ásamt 500 manns sem sérhæfa sig í að stöðva og hreinsa eftir gróðurelda.