Albert Þór Jónsson
Framsýni þeirra sem komu lífeyriskerfinu af stað fyrir um fimm áratugum hefur reynst mikill gæfuvaldur fyrir alla landsmenn og mikilvægi þess á flestum sviðum þjóðlífsins er umtalsvert. Mikilvægustu styrkleikar íslenska lífeyriskerfisins eru full sjóðsöfnun, hagstæð aldursdreifing og mikil atvinnuþátttaka. Kerfið byggir á fullri sjóðsöfnun að stærstum hluta en margar þjóðir eru með gegnumstreymiskerfi þar sem treyst er á framtíðarskatttekjur viðkomandi landa.
Íslenskir lífeyrissjóðir þurfa að taka strategískar ákvarðanir varðandi áhættudreifingu með auknum erlendum fjárfestingum, en þannig geta þeir flutt áhættu yfir í önnur hagkerfi til lengri tíma og þannig náð fram ásættanlegri áhættudreifingu. Á næstu árum má búast við að fjárfestingar verði að stærstum hluta í erlendum verðbréfum þannig að markmið um fjárfestingarstefnu verði að veruleika, með auknu vali og frelsi í lífeyrismálum þar sem miklar breytingar á vinnumarkaði munu leiða til nýrra lausna. Aukin samkeppni mun verða á milli lífeyrissjóða þar sem horft verður til samkeppnishæfni og árangurs á ýmsum sviðum. Ávöxtun með tilliti til áhættu, framúrskarandi þjónustu og upplýsingagjöf og val á fjárfestingarleiðum með fjölbreyttum lausnum hjá séreignasjóðum munu mæta þörfum nýrra viðskiptavina. Lífeyrissjóðir eru langtímafjárfestar sem horfa til lengri tíma í fjárfestingum sínum og þess vegna er áhættudreifing lykilatriði í fjárfestingarstefnu þeirra. Eignasamsetning skilar yfirleitt 99% af árangri í ávöxtun yfir langan tíma. Mikilvægi áhættudreifingar á önnur hagkerfi gerir erlendar fjárfestingar áhugaverðar sem fjárfestingarvalkost auk góðrar ávöxtunar yfir langan tíma. Aukið valfrelsi sjóðfélaga leiðir til meiri samkeppni og betri árangurs til lengri tíma. Megintilgangur íslenskra lífeyrissjóða er að greiða út lífeyri til sjóðfélaga. Miklu máli skiptir að eignir séu ávaxtaðar samkvæmt fjárfestingarstefnu þannig að hægt sé að mæta framtíðarskuldbindingum. Í lögum er kveðið á um að tryggingavernd sé að lágmarki 56% af meðalævitekjum en það endurspeglar ekki allt lífeyriskerfið og því er mikilvægt að ná sátt um lágmarkstryggingavernd í lífeyriskerfinu í heild. Mikilvægt er að skoða samspil kerfa almannatrygginga og lífeyrissjóða, en samspil séreignarsparnaðar og samtryggingar hefur aukist verulega á undanförnum árum. Íslenska lífeyriskerfið hefur vaxið mikið á undanförnum árum og er ein af mikilvægustu auðlindum Íslands. Eftir því sem stærð og umfang lífeyriskerfisins hefur aukist hafa kröfur á ýmsum sviðum hins vegar aukist verulega, en gerð er fagleg krafa til þeirra sem virks fjárfestis á verðbréfamörkuðum og við fjármögnun á flestum sviðum atvinnulífsins.
Aukinn sveigjanleiki og frelsi í lífeyrismálum auka samkeppnishæfni, árangur og þjónustu til sjóðfélaga.
Höfundur er viðskiptafræðingur (cand. oecon).