Herskáar yfirlýsingar Trumps koma róti á umræðuna

Donald Trump talar um önnur lönd eins og þau séu fasteignir. Undanfarið hafa Kanada, Panama og Grænland verið í sigtinu, það sé nauðsynlegt að Bandaríkin eigi Grænland.

Orð verðandi forseta Bandaríkjanna hljóma eins og endurvakin nýlendustefna þótt margir kjósi að nota frekar orð eins og samningatækni yfir ágengni hans. Viðbrögðin hafa verið nokkuð eindregin, en þó var Mette Frederiksen ekki jafn hvöss og þegar Trump lýsti yfir áhuga sínum á Grænlandi þegar hann var forseti síðast.

Þá svaraði hún honum tæpitungulaust, en nú var hún diplómatískari, kvaðst fagna áhuga hans, en framtíð Grænlands yrði ráðin í Nuuk.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sögðu í gær í viðtali við mbl.is að framtíð Grænlands væri í höndum Grænlendinga.

„Grænland ræður sér sjálft hvað varðar hver framtíð Grænlands er. Hún ræðst í Nuuk, hún ræðst ekki Bandaríkjunum og hún ræðst heldur ekki í Kaupmannahöfn,“ sagði Kristrún eftir ríkisstjórnarfund í gærmorgun. „Við höfum alltaf staðið mjög þétt með Grænlendingum og munum gera það áfram.“

Björn Bjarnason fjallar um Trump og Grænland í grein sinni á næstu opnu og segir að komi til þess að samið verði milli Washington og Nuuk á grundvelli tilkynningar sem grænlenska landstjórnin sendi frá sér á fimmtudag muni norðurslóðir taka á sig nýja mynd og að henni verði Íslendingar að laga sig.

Í fréttaskýringu í norska blaðinu Aftenposten í fyrradag kom fram að í Noregi væru menn farnir að velta fyrir sér hvað Grænlandsútspil Trumps þýddi fyrir Ísland.

Í greininni kemur fram að Norðmenn hafi strax leitt hugann að stöðu Svalbarða þegar Trump útilokaði ekki að beita vopnavaldi vegna Grænlands.

„Svalbarði er Noregur og Svalbarði er öruggur,“ sagði Jonas Gahr Störe forsætisráðherra Noregs í Norska ríkissútvarpinu á fimmtudag.

Í fréttaskýringunni er hins vegar fullyrt að þótt norskir ráðamenn séu ekki uggandi út af Svalbarða valdi annað þeim áhyggjum því að hegðun Trumps gæti valdið því að aðrir tækju ákvarðanir sem annars hefðu ekki verið teknar eða fengið að bíða.

Þar sé horft til Íslands. Íslendingar séu þegar farnir að daðra við hugmyndir um inngöngu í Evrópusambandið og Kristrún Frostadóttir hafi heitið þjóðaratkvæði um málið í síðasta lagi árið 2027. Nú gæti farið svo að því yrði flýtt út af Trump.

Hvers vegna hafa Norðmenn áhyggjur af þessu? Fyrir þeim er Evrópska efnahagssambandið í húfi og spyr höfundur hvað verði um það hverfi Íslendingar á braut. Þegar það varð til árið 1994 hafi Noregur, Ísland, Svíþjóð, Finnland og Austurríki verið innan borðs og Liechtenstein bæst við árið eftir. „Gangi Ísland í ESB verða bara Noregur og Liechtenstein eftir,“ segir í fréttaskýringunni.

Þetta eru frekar skrítnar vangaveltur.

Reyndar hefur þróun heimsmála leitt til óvæntra vendinga upp á síðkastið. Innrás Rússa í Úkraínu og herská framkoma þeirra víðar varð til þess að Finnar og Svíar ákváðu að ganga í Atlantshafsbandalagið. Þeir töldu að það væri eina leiðin til að tryggja öryggi sitt fyrir yfirgangi Vladimírs Pútíns forseta Rússlands og stóðu þó utan NATO allt kalda stríðið.

En það er stórt stökk frá yfirlýsingum Trumps til þeirrar ályktunar að það muni leiða til þess að Íslendingar hrökklist í Evrópusambandið, þótt vel geti verið að einhverjir muni reyna slíkar málfundaæfingar fari umræða um aðild á skrið.

Hins vegar þarf hér á landi að eiga sér stað mun meiri og rækilegri umræða um varnar- og öryggismál, þar á meðal hvernig viðvera Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli hefur vaxið meira að umfangi á undanförnum misserum en verið hefur hingað til. Það var áberandi að í aðdraganda kosninganna í nóvember var varla minnst á þessi mál.

Meiri ástæða er hins vegar fyrir Dani að velta fyrir sér hlutverki sínu í framtíð Grænlands. Danir hafa undanfarið verið að sýna fram á breytt hugarfar gagnvart Grænlendingum. Friðrik X. Danakonungur sagði í áramótaávarpi sínu að danska konungsveldið stæði sameinað allt til og með Grænlandi.

Á mánudag var tilkynnt að hinu konunglega skjaldarmerki hefði verið breytt þannig að vægi Grænlands og Færeyja hefði verið aukið. Í merkinu er skjöldur sem skipt er í fjóra fleti. Áður voru Grænland og Færeyjar á sama fleti táknuð með ísbirni og hrúti. Nú fá ísbjörninn og hrúturinn hvor sinn flötinn, tvo af fjórum. Út fóru þrjár kórónur sem táknuðu Kalmarsambandið. Sagt er að þetta sé til marks um hvað Grænland og Færeyjar skipti Danmörku miklu máli.

Á Grænlandi er tónninn annar. Múte B. Egede, formaður grænlensku landstjórnarinnar, sagði í nýársávarpi sínu að kominn væri tími til að „slíta hlekki nýlendustefnunnar“. Grænlendingar ganga að kjörborðinu í apríl. Kosningar á Grænlandi teljast venjulega ekki til heimstíðinda en að þessu sinni verða augu umheimsins á Grænlandi.