Á nýliðnu ári var 150 ára fæðingarafmæli Winstons Churchill fagnað víða um heim og vitaskuld voru birtar fjölmargar gamlar ljósmyndir af forsætisráðherranum dáða. Þá var ekki mögulegt annað en að staldra við frægustu myndina sem tekin var af Churchill. Heiðurinn af henni á Yousuf Karsh, armensk-kanadíski ljósmyndarinn sem talinn er einn fremsti portrettljósmyndari 20. aldarinnar.
Hann fæddist í Tyrklandi árið 1908. Foreldrar hans voru Armenar. Móðir hans var vel menntuð og vel lesin á þess tíma mælikvarða, en faðir hans, sem var ólæs, vann fyrir fjölskyldunni sem farandsölumaður. Armenar bjuggu á þessum tíma við ofsóknir og fjölskyldan flúði til Sýrlands árið 1922, fór þangað fótgangandi. Tveimur árum síðar sendu foreldrarnir son sinn til Kanada þar sem hann bjó hjá frænda sínum sem var ljósmyndari. Karsh lærði ljósmyndun af honum en um tvítugt fór hann í læri til John H. Garo sem var þekktur ljósmyndari í Boston og kenndi honum ýmiss konar tækni varðandi lýsingu.
Með aðstoð frænda síns opnaði Karsh eigið stúdíó árið 1932 í Ottawa. Árið 1936 tók hann ljósmyndir af fundi Franklin Roosevelt Bandaríkjaforseta og kanadíska forsætisráðherrans William Lyon Mackenzie King. Eftir það tók hann reglulega ljósmyndir fyrir kanadísku ríkisstjórnina.
Ljósmynd sem Karsh tók af Winston Churchill, hinum 67 ára gamla forsætisráðherra Breta, árið 1941 olli þáttaskilum í lífi hans. Myndin var tekin í kanadíska þinghúsinu að frumkvæði Mackenzie King forsætisráðherra. Myndatakan átti að taka tvær mínútur. Karsh bað Churchill að taka vindilinn úr munninum því reykurinn myndi hafa áhrif á myndgæðin. Churchill neitaði og Karsh vék sér þá að honum með orðunum: Afsakið, herra minn, og þreif vindilinn úr munni hans. „Þegar ég var kominn aftur að myndavélinni var Churchill svo illúðlegur að hann hefði getað étið mig,“ sagði Karsh seinna. Hann náði svipbrigðum forsætisráðherrans á mynd sem er talin vera ein frægasta portrettmynd ljósmyndasögunnar.
Eftir myndatökuna sagði Churchill: „Það er meira að segja hægt að fá öskrandi ljón til að standa kjurrt fyrir myndatöku.“ Myndin er venjulega kölluð Öskrandi ljónið.
„Ljósmyndin af Churchill breytti lífi mínu. Eftir að hafa tekið hana vissi ég að þetta væri mynd sem skipti máli en mig óraði ekki fyrir því að hún ætti eftir að verða ein vinsælasta mynd ljósmyndasögunnar,“ sagði Karsh.
Myndin prýddi forsíðu Life-tímaritsins sem birti rúmlega tuttugu myndir ljósmyndarans á forsíðu sinni í áratugi þar til Karsh settist í helgan stein árið 1993.
Karsh sérhæfði sig í að ljósmynda frægt fólk. Spurður um ástæðuna sagði hann: „Ég trúi því að það sé minnihlutinn sem fái jörðina til að snúast, ekki meirihlutinn.“ Hann sagði einnig: „Það sem mér finnst óendanlega heillandi við þessa einstaklinga er það sem ég kalla innri kraftur þeirra. Það er hluti af hinum óljósa leyndardómi sem leynist í okkur öllum. Lífsstarf mitt hefur verið að reyna að fanga þennan kraft á filmu.“
Tæknikunnátta hans var frábær og hann notaði tækni sem byggðist á andstæðu ljóss og skugga. Ljósmyndir hans eru dramatískar en fyrst og fremst var það hæfileiki hans til að fanga anda manneskjunnar sem sat fyrir hverju sinni sem gerði hann að svo sérstökum ljósmyndara. Fyrir myndatöku hafði Karsh kynnt sér lífshlaup viðkomandi einstaklings (yfirleitt tók það ekki langan tíma því viðfangsefnið var heimsfrægt) og ræddi við hann. Flestar mynda hans eru svarthvítar.
Karsh giftist leikkonunni Solange Gauthier árið 1939 en hún lést árið 1961 úr krabbameini. Rúmi ári seinna kvæntist hann Estellita Nacbar, sem var tuttugu árum yngri en hann. Bæði hjónabönd voru barnlaus. Hann lést árið 2002, 93 ára gamall.
International Who’s Who 2000 reiknaðist til að af 100 frægustu einstaklingum 20. aldar hefði Karsh ljósmyndað 51 þeirra. Þar á meðal voru Einstein, Elizabeth Taylor, Audrey Hepburn, Ernest Hemingway, Picasso, Walt Disney, Elísabet prinsessa (seinna Englandsdrottning), Fidel Castro, Yuri Gagarin, Martin Luther King og Leonid Brezhnev. Listinn er sannarlega bæði langur og glæsilegur.