Þegar ég var barn vissi ég ekkert betra en að hverfa inn í heim skáldsögunnar. Sem barn las ég eingöngu skáldsögur en eftir að ég varð fullorðin hefur áhugi minn á tegundum bókmennta breikkað og nú finnst mér skemmtilegast að lesa sitt á hvað skáldsögur og fræðirit.
Bókin Factfulness eftir Hans Rosling er dæmi um fræðibók sem náði mér algerlega. Ég get meira að segja sagt að hún hafi breytt heimsmynd minni. Ég er sérstaklega þakklát fyrir þá bók.
Bækurnar Aldrei nema kona, Aldrei nema vinnukona og Aldrei aftur vinnukona fannst mér stórskemmtilegar. Þetta eru sögulegar skáldsögur sem móðursystir mín Sveinbjörg skrifaði um formæður mínar. Mér fannst merkilegt að lesa um líf þessara kvenna og þar sem ég er í beinan kvenlegg frá sumum þeirra fannst mér ég stundum vera komin aftur í tímann og lifa þetta með þeim.
Bækur sem toga mig út úr raunveruleikanum og fá mig til að hugsa út fyrir þann ramma sem við lifum í finnst mér gefandi. Smásögusafn Franz Kafka kemur þar sterkt inn og þá sérstaklega Umskiptin. Bókin Útlendingurinn eftir Albert Camus hafði líka sterk áhrif á mig og náði að draga mig út í heimspekilegar hugsanir.
Bækurnar Ógn, Órói og Ólga eftir Hrund Hlöðversdóttur fannst mér skemmtilegar. Í bókunum notar Hrund hugmyndaheim þjóðsagnanna okkar til að búa til splunkunýjar spennusögur. Sjálf lá ég í þjóðsögunum þegar ég var yngri og það er virkilega gaman að sjá hvernig Hrund dregur þá fjársjóði fram í dagsljósið fyrir nýja kynslóð lesenda.
Svo þykir mér sérstaklega vænt um bókina hennar mömmu minnar, Systa, sem kom út árið 2019 þar sem hún segir frá ýmsum uppákomum í sinni æsku og fléttar þær saman við sálfræði manneskjunnar. Það er skemmtilegt að sjá mömmu skottast um blaðsíðurnar sem lítið barn. Hún er svo kraftmikil, lífsglöð og skemmtileg kona og maður smitast af gleðinni við að lesa bókina.
Akkúrat núna er ég að lesa bókina Die Glücksformel (Formúla hamingjunnar) sem er frábærlega fræðandi og skemmtileg samantekt á svei mér þá öllum rannsóknum sem gerðar hafa verið á hamingjunni frá ca árinu 1970. Það er alveg magnað að fá á silfurfati samantekt á öllu sem við höfum rannsakað tengt hamingjunni í formi 500 blaðsíðna smábókar sem passar í lófann.